fbpx
Fimmtudagur 21.febrúar 2019
Fréttir

Þetta bar hæst í maí: Costco kemur til landsins með hvelli

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 29. desember 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

4. maí – Mannréttindadómstóllinn dæmir DV í vil

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi fyrrverandi ritstjóra og fréttastjóra DV í vil vegna umfjöllunar þeirra á rannsókn lögreglu á fyrirtækinu Sigurplasti árið 2012. Reynir Traustason ritstjóri, Jón Trausti Reynisson ritstjóri og Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttastjóri höfðu áður verið dæmdir í Hæstarétti til að greiða Jóni Snorra Snorrasyni, stjórnarformanni Sigurplasts og lektors í viðskiptafræði við HÍ miskabætur, auk þess sem tvenn ummæli voru dæmd dauð og ómerk í frétt þeirra. Mannréttindadómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.

4. maí – Met í komu skemmtiferðaskipa

Áætlað var að 155 skemmtiferðaskip legðust við bryggjur Sundahafnar næstu fimm mánuðina, en árið á undan voru þau 113. Samtals var búist við 129.000 farþegum úr þessum 155 skipum, flestir þeirra Þjóðverjar. Þá var áætlað að 2,2 milljónir ferðamanna kæmu til landsins með flugi, flestir frá Bandaríkjunum.

4. maí – Magnús sakar lögreglu um upplýsingaleka

Magnús Ólafur Garðarson, fyrrverandi forstjóri og stærsti hluthafi United Silicon, ásakaði lögreglu um upplýsingaleka vegna fréttar í DV um handtöku hans vegna vítaverðs aksturs á 20 milljóna króna Teslu-bifreið, sem olli umferðarslysi á Reykjanesbraut í desember í fyrra. Bíllinn var gerður upptækur. Í samtali við DV neitaði Magnús því að hann hefði verið handtekinn, heldur sagðist einungis hafa beðið lögregluna um „far í vinnuna“.

5. maí – Morðingi rekinn úr hópi rithöfunda á Facebook og vistaður á geðdeild

Bjarna Bernharði Bjarnasyni, skáldi, myndlistarmanni og dæmdum morðingja, var hent út af Facebook-hópi Rithöfundasambandsins fyrir ógnandi ummæli. Bjarni þjáist af geðklofa sökum óhóflegrar fíkniefnaneyslu og var fluttur á bráðageðdeild þann 26.apríl sl. eftir heimsókn frá lækni og lögreglu í kjölfar kvartana yfir skrifum Bjarna á umræddri síðu. Þar sagði hann meðal annars, að hann ætlaði að láta „orðsveðju hvína yfir stjórnarmönnum“. Bjarni var sviptur sjálfræði í 72 tíma, lokaður inni á geðdeild.

8. maí – Kínverjar ásóknir í Kvíabryggju

Kínverskir ferðamenn virðast sérlega áhugasamir um að heimsækja Kvíabryggju, sem er opið fangelsi. í Facebook-færslu Afstöðu, félags fanga, segir að eitt helsta starf fangavarða sé að vísa kínverskum ferðamönnum frá svæðinu sem virði að vettugi skilti sem banni þeim innöngu. Helsta ástæðan er að ferðamennirnir vilji ná sem bestum myndum af Kirkjufelli en verði hvumsa þegar þeim er bent á að Kvíabryggja sé fangelsi.

86 manns sagt upp á Akranesi.
HB Grandi 86 manns sagt upp á Akranesi.

11. maí – HB Grandi segir upp 86 starfsmönnum

Botnfisksvinnsludeild HB Granda á Akranesi sagði upp 86 starfsmönnum en fyrirhugað var að flytja starfsemina til Reykjavíkur. Uppsagnirnar áttu að taka gildi 1.september, en samtals starfa um 270 manns hjá fyrirtækinu og blóðtakan því mikil.

15. maí – Nauðgunarlímmiðar Þórunnar Antoníu gagnrýndir

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir, sem starfaði að tónlistarhátíðinni Secret Solstice í sumar, stakk upp á því að setja límmiða yfir drykkjarglös gesta hátíðarinnar, til varnar því að óminnislyfjum væri blandað út í drykki grunlausra, líkt og þekkist allt of víða í skemmtanalífinu. Þórunn vildi með þessu vekja umtal, skapa samstöðu og auka öryggiskennd en fékk þó heldur bágt fyrir á samfélagsmiðlum, meðal annars frá femínistanum Hildi Lilliendal Viggósdóttur, og alþingismanninum Hildi Sverrisdóttur, sem vildu meina að með þessu væri verið að varpa ábyrgðinni á kynferðisbrotum á brotaþolann, í stað gerandans.

15. maí – Ásta Guðrún hættir sem þingflokksformaður Pírata

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, steig til hliðar úr embættinu, eftir aðeins þrjá mánuði, vegna ágreinings varðandi „innra skipulag þingflokksins“ að hennar sögn. Einar Brynjólfsson varaformaður tók við embættinu.

Taldi sér hafa verið byrlað eitur.
Robert Spencer Taldi sér hafa verið byrlað eitur.

16. maí – Umdeildum fyrirlesara byrlað eitur á Íslandi?

Robert Spencer, sem er ritstjóri Jihad Watch og hélt hér umdeildan fyrirlestur um Íslam og framtíð evrópskrar menningar, sagði á Facebook-síðu sinni að sér hefði verið byrlað eitur á veitingastað í Reykjavík. Sagði hann eiturbyrlarann vera ungan íslenskan karlmann sem sé pólitískur andstæðingur sinn. Eftir að þeir hafi heilsast á veitingastaðnum og drengurinn sagt honum að fara fjandans til, sagðist Robert hafa liðið mjög illa og leitað á Landspítalann. Honum hafi liðið illa í marga daga á eftir og kært málið til lögreglu.

17. maí – Versló afbókar Gillz vegna femínísks þrýstings

Nemendafélag Verslunarskóla Íslands ákvað að afbóka Egil „Gillzenegger“ Einarsson sem skemmtikraft á lokaballi skólans. Áttan var fengin í hans stað. Í tilkynningu formanns Málfundafélags skólans, Viktors Finnssonar, segir að forsvarsmenn félagsins hafi sýnt ákveðið dómgreindarleysi við bókun Egils og í framtíðinni muni félagið ráðfæra sig við FFVÍ, sem er femínistafélag skólans. Egill var ekki sáttur við þessi málalok, sagðist „bully-aður“ í málinu, en myndi senda nemendafélaginu reikning engu að síður.

18. maí – Mannréttindadómstóllinn dæmir Jóni Ásgeiri í vil

Jón Ásgeir Jóhannsson fjárfestir og Tryggvi Jónsson, sem dæmdir voru í skilorðsbundið fangelsi fyrir fjórum árum í Hæstarétti fyrir skattalagabrot , fengu dómnum snúið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Var íslenska ríkið sagt brjóta gegn banni við endurtekinni málsmeðferð. Þarf íslenska ríkið að greiða þeim Jóni Ásgeiri og Tryggva 5000 evrur hvorum auk málskostnaðar.

18. maí – Sérsveitin í eftirför á Grensás

Sérsveitin var kölluð til þegar slagsmál brutust út á umferðarljósunum á Grensásvegi. Þrír menn stigu út úr bíl og réðust að manni sem var í bílnum við hliðina. Einn árásarmannanna var vopnaður kúbeini er hann sló til fórnarlamdsins, sem fékk högg á andlitið og stökk alblóðugur upp í bíl til að flýja mennina. Árásarmennirnir eltu hann á miklum hraða. Lögregla óskaði eftir aðstoð sérsveitarinnar sem veitti þeim eftirför í sex bílum, en þrettán sérsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum. Árásarmennirnir voru handteknir, en aðeins einn þeirra var kærður.

19. maí – Neytendasamtökin lýstu vantrausti á formanninn

Á stjórnarfundi Neytendasamtakanna var samþykkt að lýsa yfir vantrausti á formann samtakanna, Ólaf Arnarson, sem hafði aðeins verið í embætti frá því í október. Var Ólafur sagður hafa tekið ákvarðanir sem bera hefði átt undir stjórn, þar sem þær væru skuldbindandi fyrir samtökin. Því ríkti ekki lengur trúnaður milli stjórnar og formanns.

22. maí – Íslendingur hneykslaði í konunglegu brúðkaupi

Brúðkaup Pippu Middleton og James Matthews fór fram í maí, þar sem Harry Bretaprins mætti ásamt bróður sínum Vilhjálmi og Kate konu hans, sem er systir brúðarmærinnar. Íslendingurinn Justin Markús Bjarnason er góðvinur James og var svaramaður hans í brúðkaupinu. Sú skylda fylgir gjarnan því hlutskipti að halda ræðu í veislunni sem Markús gerði með glans, þó svo neðanbeltishúmor hans hafi valdið töluverðri hneykslan. „Falleg, orkumikil, trygg, hljóðlát, hlýðin og með frábæran afturenda. En nóg um tíkina Rafa, ég er hérna til þess að tala um hina ástina í lífi James, Pippu,“ hafði The Telegraph eftir Justin, sem mærði einnig mærina fögrum orðum.

23. maí – Costco opnað í Garðabæ

Bandaríski verlsunarrisinn Costco opnaði verslun í Kauptúni í Garðabæ. Mikil eftirvænting hefur ríkt vegna opnunarinnar, þar sem verslunin býður lægra verð en áður hefur þekkst á Íslandi. Blaðamaður DV bjóst því við langri röð árla morguns, líkt og þekkst hefur við opnanir annarra búða hérlendis, en slík varð þó ekki raunin. Mesta fjölmennið var í röðum fjölmiðlafólks og björgunarsveitarmanna fyrst um sinn og mátti heyra á tali starfsmanna að búist hafði verið við fleira fólki.

24. maí – Sigmundur Davíð stofnar Framfarafélagið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, boðar stofnun hugmyndasmiðju sem koma á Framsóknarflokknum til aðstoðar. Hann sagði félagið ekki vísi að nýjum stjórnamálaflokki, heldur ætti það að styðja við grasrótina í Framsóknarflokknum.

26. maí – Kom undir í Atlavík og leitar nú föður síns

Borghildur Dóra Björnsdóttir hefur lengi leitað föður síns. Hún kom undir í Atlavík árið 1983, á útihátíðinni margfrægu. Upplýsingar sem hún hefur frá móður sinni eru ekki fullkomlega áreiðanlegar og því greip Dóra til þess ráðs að setja inn færslu á Facebook hvar hún óskaði eftir ljósmyndum frá útihátíðinni í von um að það varpaði ljósi á málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Jói B. bálreiður út í Strætó: „EKKI í lagi að henda 11 ára gömlu barni út úr vagni“

Jói B. bálreiður út í Strætó: „EKKI í lagi að henda 11 ára gömlu barni út úr vagni“
Fréttir
Í gær

Snorri var vitni að hrottalegri árás á konu í hádeginu: „Henti henni inn í runna og stappaði á henni þar“

Snorri var vitni að hrottalegri árás á konu í hádeginu: „Henti henni inn í runna og stappaði á henni þar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona dæmd fyrir að hrækja framan í lögreglumann á 17. júní

Kona dæmd fyrir að hrækja framan í lögreglumann á 17. júní
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælastaða þegar Nara verður fangelsuð: Beit í sundur tungu eiginmannsins og réðst á vinkonu

Mótmælastaða þegar Nara verður fangelsuð: Beit í sundur tungu eiginmannsins og réðst á vinkonu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir heilsugæsluna ekki nútímafólki bjóðandi

Segir heilsugæsluna ekki nútímafólki bjóðandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Undir áhrifum fíkniefna með börn í bílnum – Ökumaður í vímu með þungaða unglingsstúlku í bílnum

Undir áhrifum fíkniefna með börn í bílnum – Ökumaður í vímu með þungaða unglingsstúlku í bílnum