Birgitta segir eldri konu hafa ráðist á sig í matvöruverslun: „Skammast mín fyrir að hafa ekki gert meira“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir það alrangt að hún hafi staðið að baki mótmælum við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar. Steinunn greindi frá í Silfrinu í gær reynslu sinni af ofbeldi og ofsóknum.

Í kjölfar þess fór frétt mbl.is frá árinu 2013 á flakk á Facebook en þar fullyrti Steinunn að Birgitta hafi skipulagt mótmælin. Birgitta segist sjálf hafa orðið fyrir ofsóknum.

Sjá einnig: Steinunn fjallar um ofsóknirnar gegn sér: „Átta ár síðan ég lenti í mínu ofbeldi“

„Ég vil halda því til haga að ég hef ALLTAF verið því mótfallinn að fólk mótmæli fyrir utan heimili fólks. Ég lét þá sem stóðu fyrir því heyra það á sínum tíma. Það er ekkert sem réttlætir slíka aðför að friðhelgi fólks alveg sama hvar í flokki það stendur. Á Íslandi er aðgengi að stjórnmálafólki með því besta sem gerist í heiminum vegna hefða og fámennis,“ segir Birgitta.

Birgitta segir enn fremur að hún fái sjálf reglulega morðhótanir: „Ég hef sjálf lent í því að ég hef fengið yfir mig morðhótanir reglulega og talin réttdræp. Á mig var t.d. ráðist í matvöruverslun á þann veg á eldri kona klessti á mig hressilega og viljandi með innkaupakerru sinni og hrópaði að mér níð í viðurvist yngri sonar míns, en það er í engu sambærilegt við það sem Steinunn Valdís varð fyrir og er sú aðför að henni smánarblettur á stjórnmálasögu okkar. Ég eins og fleiri skammast mín fyrir að hafa ekki gert meira til að standa með henni á sínum tíma og bið hana afsökunar á því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.