fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Þetta bar hæst í september: Kúkað í ruslatunnu, sprenging í Skipholti og harmleikur á Hagamel

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 30. desember 2017 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

4. september – Svisslendingur í nálgunarbann gagnvart 13 ára dreng

Martin Gasser, jarðfræðingur frá Sviss og íbúi á Breiðdalsvík, var settur í nálgunarbann gegn 13 ára dreng. Var hann sakaður um að hafa lagt hendur á drenginn og hafa lagt hann í einelti í tvö ár. Faðir drengsins sagði að málið hefði byrjað eftir að drengurinn hafi skemmt staur í svokölluðum „plánetustíg“ sem Gasser vann að. Í samtali við DV sagðist Gasser hins vegar að drengurinn hefði margsinnis áreitt fjölskyldu sína og hann hafi þurft að verjast.

7. september – Sprenging í Skipholti

Á ellefta tímanum varð mikil sprenging í bílskúr við Skipholt 45 og í kjölfarið varð mikill eldsvoði. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn sem réð niðurlögum eldsins nokkuð fljótt. Bílskúrinn var innréttaður sem heimili og slasaðist íbúi skúrsins við sprenginguna. Upphaflega var greint frá því að lögreglan leitaði tveggja annarra manna sem kynnu að hafa meiðst í slysinu en það var síðan borið til baka. Ekki var vitað hvað olli slysinu.

9. september – Mótmæli vegna Mary og Haniye

Fjölmenn mótmæli voru á Austurvelli vegna brottvísunar tveggja ungra stúlkna, Mary Iserien frá Kenýa og Haniye Maleki frá Afganistan. Um 15 þúsund manns skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda um að snúa ákvörðuninni við hjá Útlendingastofnun. Lagt var fram frumvarp um að stúlkurnar fengju ríkisborgararétt og var það samþykkt á lokadögum þingsins.

14. september – Ungir sjálfstæðismenn kúkuðu í ruslatunnu

Sambandsþing ungra sjálfstæðismanna, SUS, fór fram á Eskifirði. Þingið komst í fréttir fyrir hatramma og útsmogna baráttu formannsefnanna, Ingvars Smára Birgissonar og Ísaks Einars Rúnarssonar. Smalað var á þingið og ölvun talsverð á svæðinu. Eskfirðingar voru ekki hrifnir af umgengni ungliðanna. Einn sagði: „Dæmi eru um að kúkað hafi verið í ruslatunnu, tómatsósu og sinnepi sprautað á hús í bænum og einhverjir tóku upp á því að fleyta kerlingar með leirtauinu af barnum.“

Afdrifaríkt viðtal.
Sigríður Andersen Afdrifaríkt viðtal.

Mynd: Alþingi

14. september – Sigríður upplýsti Bjarna

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hún hefði upplýst Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í lok júlí um að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði veitt níðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli um uppreista æru á síðasta ári. Sagðist hún hafa fengið þessar upplýsingar frá embættismönnum í ráðuneytinu og talið rétt að láta Bjarna vita strax í ljósi aðstæðna.

15. september – Stjórnin fallin

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið laust eftir miðnætti aðfaranótt 15. september. Aðdragandi stjórnarslitanna var mál níðingsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar sem Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, skrifaði umsögn um uppreista æru fyrir. Stjórn Bjartrar framtíðar taldi að um trúnaðarbrest hafi verið að ræða þegar samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið tilkynnt strax um að Benedikt hefði skrifað undir. Ríkisstjórninni var slitið eftir rafræna kosningu stjórnarmanna.

18. september – Kjördagur ákveðinn

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, féllst á tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að þing yrði rofið og gengið til alþingiskosninga 28. október, aðeins um ári eftir síðustu kosningar. Enginn grundvöllur var til að mynda nýja ríkisstjórn með þeim þingheimi sem sat og settu engir sig upp á móti nýjum kosningum. Starfsstjórn ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar sat fram að kosningum.

19. september – Burger-Inn móðgar viðskiptavin

Maður að nafni Jakub Clark var ósáttur við mat sinn og þjónustu á veitingastaðnum Burger-inn í Hafnarfirði. Gaf hann staðnum í kjölfarið slæma einkunn á Facebook, aðeins eina stjörnu. Um nóttina fékk hann svo vægast sagt ofsafengin viðbrögð frá vaktstjóra staðarins. Í skilaboðunum stóð meðal annars: „HENGDU ÞIG“. Burger-inn er nú til sölu.

Sögðu viðskiptavini að hengja sig.
Burger-inn Sögðu viðskiptavini að hengja sig.

21. september – Lettnesk kona myrt á Hagamel

Sanita Brauna, 44 ára þriggja barna móðir, var myrt á hrottafenginn hátt á heimili sínu á Hagamel. Sanita sem var frá Lettlandi hafði búið hér á landi í tvö ár. Khaled Cairo, meintur gerandi og hælisleitandi frá Jemen, var handtekinn á staðnum ásamt íslenskum manni sem var fljótlega sleppt. Khaled mun hafa átt í samskiptum við Sanitu á netinu og orðið ósáttur þegar hún sýndi honum ekki áhuga. Barði hann hana ítrekað með glerflöskum og slökkvitæki og herti að hálsi hennar. Var hann ákærður fyrir verknaðinn 18. desember.

24. september – Sigmundur Davíð hættir í Framsóknarflokknum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði sig úr flokknum eftir það sem hann kallaði aðför flokkseigendafélagsins. Eftir að Sigmundur tapaði naumlega í formannsslag fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni hafði staða hans verið mjög óljós í langan tíma. Í aðdraganda kosninganna vildi Þórunn Egilsdóttir fella hann af stóli oddvita Norðausturkjördæmis og þá lét hann til skarar skríða. Fleiri sögðu sig úr Framsóknarflokknum, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og stofnuðu Miðflokkinn.

28. september – Logi með verðmætasta typpið

Logi Már Einarsson brást keikur við því að teiknaðar nektarmyndir af honum væru í dreifingu á netinu. Myndirnar eru frá menntaskólaárum Loga þegar hann vann sér inn vasapening hjá föður sínum sem var myndlistarkennari. Dagskrárgerðarfólk á Útvarpi Sögu vildi hæða Loga fyrir þetta en hann sagðist feginn að þær væru frá þeim tíma þegar hann var 18 ára. Mögulega væru þetta teikningar eftir þekkta listamenn. Sagði hann: „Það er því mögulegt að ég sé með verðmætasta typpið á Alþingi.“

29. september – Thomas Olsen í 19 ára fangelsi

Thomas Möller Olsen var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til 19 ára fangelsisvistar fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og stórfellt fíkniefnabrot. Um 20 kíló af hassi fundust um borð í Polar Nanoq sem hann játaði að hafa í vörslu sinni. Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, hafði farið fram á 18 ára dóm og var hann því þyngri en búist var við. Dómarar tóku það til greina að hann hafi reynt að koma sök á félaga sinn í vitnaleiðslum. Málið verður væntanlega eitt af þeim allra fyrstu sem koma fyrir nýstofnaðan Landsrétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“