Glúmur um mál Steinunnar: „Þykir svakalega merkilegt þegar konur eiga í hlut“

Glúmur Baldvinsson, sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar, gerir á Facebook-síðu sinni lítið úr kvörtunum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um að hún hafi mátt þola ofbeldi og ofsóknir vegna stjórnmálaþátttöku sinnar. Glúmur segir að slíkt hafi ekkert með kynferði að gera og fylgi einfaldlega stjórnmálaþátttöku. Steinunn tjáði sig fyrsta sinn opinberlega um hótanir sem henni hafði borist í Silfrinu í gær. Steinunn sagði:

„Ég sat undir því að þekktir nafngreindir menn hvöttu aðra karlmenn til að fara heim til mín og nauðga mér. Þeir hvöttu til nauðgana á mér vegna starfa minna í stjórnmálum og vegna þeirra mála sem ég hafði barist fyrir sérstaklega í borgarstjórn og ég hugsa stundum, hvernig samfélagið hefði brugðist við og hvernig lögreglan hefði brugðist við ef að það hefði komið ákall frá þessum mönnum um að fara heim til Dags B. Eggertssonar og nauðga honum. Ég held að það hefði verið brugðist öðruvísi við,“ sagði Steinunn. Um viðtalið hafði Glúmur þetta að segja:

„Þetta þykir svakalega merkilegt þegar konur eiga í hlut. Ég man sjálfur ekki eftir öðru en eggjakasti og árás á heimili mitt í áratug án þess að ég léti það á mig fá. Mér fannst eggjakastið skemmtilegast. Notaði það í hárnæringu. Ef fólk ætlar sér að standa i framverði í pólitík á verður það því miður að þola ekki bara frægðina heldur líka skítkastið. Þannig er pólitíkin vaxin. Konur eður karlmenn sem ætla í pólitík verða að taka bæði hinu góða og hinu illa. Ella er betur heima setið en af stað farið,“ segir Glúmur.

Hann skýrir mál sitt nánar í athugasemdum við færsluna og segir að sér hafi borist morðhótanir en ekki hótanir um nauðgun.

„Afsakið ef fólk á eitthvað erfitt með að skilja þetta. Morðhótanir komu inná okkar borð vikulega. Mér var ekki hótað nauðgun enda efast ég um að nokkur hafi áhuga á að nauðga mér. En morðhótanir reglulegar,“ skrifar Glúmur og bætir við: „Punkturinn er þessi að ef fólk óskar eftir pólitískri upphefð þá því miður kemur með því skítkast. Take it or leave it.“

Hann segir enn fremur að níð og illmælgi fylgi ávallt þátttöku í stjórnmálum:

„Það virðist vera afar fáum gefið að skilja að ef fólk ætlar sér í pólitík og sér í lagi ef það ætlar sér að vera í forystu þá verður það að gera sér grein fyrir því að það er ekki bara pólitíkusinn sjálfur sem er kominn í pólitík heldur öll fjölskyldan og því fylgir oft og tíðum svakalegt níð og illmælgi. Það er í boði. Einnig í boði frægð og frami en níðið og illmælgið fylgir alltaf og það gildir um alla stóra stjórnmálamenn. Ef fólk er ekki tilbúið að henda fjölskyldunni á vígvöllinn þá ætti það að snúa sér að öðru, t..d bankaviðskiptum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.