fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Verslunin Liverpool: Þar sem börnin héngu á glugganum

150 ára saga – Unnið fram á morgun í desember – Fyrstir með jólasveina

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 26. desember 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heitið Liverpool tengja Íslendingar ekki aðeins við Bítlaborgina og knattspyrnuliðið sögufræga. Flestir landsmenn muna eftir leikfangaversluninni Liverpool og þeir elstu muna eftir henni sem krambúð. Saga Liverpool nær aftur til 19. aldar og um miðja 20. öldina braut Páll Sæmundsson blað í íslenskri verslunarsögu þegar hann tók við rekstri hennar. Páll rak verslunina um áratuga skeið og síðar tók dóttir hans Margrét við. DV ræddi við Margréti um þessa stórmerkilegu verslun sem var draumaheimur íslenskra barna.

Fyrsta sjálfsafgreiðsluverslunin

Bretinn Hans Christian Robb keypti húsið Vesturgötu 3 árið 1859 og stofnaði þar verslun sem hann nefndi Liverpool í höfuðið heimaborg föður síns, James Robb, sem flutti til Íslands árið 1813. Liverpool var ekki leikfangaverslun í þá daga heldur þjónustaði skipin. Fram á stríðsárin var ýmislegur varningur seldur í Liverpool, eins og tóbak, vefnaðarvara, vín, snyrtivörur, nýlenduvörur og margt fleira. Ýmsir eigendur ráku Liverpool í Vesturgötu, bæði í eldra húsi sem brann árið 1885 og stórhýsinu sem reist var eftir brunann. Árið 1930 rak Mjólkurfélag Reykjavíkur verslunina og flutti hana í Hafnarstræti 5 með mörgum útibúum víða í bænum.

Rak Liverpool 1988 til 2005
Margrét Pálsdóttir Rak Liverpool 1988 til 2005

Árið 1940 eignuðust kaupmennirnir Gísli Jónsson og Ólafur B. Björnsson Liverpool og réðu Pál Sæmundsson verslunarstjóra. Á stríðsárunum keypti Páll verslunina og seldi þá aðeins búsáhöld og leikföng. Margrét, dóttir Páls, segir hann hafa verið nokkuð á undan sinni samtíð hvað varðar verslunarrekstur. „Hann fór í verslunarskóla í Noregi, sá þar ýmislegt og var framsýnn.“ Vildi hann gera Liverpool að sjálfsafgreiðsluverslun, þeirri fyrstu á landinu, en á þessum tíma voru allar vörur afgreiddar yfir borðið í verslunum.

Í Mjólkurfélagshúsinu Hafnargötu 5.
Liverpool sem krambúð Í Mjólkurfélagshúsinu Hafnargötu 5.

Páll keypti íbúðarhús á Laugavegi 18a og lét flytja það suður í Kópavog. Þá lét hann reisa glæsilegt og nýmóðins verslunarhúsnæði á reitnum og flutti Liverpool þangað árið 1955. Hannes Davíðsson arkitekt, sem þekktastur er fyrir hönnun Kjarvalsstaða, teiknaði upp verslunina með stórum og opnum gluggum. „Þetta hús er eitt af fyrstu verslunarhúsunum sem var byggt við Laugaveginn. Laugavegurinn er byggður upp sem íbúðarhúsagata. Húsunum var síðan breytt í verslanir en þau eru mjög óhentug til þess, með tröppum upp eða niður. Á fæstum stöðum gast þú gengið beint inn í búðina eins og í Liverpool.“

Árið 1963 leigði Páll út reksturinn en stofnaði þá heildverslunina Ingólfshvol. Nokkrir einstaklingar leigðu reksturinn þar til Margrét tók við honum árið 1988 en hún hafði þá meðal annars verið verslunarstjóri í Völuskríni, leikfangaverslun barnavinafélagsins Sumargjafar. Undir hennar stjórn seldi Liverpool aðeins leikföng og árið 1995 var hún flutt á Laugaveg 25. Árið 2005 seldi hún reksturinn til Þorvarðar Elíassonar sem lagði niður nafnið fræga. Rann Liverpool þá inn í keðjuna Leikbæ sem varð undir í samkeppni við Toys ‘R’ Us og varð gjaldþrota árið 2008.

Biðröð þegar sending kom

„Á þeim árum sem pabbi var með Liverpool voru fimm leikfangaverslanir á Torfunni en Liverpool var langstærst. Við þekktum fólkið sem rak verslanirnar allt um kring. Þetta var eins og lítið bæjarfélag.“ Páll átti sjö börn sem hjálpuðu til. „Við unnum í búðinni, öll systkinin, meira og minna í kringum jólin og á sumrin. Þegar ég var lítil og Liverpool var í Hafnarstræti var mikið sport að fá að fara inn eftir í búð.“

Varst þú ekki vinsælasta stúlkan í bekknum?

„Nei, nei, krakkarnir vissu það ekkert. Það var ekkert verið að moka í okkur neitt meira en aðra.“

 „Ég man eftir því þegar kaffibollarnir komu því þá myndaðist biðröð“
Búsáhöld seld í tíð Páls Sæmundssonar „Ég man eftir því þegar kaffibollarnir komu því þá myndaðist biðröð“

Fjöldi starfsmanna kom og fór en straumurinn réðst af álagstímanum. „Það var rosalega mikið að gera í desember og stór hópur af krökkum sem vann hjá okkur. Flottir krakkar og skemmtilegir. Þetta var hræðilega mikil vinna en skemmtilegur tími.“

Var unnið fram á nótt?

„Fram á morgun!“

Páll rak verslunina allt árið um kring á neðri hæðinni en leigði Upplýsingaþjónustu byggingariðnaðarins efri hæðina. „Hann gerði þannig samninga að þeir fluttu út í desember og þá var Liverpool stækkuð fyrir jólin.“ Á þeim árum voru búsáhöld enn mjög stór hluti af rekstrinum. „Ég man eftir því þegar kaffibollarnir komu því þá myndaðist biðröð. Svo var hann með perlufestar og ýmislegt skraut frá Tékkóslóvakíu. Það var alltaf biðröð þegar nýjar sendingar komu.“

Páll flutti allar vörur inn sjálfur sem var flókið mál í íslensku haftaþjóðfélagi. Fór hann út á sýningar í Danmörku, Austur-Þýskalandi og víðar til að kaupa inn. Einnig var það vandkvæðum bundið að fá byggingarefni og leyfi fyrir húsið sjálft. „Hann gat aðeins byggt tvær hæðir fyrst. Það tók þó nokkuð mörg ár að byggja það upp í fimm hæðir.“

Laumuðust til að kaupa byssur

Hvaða leikföng voru vinsælust?

„Ég held að Lego hafi verið vinsælast. Við seldum alltaf mikið af kubbum og fullt af leikföngum sem eru góð og sígild. Síðan dúkkur og allt í sambandi við mömmuleiki.“ Margrét var leikskólakennari og vandaði valið þegar hún pantaði inn. „Mér þótti óskaplega erfitt að vera með byssur og Barbie var ekkert rosalega vinsæl hjá mér á tímabili. En svo rúnnaðist það nú af mér.“

„Ég held að Lego hafi verið vinsælast. Við seldum alltaf mikið af kubbum og fullt af leikföngum sem eru góð og sígild“
Úrval leikfanga í búðarglugga „Ég held að Lego hafi verið vinsælast. Við seldum alltaf mikið af kubbum og fullt af leikföngum sem eru góð og sígild“

Guðjón Magnússon, eiginmaður Margrétar, skýtur nú kíminn inn í: „Friðelskandi foreldrar sem voru jafnvel búnir að ganga friðargönguna urðu að gefa eftir og laumast til þess að kaupa byssur handa strákunum. Annars smíðuðu þeir þær sjálfir.“

Vöruúrvalið breyttist hins vegar alltaf fyrir sumrin. Margrét segir: „Þá komu útileikföngin. Á þessum tíma var til siðs að gefa börnum sumargjafir á sumardaginn fyrsta, sippubönd, bolta, krítar og húlahringi. Við urðum að passa upp á að allar þessar vörur væru komnar í hús fyrir sumardaginn fyrsta.“

Liverpool var sérstaklega þekkt fyrir búðargluggana sem íslensk börn horfðu dreymin inn um og Margrét segir þá hafa skipt miklu máli. „Ég lagði mikla áherslu á gluggann og hafði flottar útstillingarkonur til að sjá um það. Það var hangið á glugganum. Pabbi var alltaf með fólk í útstillingum líka.“

Kertasníkir og Soffía frænka

Liverpool var ekki aðeins fyrsta sjálfsafgreiðsluverslun landsins og fyrsta alvöru nýmóðins verslunin. Páll braut blað með því að fá jólasveina til að skemmta börnunum í desember. Lengst af var það Ólafur Magnússon frá Mosfelli, sem frægur var um miðja síðustu öld fyrir að leika Kertasníki. „Pabbi réð hann sem jólasvein og hann vakti mikla kátínu. Hann kunni að tala við börn og var ekki með einhver fíflalæti. Kunni að syngja og kunni texta. Þeir jólasveinar sem síðar komu voru líka góðir.“

Margrét segir að á þessum árum hafi Ólafur verið nokkurs konar andlit verslunarinnar ásamt leikkonunni Emilíu Jónasdóttur sem þekktust var fyrir að túlka hlutverk Soffíu frænku í uppsetningu Þjóðleikhússins á Kardemommubænum. „Hún vann alltaf hjá okkur í desember. Hún seldi dúkkurnar og gerði mikla lukku. Hún var sæt kona og mikill karakter.“

Lék Kertasníki í Liverpool hver jól.
Ólafur Magnússon frá Mosfelli Lék Kertasníki í Liverpool hver jól.

Jólin færðu Liverpool hins vegar ekki aðeins líf og fjör og peninga í kassann. Vinnan og stressið var gríðarlegt. „Þar sem við fluttum allt inn tókum við áhættu í vöruvalinu. Það var afskaplegt stress líka þegar maður var kominn með allar vörurnar í hús í október eða nóvember, það er hvort þær myndu falla í kramið.“

Á þessum tíma var líka passað upp á lítilmagnann. „Pabbi bauð Hjálpræðishernum að koma og vera með söfnunarpott fyrir framan verslunina. Þau höfðu alltaf athvarf hjá okkur, fengu að komast inn í hlýjuna og þiggja kaffi. Margir komu gagngert í Liverpool til að setja í pottinn og ég veit að Hjálpræðisherinn fékk góða innkomu hjá okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni