fbpx
Fréttir

Mikill uppgangur hjá strangtrúuðum gyðingum í Bandaríkjunum – „Takk guð, fyrir að ég er ekki kona“

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 28. desember 2017 06:51

Samfélög strangtrúaðra gyðinga í Bandaríkjunum vaxa hratt þessi árin. Samfélögin eru mörg og er þeim stýrt eins og lokuðum trúarsamfélögum. Það eru trúarleiðtogar sem fara með öll völd, allt frá því að ákveða hvað safnaðarmeðlimir eiga að starfa við og yfir í að ákveða hvenær hjón mega stunda kynlíf. Konum er gert að fara eftir mjög ströngum reglum. Þær mega ekki taka í hönd annara karla en eiginmannsins og hvað þá eiga í líkamlegu sambandi við þá. Fatnaður þeirra má ekki draga að sér athygli og ákveðnar reglur gilda um kjólasídd, hárgreiðslu og litinn á nærfatnaði þeirra. Karlarnir í fjölskyldunum taka allar ákvarðanir og konur eru nánast réttindalausar.

Flestar stúlkur eru giftar á unga aldri eftir og fá ekki að ráða neinu um maka sinn. Flestar verða þær barnshafandi eftir skamman tíma í hjónabandi en það er litið á það sem trúarlega skyldu að eignast barn. Báðum kynjum er óheimilt að nota getnaðarvarnir. Karlar mega ekki stunda sjálfsfróun því sæði má ekki fara til spillis. Þetta hefur í för með sér að margar fjölskyldur eru barnmargar og það múlbindur konurnar heima við.

Jafnrétti kynjanna og réttindi kvenna er talið vera „slæm þróun“ og það er ekki neitt rými fyrir slíkt í samfélögum strangtrúaðra gyðinga. Svenska Dagbladet fjallaði nýlega um þetta. Blaðamenn blaðsins höfðu meðal annars rætt við marga gyðinga sem eru eða voru hluti af þessum samfélögum.

Meðal annars er rætt við mann sem er nefndur Eli. Haft er eftir honum að það sé engin tilviljun að staða kvenna sé slæm því það séu karlar sem setji reglurnar. Eli býr í New York og tilheyrir samfélagi strangtrúaðra gyðinga þar í borg. Hann klæðist hefðbundnum fatnaði strangtrúaðra gyðinga, síðri svartri flík, er með kollhúfu að hætti gyðinga og síða hárlokka niður meðfram kinnunum. Hann er kvæntur og á mörg börn sem stunda nám í skólum strangtrúaðra gyðinga. Að kröfu skólanna hefur Eli sett upp forrit í farsímum barnanna sem ritskoða og loka á stóra hluta internetsins.

Börnin mega ekki horfa á sjónvarp, lesa bækur, dagblöð eða tímarit að eigin vali. Í sumum skólanna eru námsbækurnar ritskoðaðar. Andlit kvenna og stúlkna og sumar matvörur eru huldar með svörtum tússlit.

Haft er eftir Eli að trúarleiðtogarnir, rabbínarnir, hafi öll völd í hendi sér. Það verði að spyrja rabbínana um hvaða konu megi hitta, hvaða nöfn börnin eiga að fá og þeir veiti ráð ef menn vilja skipta um starf. Safnaðarmeðlimir kjósa einnig þann stjórnmálamann sem rabbíninn velur. Eli sagðist telja að margir gyðinganna séu hræddir við rabbínana og að samfélögunum sé stýrt með að láta fólk óttast.

Reglur um kynlífið

„Við vorum ekki hrædd við guð, við vorum hrædd við pabba. Á bak við þetta var andleg hótun og við vildum ekki valda honum vonbrigðum.“

Er haft eftir Fay Samuels, gyðingi, sem er ekki lengur meðlimur í samfélagi strangtrúaðra. Hún lýsir því hvernig orð og skoðanir móður hennar höfðu ekkert vægi á heimilinu af því að hún var kona og að Fay og systur hennar þurftu að sinna þörfum bræðra sinna. Hún rifjar upp hvað karlarnir sögðu í bænum sínum:

„Takk guð, fyrir að ég er ekki þræll. Takk guð, fyrir að ég er ekki kona.“

Þegar hún giftist voru trúarlegu reglurnar hertar til muna og til dæmis voru strangar reglur um hvenær hún mátti stunda kynlíf með eiginmanni sínum.

„Mér var sagt að ef ég væri ekki viss um að ég væri hrein, það er hvort blæðingum væri lokið, gæti ég sent nærbuxurnar mínar til rabbína sem myndi úrskurða um hvort það væru för í þeim.“

Stór og lokuð samfélög

Margir hinna strangtrúuðu gyðinga búa í New York. Þeir eru um 330.000 þar í borg og eru tæplega þriðjungur af gyðingum borgarinnar.

Þeir reka sína eigin skóla þar sem öll kennsla fer fram á jiddísku eða hebresku. Samfélög þeirra hafa lokað sig af, þar eru þeirra eigin íbúðarhverfi, verslanir og heilsugæsla.

Margir þeirra eru nú komnir í þá stöðu að vera undir fátækarmörkum miðað við bandarísk viðmið. Leiguverð í borginni hefur hækkað, fjölskyldurnar eru oft barnmargar og aðeins ein fyrirvinna. Þetta hefur valdið því að sífellt fleiri flytja frá New York og nú eru hverfi strangtrúaðra gyðinga að myndast í öðrum borgum, til dæmis New Jersey.

Strangtrúuðum gyðingum í Bandaríkjunum fer fjölgandi. Samfélög þeirra eru lokuð og standa þétt saman. Afleiðingarnar af að yfirgefa samfélögin geta verið alvarlegar. Fólk missir oft tengslin við fjölskyldur sína. Einnig er lögfræðingum óspart beitt til að koma í veg fyrir að þeir sem yfirgefa samfélögin fái að hitta börn sín. Þess utan eru það einungis karlar sem geta farið fram á hjónaskilnað og því getur reynst mjög erfitt fyrir konur að yfirgefa samfélögin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“
Fréttir
Í gær

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð
Fréttir
Í gær

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum