fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Þetta bar hæst í apríl: Stunginn í bakið, Gunnar stofnar Sósíalistaflokk og 20 milljóna klósett

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 29. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

3. apríl – Pírati á stúdentagörðunum

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, var harðlega gagnrýndur fyrir að búa á stúdentagörðunum FS þrátt fyrir að vera með 1.300 þúsund krónur í mánaðarlaun. Jón Þór sagði að það væri hins vegar konan hans sem hefði fengið íbúðina úthlutaða þar sem hún stundar nám við Háskóla Íslands. Að fá íbúðina væri hennar réttur og óeðlilegt ef þingmennska hans myndi skerða þau réttindi. Í kjölfar fréttaflutnings lýsti Jón Þór því yfir að fjölskyldan myndi flytja af görðunum eins fljótt og mögulegt er til að rýma fyrir fólki sem ekki væri í jafn góðri stöðu og þau.

3. apríl – Stunginn í bakið á Metro

Starfsfólki hamborgaraveitingastaðsins Metro var brugðið þegar maður var stunginn í bakið í dyragættinni klukkan hálf átta um kvöld. Maðurinn sem varð fyrir árásinni snæddi á staðnum með unnustu sinni og tveimur stjúpbörnum. Eftir máltíðina brá hann sér út fyrir til að reykja en þá kom til orðaskipta milli hans og tveggja drengja á tvítugsaldri sem hann þekkti ekkert. Annar drengjanna stakk manninn í bakið og hlupu þeir síðan á brott. Hringt var á neyðarlínuna og drengirnir voru handsamaðir um klukkutíma síðar. Áverkinn var lífshættulegur en fórnarlambið komst á bataveg.

7. apríl – Dæmdar fyrir að reyna að kúga forsætisráðherra

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru dæmdar fyrir að reyna að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra. Einnig voru þær dæmdar fyrir að kúga fé af Helga Jean Claessen, ritstjóra vefritsins menn.is. Systurnar voru handteknar í júní árið 2015 eftir að hafa sent Sigmundi bréf og krafist þess að hann afhenti stóra peningaupphæð á ákveðnum tíma í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Systurnar fengu tólf ára fangelsisdóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Malín ákvað síðar að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Dæmdar fyrir að reyna að svíkja fé af Sigmundi Davíð.
Hlín og Malín Dæmdar fyrir að reyna að svíkja fé af Sigmundi Davíð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

10. apríl – „Ekki gefast upp“ veldur usla

Skiptar skoðanir voru á auglýsingu Íslandsbanka sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins. Þar stóð: „Ekki gefast upp. Það er hægt. Ef þú hefur plan.“ Húsnæðismál voru mikið í deiglunni á árinu og sérstaklega staða ungs fólks sem á erfitt með að koma þaki yfir höfuðið. Með auglýsingunni vildi bankinn vekja athygli á að þetta væri vel leysanlegt vandamál ef skipulagið væri í lagi hjá fólki. Mikael Torfason og Gunnar Smári Egilsson voru meðal þeirra sem gagnrýndu bankann fyrir að skella skömminni á almenning. Andrés Jónsson almannatengill var hins vegar meðal þeirra sem fagnaði skilaboðum bankans.

11. apríl – Gunnar Smári stofnar Sósíalistaflokk

Gunnar Smári Egilsson hætti sem útgefandi Fréttatímans í byrjun apríl og stofnaði nýtt stjórnmálaafl viku síðar, Sósíalistaflokk Íslands. Gunnar taldi hina hefðbundnu vinstri flokka á Íslandi, Samfylkingu og Vinstri græna, komna af sporinu í stéttabaráttunni og einungis beita sér fyrir mannréttindamálum og gæluverkefnum. Flokkurinn var mjög umtalaður allt árið en fór ekki hátt í skoðanakönnunum. Þegar ljóst var að alþingiskosningar yrðu haldnar í haust ákvað Gunnar að flokkurinn yrði ekki í framboði. Hann hefur nú sagt að Sósíalistaflokkurinn muni bjóða fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

Kvaddi fjölmiðlana og stofnaði sósíalistahreyfingu.
Gunnar Smári Egilsson Kvaddi fjölmiðlana og stofnaði sósíalistahreyfingu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

18. apríl – Eldur í kísilveri United Silicon

Kísilver United Silicon í Helguvík var mikið í fréttum ársins 2017 og voru þær sjaldnast jákvæðar. Klukkan fjögur aðfaranótt 18. apríl kviknaði eldur í ofnhúsi kísilversins. Þegar slökkvilið kom á staðinn logaði eldur á þremur hæðum byggingarinnar og aðstæður erfiðar til slökkvistarfs vegna þess hversu nálægt ofninum sjálfum bálið var. Einungis var hægt að nota duft í fyrstu vegna hás rafstraums á svæðinu og illa gekk að ráða niðurlögum eldsins. Síðar var straumurinn tekinn af og hægt var að nota vatn. Loks tókst að ráða niðurlögum eldsins á sjöunda tímanum um morguninn. Þetta var annar eldsvoðinn í kísilverinu í mánuðinum en 4. apríl hafði kviknaði í vörubrettum en starfsmönnum tókst þá sjálfum að slökkva eldinn.

20. apríl – Siglt milli Reykjavíkur og Akraness á ný

Ferjusiglingum Akraborgarinnar var hætt árið 1998 með tilkomu Hvalfjarðarganganna. Sæferðir, dótturfyrirtæki Eimskips, ákvað að hefja á ný ferjusiglingar yfir Faxaflóa en fyrirtækið er þegar með siglingar til Vestmannaeyja og yfir Breiðafjörð. Um tilraunaverkefni til hálfs árs var að ræða og átti það að hefjast í lok maímánaðar en dróst til 15. júní. Ferjan heitir Norled og er leigð frá Noregi. Hún tekur 110 farþega, er hraðskreið en rúmar ekki bifreiðar.

25. apríl – Klósett á 20 milljónir

Ákveðið var að byggja 22 fermetra klósettskála í Vatnajökulsþjóðgarði og kostnaðarmatið á honum var 20 milljónir. Í skálanum myndu vera tvö klósett, sturta, þurrsalernisbúnaður til notkunar yfir vetrartímann og stór pallur. Mörgum Austfirðingum fannst þetta mikið bruðl og sagði einn í viðtali við DV: „Við erum ekki að tala um pýramídana í Egyptalandi.“ Þórir Ólafsson, framkvæmdastjóri þjóðgarðsins, sagði að taka yrði með í reikninginn að mun dýrara sé að byggja langt uppi á hálendi en í byggð.

26. apríl – Hagar kaupa Olís

Hagar keyptu allt hlutafé í Olís en áður hafði verslunarrisinn keypt lyfjakeðjuna Lyfju, en þau kaup voru síðar dregin til baka af Samkeppniseftirlitinu. Heildarvirði Olís var metið á rúma fimmtán milljarða en tæpir sex milljarðar voru vaxtarberandi skuldir. Kaupverðið voru því rúmir níu milljarðar. Ljóst er að kaupin voru viðbragð við komu Costco sem bæði selur bensín og lyf. Vegna þessa miklu fjárfestinga Haga á árinu var ákveðið að greiða hluthöfum engan arð á árinu.

29. apríl – Kajakræðari lést í Þjórsá

Neyðarkall barst frá tveimur kajakræðurum við ósa Þjórsár klukkan rúmlega níu kvöldið 29. apríl. Þeir voru í vandræðum í briminu og voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sendar á svæðið auk björgunarsveitarmanna, lögreglu og sjúkraliðs. Þegar komið var á staðinn voru ræðararnir á hvolfi austan við ósinn. Ölduhæð var mikil og aðstæður erfiðar til björgunar. Um klukkan ellefu tókst að koma þeim úr vatninu og voru þeir færðir á sjúkrahús. Næsta dag var annar þeirra úrskurðaður látinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Í gær

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu