fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Rekinn úr Kvikmyndaskólanum eftir ásakanir um kynferðislega áreitni – Darren sagður hafa grínast með áreitni í uppistandi

Í það minnsta tvær sögur kvenna úr sviðslistum og kvikmyndagerð fjölluðu um Darren Foreman

Hjálmar Friðriksson
Fimmtudaginn 28. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski leikarinn Darren Foreman, sem hefur verið búsettur á Íslandi um árabil og margir kannast við úr áramótaskaupum, var rekinn úr Kvikmyndaskóla Íslands eftir að fjöldi nemenda sakaði hann um kynferðislega áreitni. Honum hefur enn fremur verið meinað að taka þátt á uppistandskvöldum á Gauknum. Heimildir DV herma að Darren hafi þar grínast með kynferðislega áreitni.

Darren vildi lítið tjá sig um málið í samtali við DV. „Ég get ekki tjáð mig. Mér hefur verið ráðlagt að tjá mig ekki. Það er engin leið að berjast gegn þessu, þær segja bara það sem þær vilja,“ segir Darren.

Sagður hafa káfað á nemanda

Í það minnsta tvær sögur kvenna úr sviðslistum og kvikmyndagerð fjölluðu um hann. Stundin fjallaði ítarlega um kynferðislega áreitni innan Kvikmyndaskóla Íslands á dögunum en enginn gerandi var nafngreindur í þeirri umfjöllun. Flestar sögurnar fjölluðu um Darren.

Í umfjöllun Stundarinnar kom fram að deildarforseta hafi verið tilkynnt um hegðun Darrens en ekkert hafi verið gert þá. Í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar birti Kvikmyndaskóli Íslands yfirlýsingu þar sem kynntar voru aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Þar var einfaldlega sagt að viðkomandi kennari starfaði þar ekki lengur. Það var vissulega rétt en skautað var yfir þá staðreynd að Darren kenndi á þeirri önn sem lauk í þessum mánuði og var hann rekinn beinlínis vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

Rekinn eftir #metoo

Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri tók við sem rektor Kvikmyndaskólans fyrir um þremur mánuðum og eru sögurnar því upprunnar fyrir hans rektorstíð. Hann segir í samtali við DV að honum hefði ekki dottið í hug að Darren gæti hagað sér svo miðað við fyrri kynni sín af honum en hann og skólinn hafi ákveðið að taka á þessum ásökunum af festu.

„Þetta kom aldrei inn á borð til mín á þessum stutta tíma sem ég hef verið rektor. Ég held að hann hafi verið rekinn bara um leið og metoo byrjaði, áður en Stundin fjallaði um málið. Líkt og kom fram í yfirlýsingunni þá teljum við að þetta hafi ekki verið höndlað rétt þegar það kom upp. Við reyndum að láta fólk sættast. Skólinn brást við um leið og þetta gerðist. Þetta er voðalega leiðinlegt mál,“ segir Friðrik Þór.

Fær ekki að grínast

Darren hefur verið virkur í uppstandi á Íslandi og oft tekið þátt í uppstandskvöldum á Gauknum. Heimildir DV herma að honum hafi verið meinað að taka þátt í því af Starra Haukssyni rekstrarstjóra eftir umfjöllun Stundarinnar. DV hefur bæði heyrt að honum hafi verið bannað að taka þátt fyrir fullt og allt og að hann hafi verið beðinn um að halda sér til hlés meðan stormurinn gengi yfir. Starri neitaði alfarið að tjá sig um málið í samtali við DV hvort væri rétt. Þó er ljóst að Darren mun í það minnsta ekki fara á svið á Gauknum í nálægri framtíð.

Heimildir DV herma að Darren hafi grínast með kynferðislega áreitni í uppistandi sínu. Hann hafi grínast með að hann dáist meira af uppistandaranum Louie CK, sem var nýverið sakaður um áreitni, eftir að komst upp um hann. Hinn brandarinn ku hafa snúist um að hann hafi keyrt á bíl sem kona ók og hún hafi náttúrlega kært hann fyrir kynferðislega áreitni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt