Fallbyssur á Sæbraut: Vegfarendur ráku upp stór augu

„Fallbyssurnar sem eru um borð í varðskipunum voru smíðaðar árið 1936, þær þykja óhentugar og teljast ekki lengur öruggar í notkun“
Tvær fallbyssur á flutningabíl „Fallbyssurnar sem eru um borð í varðskipunum voru smíðaðar árið 1936, þær þykja óhentugar og teljast ekki lengur öruggar í notkun“

Einhverjir kunna að hafa rekið upp stór augu þegar flutningabíll með tvær stórar fallbyssur keyrði um götur borgarinnar á eftirmiðdegi 30. nóvember. Vésteinn Valgarðsson, varaformaður Alþýðufylkingarinnar, gerði það að minnsta kosti og náði mynd af bílnum. Eftir að hann birti myndirnar á Facebook fór fólk að giska á hvort um kvikmyndaleikmuni væri að ræða enda Ísland vinsæll tökustaður fyrir Hollywood-kvikmyndir.

DV fór á stúfana og komst að því að þessar fallbyssur koma frá Landhelgisgæslunni. Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, segir að keyptar hafi verið fjórar fallbyssur, af gerðinni Bofors, af norskum stjórnvöldum fyrir íslensku varðskipin.

Uppfærðar um þrjátíu ár

Sveinn segir að ekki sé um neina stefnubreytingu að ræða varðandi valdbeitingarbúnað. Löngu tímabært hafi verið að skipta um byssur. „Varðskip Landhelgisgæslunnar hafa frá upphafi verið búin fallbyssum. Þeim var síðast beitt í þorskastríðunum á áttunda áratugnum og höfðu þá talsvert að segja í baráttunni við erlenda landhelgisbrjóta. Fallbyssurnar sem eru um borð í varðskipunum voru smíðaðar árið 1936, þær þykja óhentugar og teljast ekki lengur öruggar í notkun.“

Hann segir samningana um byssurnar fjórar hafa verið gerða fyrir nokkrum árum síðan. „Fallbyssurnar eru nú komnar til landsins eftir að hafa verið tollafgreiddar. Þær koma í staðinn fyrir gömlu fallbyssurnar í varðskipunum Þór, Týr og Ægi en sú fjórða verður til skiptanna ef gera þarf við hinar. Reiknað er með að uppsetning fallbyssanna um borð í varðskipunum hefjist á nýju ári en þangað til verða þær í geymslum Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.“

Byssurnar voru smíðaðar á sjöunda áratug síðustu aldar og kaupverðið er ein milljón norskra króna, sem gerir um 13 milljónir íslenskra króna. Af þessum þrettán milljónum greiðist um 7,8 fyrir byssurnar sjálfar en 5,2 fyrir standsetningu þeirra. Við kaupverðið bætist svo 24% virðisaukaskattur og flutningsgjald. Kaupin eru fjármögnuð af rekstrarfé Landhelgisgæslunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.