Fæddur á Íslandi – Alinn upp í Bandaríkjunum – Situr fastur í Danmörku og ekkert ríki vill hafa hann

Brian Jakob Campbell með íslenska vegabréfið sitt.
Brian Jakob Campbell með íslenska vegabréfið sitt.
Mynd: Skjáskot af vef DR.

Óvenjulegt mál kom upp í Danmörku fyrir nokkrum dögum og rataði í fréttirnar en málið varðar mann sem fæddist á Íslandi, ólst upp í Bandaríkjunum en situr nú fastur í Danmörku því ekkert ríki virðist vilja hafa hann.

Maðurinn sem um ræðir heitir Brian Jakob Campbell og er 39 ára. Hann hefur undanfarna 16 mánuði búið í Viborg á Jótlandi en þangað kom hann frá Bandaríkjunum. Danska ríkisútvarið (DR) skýrir frá þessu.

Í umfjöllun DR kemur fram að Brian hafi fæðst á Íslandi en hann á íslenska móður. Hann hafi alist upp í Bandaríkjunum hjá bandarískum föður sínum. Þegar faðir hans lést fékk Brian miklar skuldir í arf og það hafði í för með sér að hann var borinn út af heimili sínu og bjó á götunni. Eftir nokkurra ára basl í fátækt náði hafði hann náð að safna nægu fé til að kaupa flugmiða til Danmerkur en hann á hálfsystur í Viborg.

Hann flaug því til Danmerkur og flutti inn til systur sinnar í Viborg. Íslenska sendiráðið í Washington hafði gefið út bráðabirgðavegabréf fyrir Brian sem gerði honum kleift að komast til Danmerkur.

„Ég hélt að ég væri að fara að hefja nýtt líf í Danmörku.“

Hefur DR eftir honum. En í sumar syrti í álinn þegar dönsk yfirvöld báðu hann um að fara heim til Íslands því hann gæti ekki lengur verið á opinberu framfæri í Danmörku.

Íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn hefur ógilt vegabréf hans og því kemst hann ekki úr landi. Í frétt DR kemur fram að íslensk yfirvöld telji Brian ekki vera íslenskan ríkisborgara því hann hafi alist upp í Bandaríkjunum. Á Íslandi sé hann því skráður sem Bandaríkjamaður en í Bandaríkjunum er hann skráður sem Íslendingur. Brian er því í þeirri stöðu núna að hann er í raun ríkisfangslaus og fær enga opinbera fjárhagsaðstoð.

DR hefur eftir Brian að hann leiti nú leiða til að fá mál sitt tekið upp á nýjan leik hjá dönskum stjórnvöldum til að hann komst inn í kerfið á nýjan leik.

Það sem vakti þó mesta athygli Dana í málinu var að þrátt fyrir að búið væri að vísa Brian úr landi þá gat hann kosið í sveitastjórnarkosningunum sem fóru fram 21. nóvember. Það var vegna þess að í dönskum skrám er hann skráður sem íslenskur ríkisborgari og því var hann með kosningarétt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.