fbpx
Föstudagur 22.febrúar 2019
Fréttir

Þetta bar hæst í júlí: Lamb skorið á háls, banaslys og bónusgreiðslur

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 30. desember 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

2. júlí – Ferðamenn slátruðu lambi með hníf

Tveir ferðamenn voru handteknir á Austurlandi og færðir á lögreglustöðina á Fáskrúðsfirði klukkan níu um kvöldið. Mennirnir, sem voru bandarískir ríkisborgarar, ættaðir frá Afganistan, höfðu tekið lamb og skorið það á háls en lambið var í eigu Hreins Péturssonar, bónda á Ósi í Breiðdal. Dóttir bónda af næsta bæ kom að mönnunum þar sem þeir voru að skera lambið. Í samtali við DV sagði Hreinn það hafa verið gert á frekar áhugamannalegan hátt. Mennirnir voru kærðir fyrir eignaspjöll og brot á dýraverndunarlögum og var málið afgreitt með sektargreiðslu á staðnum.

5. júlí – Bónusgreiðslur LBI valda reiði

Fjórir stjórnendur LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, skiptu með sér 370 milljóna króna bónusgreiðslum vegna skuldauppgjörs bankans níu árum á undan áætlun. Hver þeirra fékk um 90 milljóna króna greiðslu. Var þetta réttlætt á þann hátt að það þjónaði hagsmunum bankans að flýta greiðslunum til að losna við fjármagnskostnað. Mörgum blöskraði þetta, þar á meðal Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Hann sagði: „Manni verður hreinlega óglatt við að lesa svona fréttir.“

7. júlí – Tveir ferðamenn hröpuðu til dauða

Erlendur ferðamaður féll fram af hamrabrún í Hljóðaklettum í Jökulsárgljúfri um klukkan þrjú síðdegis. Fallið var um fimmtán til tuttugu metra hátt og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi. Þyrla var kölluð til en snúið við þegar ljóst var að maðurinn var látinn. Þá lést erlend kona á fjallinu Kirkjufelli á norðanverðu Snæfellsnesi. Hún var á göngu ásamt tveimur öðrum þegar hún hrapaði um fimmtíu metra.

8. júlí – Fimm keppendur skullu saman á hjólreiðamóti

Mikið slys varð þegar fimm keppendur í hjólreiðakeppninni KIA Gullhringurinn skullu saman á Skálholtsvegi við Brúará. Einn af þeim var fluttur með þyrlu á Landspítalann, alvarlega slasaður. Þrír hlutu minni háttar meiðsl en einn slapp ómeiddur. Lögreglan lokaði svæðinu og urðu þeir sem á eftir voru að hætta keppni en þeir sem komnir voru framhjá kláruðu keppnina. Haldin var grillveisla um kvöldið þar sem hugsað var til þeirra sem slasast höfðu. Líðan mannsins sem fluttur var á spítala var orðin mun betri daginn eftir.

12. júlí – Heilabilaður maður skikkaður til að greiða tvöfalda leigu

Mál hins 69 ára gamla Lýðs Ægissonar komst í deigluna eftir að upplýst var að hann þyrfti að greiða leigu fyrir tvo staði á vegum Hjúkrunarfélagsins EIR, samanlagt 574 þúsund krónur og mun meira en hann hafði efni á. Lýður, sem glímir við ýmis veikindi, gat ekki lengur búið í öryggisíbúð sinni og þurfti að flytja inn á hjúkrunarheimilið. Fjölskylda Lýðs og forsvarsmenn Eirar hafa deilt um málið í fjölmiðlum, hvenær leigu öryggisíbúðarinnar hafi verið sagt upp.

17. júlí – Kona á Stokkseyri taldi að um íkveikju væri að ræða

Íbúi á Stokkseyri, Andrea Kristín Unnarsdóttir, missti heimili sitt og barnið sem hún bar undir belti í miklum bruna á heimili sínu klukkan hálf sex um morguninn. Andrea sagði að maður hefði komið inn til sín og skvett eldfimum vökva yfir hana og kveikt í. Hún komst af sjálfsdáðum út úr húsinu, velti sér í grasinu og náði að slökkva eldinn í sjálfri sér en húsið gereyðilagðist. Hlaut hún mikil brunasár og dvaldist á spítala eftir brunann. Lögregla sagði að um grafalvarlegt mál væri að ræða en varðist frétta um hvort málið væri rannsakað sem morðtilraun.

19. júlí – Hælisleitandi fellur í Gullfoss

22 ára hælisleitandi frá Georgíu, Nika Begades, féll í Gullfoss um klukkan fimm síðdegis. Óljóst er hvað gerðist en málið var rannsakað sem slys. Fólk á staðnum sá Nika milli fossa en svo hvarf hann sjónum. Björgunarsveitarmenn og þyrla voru kölluð á staðinn sem komu á vettvang um sex leytið. Leitað var dagana á eftir en árangurslaust. Sporhundar röktu ferðir Nika frá bifreið að útsýnispallinum og svo niður undir ána. Um miðjan ágúst fannst lík hans neðan Brúarhlaða á austurbakka Hvítár.

21. júlí – Nauðgaði tveimur stúlkum en komst fljótlega á Vernd

DV greindi frá því að í desember árið 2016 hafi átján ára piltur verið dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tveimur fimmtán ára stúlkum á hrottalegan hátt með aðeins viku millibili. Hálfu ári eftir uppkvaðningu dómsins var pilturinn kominn á áfangaheimilið Vernd og keyrði daglega um götur borgarinnar. Þolendur hans gátu því átt von á því að mæta honum hvar sem er aðeins tæpu ári eftir að brotin áttu sér stað. Samkvæmt lögum eru reglur um reynslulausn rýmri ef um ungt fólk er að ræða en þá aðeins í málum þar sem brot eru ekki talin alvarleg.

25. júlí – Kynnisferðir í ölduróti

Sumarið var stormasamt hjá rútufyrirtækinu Kynnisferðir/Reykjavik Excursions. 25. júní birtist myndband af glæfraakstri ökumanns. Sléttum mánuði síðar greindi DV frá því að rúta félagsins hefði verið notuð til að smygla áfengi og fleiru til landsins. Hinn 3. ágúst var á annan tug starfsmanna sagt upp. 6. ágúst greindi DV frá því að rútubílstjóri Kynnisferða hafi verið handtekinn við Jökulsárlón undir áhrifum við akstur ferðamanna. Þann 7. september gáfu Kynnisferðir út tilkynningu um að Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri til sex ára, myndi láta af störfum.

31. júlí – Stóra kjólamálið

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, komst í hann krappan eftir að hafa orðið uppvís að því að brjóta reglur Alþingis um myndatökur í þingsal. Björt var mynduð fyrir framan ræðupúltið í kjól frá tískuvöruframleiðandanum Galvan London. Björt og Sóla Káradóttir, listrænn stjórnandi framleiðandans, eru vinkonur. Mörgum, þar á meðal Smára McCarthy, þingmanni Pírata, fannst athæfið ekki auka virðingu Alþingis. Málið fór hátt og flestir höfðu skoðun á því. Bubbi Morthens sagði til dæmis að þetta væri „ekki ráðherra sæmandi“. Björt hló hins vegar að málinu. „Það gæti auðvitað endanlega farið með feðraveldið eins og það leggur sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af