fbpx
Fréttir

Þetta bar hæst í ágúst: Ólæti unglinga, umdeild meðmælabréf og réttarhöld yfir Thomas Olsen

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 30. desember 2017 19:00

3. ágúst – Fyrsti samkynhneigði presturinn á Íslandi

Stefanía Guðlaug Steinsdóttir verður fyrsti samkynhneigði prestur þjóðkirkjunnar er hún hefur störf í Glerárprestakalli. „Já, mér skilst það. Ég hef ekki mætt neinum fordómum enda hefur afstaða almennings til samkynhneigðar tekið jákvæðum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Opinberlega telst ég vera fyrsti samkynhneigði prestur þjóðkirkjunnar og ég er þakklát kirkjunni fyrir að velja mig til þessarar ábyrgðarstöðu,“ sagði Stefanía við N4 á Akureyri.

5. ágúst – Ólæti meðal unglinga á Flúðum

Mikill erill var á fjölskylduhátíðinni Flúðir um Versló um verslunarmannahelgina, en slagsmál brutust út meðal stórs unglingahóps hvar margir voru undir áhrifum fíkniefna og vopnaðir hnífum, sem er þó ekki talið að hafi verið beitt. Lögreglan kom á svæðið undir klukkan sjö að morgni, en gat lítið aðhafst vegna manneklu, þar sem gæslufólk er af skornum skammti þessa annasömu helgi. Töldu margir að gæslumál hefðu verið í lamasessi.

Neitaði að upplýsa um nöfn meðmælenda Roberts Downey.
Brynjar Níelsson Neitaði að upplýsa um nöfn meðmælenda Roberts Downey.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

8. ágúst – Brynjar Níelsson neitar að upplýsa um meðmælendabréfin

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segist vita hvaða tveir valinkunnu einstaklingar mæltu með að Róbert Downey hlyti uppreist æru. Róbert getur því samkvæmt lögum starfað sem lögmaður þó svo hann hafi verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum og misst þar af leiðandi lögmannsréttindi sín. Brynjar neitaði að upplýsa um gögnin og segir þau trúnaðarmál. Fjölmiðlar hafa reynt að nálgast gögnin, en ávallt verið neitað af dómsmálaráðuneytinu. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

11. ágúst – Magakveisufaraldur skáta á Úlfljótsvatni

Á nokkrum dögum veiktust hátt í sjötíu piltar sem dvöldu í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni, en talið er að um nórósýkingu hafi verið að ræða. Sýni voru greind og send til rannsóknar, en sumir þurftu að fá næringu í æð. Um 170 skátadrengir voru fluttir frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparstöð í Hveragerði þar sem heilbrigðisstarfsfólk hlúði að þeim.

14. ágúst – Segir Davíð Oddson hætta um áramót

Fjölmiðlamaðurinn Sigurjón M. Egilsson fullyrti á vef sínum, Miðjunni, að Davíð Oddson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, hygðist hætta störfum um áramót. Sagðist Sigurjón hafa heimildir innan blaðsins þess efnis, en ekki hver myndi taka við stjórnartauminum. Haraldur Johannessen framkvæmdastjóri hefur einnig ritstýrt blaðinu ásamt Davíð og segir Sigurjón að í þeirra tíð hafi tekist að berjast gegn breytingum á kvótakerfinu, aðild að ESB og breytingum á stjórnarskránni, þó svo lesendum hafi fækkað. Það ætti að koma í ljós bráðlega hvort Sigurjón hafi haft rétt fyrir sér.

16. ágúst – Ósætti beinist að Hjörleifi vegna brotthvarfs sjómannamyndar

Myndinni af íslenska sjómanninum sem prýtt hafði Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í um tvö ár, var sárt saknað þegar kom í ljós að málað hafði verið yfir hana. Einn aðdáenda myndarinnar var Þórólfur Júlían Dagsson, sjómaður og Pírati, sem vandaði Hjörleifi Guttormssyni, fyrrverandi ráðherra, ekki kveðjurnar, en Hjörleifur býr í hverfinu og hafði barist fyrir því að myndin yrði fjarlægð. „Hann ætti að skammast sín. Þetta er honum ekki til framdráttar. Ég er nokkuð viss um að sjómenn fyrir austan eru ekki ánægðir með fyrrverandi ráðherra. Sjómennskan er arfleifð okkar og við eigum að vera stolt af henni,“ sagði Þórólfur.

 1. ágúst – Vilja loka United Silicon vegna mengunar
  Samtök andstæðinga stóriðju í Helguvík sendu frá sér yfirlýsingu hvar þeir hvöttu til þess að verksmiðju United Silicon í Helguvík verði lokað. Hluti íbúa Reykjaness er sagður hafa orðið fyrir verulegum óþægindum og vanlíðan vegna mengunar frá verksmiðjunni, sem gangi þvert á starfsleyfi hennar og sé ólíðandi með öllu. Er nefnt að astmaeinkenni, hæsi, sviði í augum og þurrkur í hálsi sé meðal þess sem plagi íbúa. Þá er skorað á yfirvöld að loka verksmiðjunni.

 2. ágúst – Og hvað á Samfylkingin að heita?
  Í kjölfar afhroðs Samfylkingarinnar í kosningunum 2016 kom upp sú umræða að hugsanlega þyrfti að endurnýja heiti flokksins. Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson, nú þingmaður Samfylkingarinnar, stakk upp á nafnbótinni „Jafnaðarmannaflokkurinn“ í pistli sínum á Facebook. Honum varð ekki að ósk sinni. Enn þá.

 3. ágúst – Hoppukastali fullur af börnum fauk á hliðina
  Betur fór en á horfðist þegar hoppukastali, fullur af ánægðum börnum að leik, fauk um koll á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Mikil skelfing greip um sig og kallaður var til sjúkrabíll. Engin meiðsli hlutust þó af. Kastalinn var ekki festur niður á neinn hátt, líkt og gjarnan tíðkast. Starfsmaður Sprell.is, sem sér um hoppukastalann, sagði þó á vettvangi að of mörg börn hefðu safnast saman við enda kastalans.

 4. ágúst – Réttað yfir Thomasi Möller Olsen
  Vitnaleiðslur í einum stærstu réttarhöldum Íslandssögunnar hófust í Héraðsdómi Reykjaness. Réttað var yfir Thomasi Möller Olsen, skipverja af grænlenska togaranum Polar Nanoq, fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur í janúar. Tugir báru vitni, bæði viðstaddir og erlendis frá í gegnum síma. Athygli vakti að Thomas breytti framburði sínum töluvert frá skýrslutökunum og virtist beina sökinni að félaga sínum, Nikolaj Olsen. Fjölmiðlafólk fyllti salinn en var vísað út á meðan réttarmeinafræðingur sýndi gögn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“
Fréttir
Í gær

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð
Fréttir
Í gær

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum