fbpx
Fréttir

Völva DV fyrir árið 2018: Eldgos, hneykslismál og skelfingu lostin heimsbyggð

Áramótaspá

Ritstjórn DV
Föstudaginn 29. desember 2017 13:30

Blaðamaður heldur á fund spákonunnar sem reyndist svo sannspá á síðasta ári. Hún býr í litlu grænmáluðu húsi rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Hún kemur til dyra og heilsar hlýlega og býður blaðamanni til stofu. Sem fyrr er kristalskúlan góða á stofuborðinu. Það er vistlegt og jólalegt hjá völvunni sem segir blaðamanni að hún sé mikið jólabarn og hafi alltaf verið. Hún býr ein en eiginmaður hennar lést fyrir einhverjum árum. Aðspurð segist hún halda jólin hátíðleg á heimili sonar síns og tengdadóttur í Kópavogi. Blaðamaður fær sér sæti í IKEA-sófanum og völvan sest andspænis honum. Eins og á síðasta ári vekja augu völvunnar sérstaka athygli blaðamanns, þau eru ekki bara góðleg, það er hreinlega eins og þau sjái í gegnum holt og hæðir.

Eldgos og jarðskjálftar

Völvan segir að náttúruöflin muni minna rækilega á sig á árinu. Eldgos verður á Suðurlandi sem valda mun nokkru eignatjóni. Þessi eldsumbrot tengjast Kötlueldstöðinni og vatn mun flæða frá Mýrdalsjökli. Umbrotin verða þó á óvæntum stað og flóðin verða ekki eins og vísindamenn hafa gert sér í hugarlund. Byggð í sveitum er þó í mikilli hættu og víst er að einhverjir þurfa að flýja heimili sín fyrirvaralaust. Flugumferð mun leggjast af um tíma og íslenska og erlenda pressan fylgjast vel með. Björgunarsveitir landsins standa vaktina svo eftir verður tekið.

Öræfajökull heldur áfram að byggja sig upp fyrir næsta gos, þótt ekki sé líklegt að það verði alveg á næstunni. Kröftugur jarðskjálfti verður í grennd við Tröllaskaga og vekur ótta á Akureyri og nágrenni. Eignatjón verður þó ekki mikið. Völvan segir að nokkuð verði um jarðhræringar á næstu árum en ítrekar að fólk verði að halda ró sinni.

Farsælt fyrsta ár

Völvan segir að ný ríkisstjórn muni ekki sitja út kjörtímabilið. Fyrsta árið verði þó fremur farsælt. Samstarf leiðtoga stjórnarflokkanna mun ganga vel, þeir virka samstíga og styðja hver annan, segir hún. Það mun þó valda nokkurri óánægju innan Framsóknar og Vinstri grænna hversu fast Bjarni Benediktsson mun halda í budduna í ýmsum málaflokkum sem þessir tveir flokkar vilja eyða ómældum peningum í. Bjarni mun standa fastur fyrir þótt einhver útgjaldaaukning verði. Vegna þessa mun núningur meðal þingmanna ríkisstjórnarinnar valda meiri erfiðleikum en ella hefði verið. Óeining muni síðan blossa upp 2019, samstarfið muni laskast mjög og stjórnarslit verði ekki umflúin. Völvan ítrekar um leið að á árinu 2018 muni samt ekkert benda til annars en að samstarfið muni halda út kjörtímabilið, en síðan muni heldur betur halla undan fæti. „Þetta mun enda með ósköpum,“ segir hún.

Velsæld í efnahagslífinu

Völvan segir að áframhaldandi velsæld verði í efnahagslífi þjóðarinnar. Þar verður ekkert bakslag næstu árin þótt verðbólga aukist eitthvað vegna of mikillar þenslu í ríkisútgjöldum. Það er ekki fyrr en 2027 sem hún sér kreppuástand. Það verður þó ekki jafn slæmt og á hrunárunum. Þjóðin þarf sem sagt engu að kvíða á næstunni. Góðærið mun þó leiða til þess að bilið á milli þeirra ríkustu og þeirra sem minnst eiga verður æ meira áberandi.

Þegar líður á árið kemur í ljós að Katrín Jakobsdóttir mætti vera röskari við verkstjórn sem hún sinnir ekki nægilega.

Erfiðar vinnudeilur

Árið mun einkennast af titringi og erfiðum vinnudeilum. Ríkið verður gagnrýnt harkalega fyrir að koma ekki inn í kjaradeilurnar sem slíkar með sértæk útspil. Það kemur til vinnudeilna og verkfalla en flest mál munu leysast þannig að vinnuveitendur og viðsemjendur munu telja sig hafa náð eins viðunandi niðurstöðu og hægt er. Þetta mun hins vegar ekki vera skoðun launamanna og í einhverjum tilvikum verða kjarasamningar, sem samninganefndir verkalýðsfélaganna hafa náð, felldir í almennri atkvæðagreiðslu.

Forsetinn vekur reiði Vinstri grænna

Það mun verða áframhald á því að flóttafólki og barnafjölskyldum verði vísað úr landi sem mun valda Vinstri grænum talsverðum erfiðleikum í umræðunni þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir, og þá sérstaklega Samfylking og Viðreisn, munu beina spjótum að Vinstri grænum og flokkurinn getur illa varið sig. Þetta mun ekki breyta stuðningi við Vinstri græna meðal þjóðarinnar en reynast þeim erfitt innan flokks. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, blandar sér í málið og talar með þeim hætti að hluti stjórnarandstöðunnar mun verða ánægður með hann en ríkisstjórnarflokkarnir allir verða hinir æfustu og segja að þarna hafi hann farið út fyrir verksvið sitt. Það mun koma mörgum í opna skjöldu hversu Vinstri græn bregðast illa við orðum forsetans miðað við ímynd flokksins i þeim málum en þarna munu hagsmunir Vinstri grænna sem ríkisstjórnarflokks hafa meira vægi en margur kynni að ætla fyrirfram.

Það verður enn frekari aukning á erlendu vinnuafli til dæmis vegna samgönguframkvæmda. Þar munu líka sjást mikil merki um félagsleg undirboð og illa meðferð á því erlenda fólki sem hingað kemur. Ríkisstjórnin mun liggja undir gagnrýni fyrir það, einkum og sér í lagi Vinstri græn.

Stórbruni í starfsmannaleigu

Stórbruni verður í ólöglegu húsi starfsmannaleigu og íbúar komast út við illan leik. Eigendurnir eru dregnir fyrir dómstóla. Hneykslið snýr þó fyrst og fremst að eftirlitsaðilum, heilbrigðiseftirlitinu og brunaeftirlitinu, sem hafa látið slíkt fyrirkomulag óátalið vegna húsnæðisskorts. Tekið verður á vandamálinu.

Stjórnmálamenn í eldlínunni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra mun verða verulega í eldlínunni og sæta mikilli gagnrýni landsbyggðarmanna, einkum Vestfirðinga og Austfirðinga, vegna mjög hertra krafna í sjávarfiskeldi, auk þess sem hann mun beita sér gegn vegagerð á ákveðnum svæðum. Þetta mun skapa honum verulegar óvinsældir úti á landi en að sama skapi mun hann eignast ákafa stuðningsmenn í hópi vinstri sinnaðra menntamanna á höfuðborgarsvæðinu.

Völvan sér mikla óánægju í garð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra frá afmörkuðum hópi innan heilbrigðisgeirans vegna máls sem hópurinn telur ganga gegn hagsmunum sjúklinga. Mikil ánægja verður þó með framgöngu Svandísar í málinu hjá þorra þjóðarinnar. Gagnrýnendur ráðherrans munu fara offari og ein tiltekin ummæli eins gagnrýnanda í fjölmiðli munu gjaldfella orðræðu þeirra til frambúðar og verða vatn á myllu Svandísar. Svandís mun hins vegar ekki verða vinsæl í öllum málum og verður sökuð um að bregðast hægt við bráðavanda.

Tekið verður eftir framtaksleysi og litlum gangi mála í félagsmálaráðuneytinu. Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mun liggja undir verulegri gagnrýni innan kennarastéttarinnar og mun eiga erfitt með að svara henni. Hún mun hins vegar njóta mikillar velvildar listamanna, sérlega rithöfunda og bókaútgefenda, sem þakka henni að virðisaukaskattur af bókum er loks felldur niður þegar líða tekur á árið.

Sauðfjárbændur munu verða mjög óánægðir með framgöngu þessarar stjórnar sem mun að þeirra mati alls ekki gera nóg til að styðja við bændur í miklum kröggum. Finnst þeim þeir illa sviknir hafandi fengið stjórn flokka sem hafa í sögulegu samhengi verið hvað vinveittastir bændastéttinni.

Framhjáhaldshneyksli

Framhjáhaldsmál stjórnmálamanns kemst í fréttir og vekur þjóðarathygli. Erlend pressa mun einnig fjalla um málið. Þetta framhjáhaldsmál hefur tímabundin áhrif á verri veg á samskipti leiðtoga stjórnarflokkanna, enda málið hið óþægilegasta. Ekki líður þó á löngu áður en samheldnin verður aftur við völd í þeim samskiptum. Facebook mun loga sem aldrei fyrr og mörg ljót orð munu falla. Eftir að maki viðkomandi stjórnmálamanns stígur fram í einlægu viðtali mun umræðan róast. „Ótrúlegt hvað fólk getur orðið æst vegna einkamála náungans,“ segir völvan og hristir höfuðið. Hún segir að annað mál, ótengt þessu muni einnig vekja athygli en þar er um að ræða skilnað leiðtoga stjórnmálaflokks, sem mun koma þó nokkuð mikið á óvart.

Brottfall hjá VG

Seint á árinu munu tveir þingmenn, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, yfirgefa VG og verða óháðir þingmenn. Brotthvarfið mun ekki tengjast sérstaklega neinu því sem upp á kemur á þeim tíma heldur telja þingmennirnir sér orðið óvært innan VG vegna persónulegrar óvildar í þeirra garð.

Steingrímur J. Sigfússon mun koma mönnum á óvart með því að reynast mannasættir hinn mesti sem forseti þingsins og mun hafa alveg sérstakt lag á að róa órólega þingmenn Pírata.

Nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Innan Sjálfstæðisflokksins munu menn eiga í erfiðleikum vegna þess hversu mjög ýmsir þingmenn verða tilbúnir að lýsa skoðunum sínum á óvinsælum málum. Þar verða mest áberandi þeir Pál Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Brynjar Níelsson. Jón Gunnarsson mun reynast stjórninni erfiður, á tíðum ígildi stjórnarandstöðuþingmanns. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður áfram ritari flokksins.

Engin breyting hjá Framsókn

Það verða ekki breytingar á forystu Framsóknarflokksins á árinu. Sigurður Ingi Jóhannsson verður áfram formaður og Lilja Alfreðsdóttir varaformaður. Framsóknarmönnum mun bætast einn þingmaður á árinu þegar Anna Kolbrún Árnadóttir, fyrrverandi formaður Landssambands Framsóknarkvenna, gengur úr Miðflokknum og fer yfir í Framsókn. Það gerir að verkum að stjórnin styrkist aðeins eftir að hafa misst tvo þingmenn Vinstri grænna úr liði sínu.

Lítill sýnileiki Sigmundar Davíðs

Tekið verður eftir litlum sýnileika Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Bæði verður lítill sýnileiki í þingsölum og embættisstörfum hans og hann mun lítið sjást opinberlega. Þingmenn munu ergja sig á fjarveru hans og hjá hluta stjórnarandstöðunnar gætir pirrings vegna þess að hann verður ekki til staðar til að veita lið í þungum málum. Aðrir þingmenn Miðflokksins munu einnig vera tiltölulega ófyrirsjáanlegir og jafnvel hallast á sveif með ríkisstjórninni í ýmsum málum.

Írafár í kringum Ingu

Mikið írafár verður í kringum Flokk fólksins í fjölmiðlum. Inga Sæland mun vekja athygli í fjölmiðlum og þá fyrst og fremst varðandi mál er varða fátækt. Flokkurinn verður uppvís að vafasamri afstöðu í málum er varða hælisleitendur og útlendinga og sætir fyrir vikið mikilli gagnrýni. Þingmönnum flokksins finnst gaman að vera á þingi og völvan sér þá iðna við að mæta í ræðustól Alþingis.

Staða Heiðu Bjargar veikist

Staða formanns Samfylkingarinnar, Loga Einarssonar, er sterk. Staða varaformanns Samfylkingarinnar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, mun hins vegar veikjast þegar hún nær ekki þeim árangri sem hún hafði æskt á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar. Þetta mun valda nokkrum titringi og óróa innan flokksins. Ræður Guðmundar Andra Thorssonar munu vekja athygli og þykja bæði innihaldsríkrar og ljóðrænar. Á netmiðlum mun hann ítrekað vera kosinn besti ræðumaður þingsins.

Fjarar undan Pírötum

Það verður skellur fyrir Pírata að ná ekki inn manni í borgarstjórn sem mun verða enn frekara lóð á vogarskál þess að undan fjarar í flokksstarfi og innan flokksins. Flokkurinn er tvískiptur, framlínan vill gera flokkinn að flokki með strúktur líkt og hjá hefðbundnum stjórnmálaflokkum en það mun mæta andstöðu og deilum í grasrót og baklandi.

Viðreisn í stuði í stjórnarandstöðu

Viðreisn siglir tiltölulega lygnan sjó og sækir í sig veðrið í skoðanakönnunum eftir því sem á árið líður á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Einangrunarhyggjan sem mun einkenna þessa ríkisstjórn mun valda framsæknum hægri mönnum miklum vonbrigðum. Þeir munu horfa í kringum sig í leit að framsæknari kosti á hægri vængnum og Viðreisn verður fyrir valinu. Viðreisn mun standa sig með prýði í stjórnarandstöðu, vera öfgalaus og fara fram af sanngirni og festu.

Þingmaður hneykslast

Eitthvert hneyksli mun koma upp sem tengist þingmanni og óæskilegri hegðun hans utan þings þar sem hann er staðinn að því að láta öllum illum látum. Það sem gerir málið verra er að athæfi hans er tekið upp á síma og sett á netið. Þingmaðurinn mun biðjast margfaldlega afsökunar en pólitískir andstæðingar munu ekki gleyma þessu atviki og nota það gegn honum í færslum á netinu. En eins og flestar aðrar uppákomur í íslensku samfélagi gleymist málið á nokkrum vikum.

Enginn kvennalisti

Blaðamaður spyr um úrslit í sveitarstjórnarkosningum. Spáin kemur á óvart. Völvan segir að hugmyndir og tilraunir til að bjóða fram kvennalista í borginni muni deyja í höndunum í þeim sem það vilja reyna. Fjöldi flokka mun bjóða fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Flokkur fólksins mun leita logandi ljósi að oddvita á sæti listans. Á lokametrunum stígur Ólafur Arnarson fram sem málsvari þeirra sem minna mega. Píratar munu ekki verða jafn áberandi og áður. Eldur Birgittu Jónsdóttur er þó ekki slokknaður og hún mun með einhverjum hætti blanda sér inn í kosningabaráttuna í Reykjavík. Sú innkoma mun fara illa í kjósendur og flokkurinn nær ekki árangri í kosningunum.

Samstarf sem kallar á viðbrögð

Þrátt fyrir mikið framboð flokka í borginni munu einungis sex flokkar komast inn í borgarstjórn: Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins sem mun rétt merja það að komast inn. Gísla Marteini Baldurssyni verður boðið að leiða Viðreisn en hann hafnar því og heldur áfram í sjónvarpi en einhver uppákoma verður í þætti hans og tengist stjórnmálum. Pawel Bartoszek mun leiða Viðreisn. Birgir Örn Guðjónsson (Biggi lögga) mun leiða Framsókn í borginni og vekja mikla athygli fyrir jákvæðni og samvinnufýsi.
Meirihlutasamstarfið mun koma á óvart en þar munu leiða saman hesta sína Samfylking, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur. Unnur Brá Konráðsdóttir leiðir Sjálfstæðisflokkinn og verður formaður borgarráðs og Dagur B. Eggertsson verður borgarstjóri. Samstarfið mun ganga prýðisvel en mun fara í taugarnar á ýmsum, ekki síst Sjálfstæðismönnum í hinni svokölluðu „skrímsladeild“. Mörg Reykjavíkurbréf verða skrifuð gegn meirihlutanum þar sem greinarhöfundur dregur ekki af sér og krefur Bjarna Benediktsson ítrekað svara. Bjarni þegir þunnu hljóði.

Samfylkingin vinnur sigur í Hafnarfirði og Einar Bárðarson verður ráðinn bæjarstjóri og njóta vinsælda í því starfi. Eftir borgarstjórnarkosningarnar mun verða rætt af alvöru í Grafarvogi um að segja sig úr Reykjavík. Meirihlutinn mun reyna að kveða þær raddir niður með því að lofa auknu valdi til hverfisráða.

Björt á önnur mið

Á landsbyggðinni verður óvenju mikil vakning varðandi blandaða lista og lista sem eru ekki beinlínis undir hatti stjórnmálaflokkanna. Í sveitarstjórnarkosningum í stærri sveitarfélögum munu hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar þó bera nær fullkominn sigur úr býtum. Tími upphlaupsflokka eins og Pírata og Bjartrar framtíðar er liðinn. Björtu Ólafsdóttur mun mistakast að halda Bjartri framtíð saman og leita á önnur mið fyrir árslok 2018.

Stjórnmálamenn í klóm fjölmiðla

Einn frambjóðenda Miðflokksins til sveitarstjórnar á eftir að lenda í klóm fjölmiðla vegna vafamáls. Formaðurinn kemur viðkomandi einstaklingi til varnar og fær bágt fyrir hjá sumum en mikið lof hjá stuðningsmönnum flokksins. Orðið „loftárásir“ ber á góma.

Völvan sér skolhærðan frambjóðanda í sveitarfélagi á Austurlandi lenda í hagsmunaárekstrum sem mun gera málefni hreppsins altöluð. Einhverjir hneykslast á framferði frambjóðandans en viðkomandi mun vinna stórsigur í sveitarfélaginu. Málið verður gleymt í júnímánuði en rifjað upp í sjónvarpsþætti um haustið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pakistani í haldi grunaður um að hafa flutt inn tugi manns til Íslands

Pakistani í haldi grunaður um að hafa flutt inn tugi manns til Íslands
Fyrir 21 klukkutímum

5 stjórnmálamenn sem gætu leikið betur en Dóra

5 stjórnmálamenn sem gætu leikið betur en Dóra
Fréttir
Í gær

Fékk 50 þúsund greiddar fyrir þrjú störf hjá Reykjavíkurborg: „Mér var sagt að þau höfðu gleymt sér“

Fékk 50 þúsund greiddar fyrir þrjú störf hjá Reykjavíkurborg: „Mér var sagt að þau höfðu gleymt sér“
Fréttir
Í gær

Segir hóp kvenna hafa rænt #metoo byltingunni: „Getur verið að þessar konur séu með mölbrotna sjálfsmynd og laskaða?“

Segir hóp kvenna hafa rænt #metoo byltingunni: „Getur verið að þessar konur séu með mölbrotna sjálfsmynd og laskaða?“
Fréttir
Í gær

Kristinn Haukur ráðinn fréttastjóri hjá DV

Kristinn Haukur ráðinn fréttastjóri hjá DV
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg greiddi 700 þúsund fyrir „ýmislegt“

Reykjavíkurborg greiddi 700 þúsund fyrir „ýmislegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pála beið í 10 ár eftir íbúð: Hefur þurft að flytja 35 sinnum – „Ég skil ekki tilganginn með þessu“

Pála beið í 10 ár eftir íbúð: Hefur þurft að flytja 35 sinnum – „Ég skil ekki tilganginn með þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjáðu viðbrögð „níðhópsins“ við grein Jóns Steinars: „Finnst hann samt drulluhali“

Sjáðu viðbrögð „níðhópsins“ við grein Jóns Steinars: „Finnst hann samt drulluhali“