fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Börnin sem koma nestislaus í skólann

Börn í mörgum bekkjum koma nestislaus – Kennarar segja börnin dugleg að deila matnum

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 25. desember 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jólin eru að ganga í garð. Fólk þeytist um til að kaupa jólagjafir og hátíðarmatinn. Spennan magnast meðal barna og jólafríið nálgast óðum. Börn bíða full eftirvæntingar. Sum börn koma frá fjölskyldum sem eiga um sárt að binda. Þau koma nestislaus í skólann og hafa ekki efni á jólamat í skólanum.

Undanfarið hefur verið mikil umræða um fátækt á Íslandi. DV hafði samband við kennara á Íslandi og ræddi við tvo þeirra. Það sem stóð upp úr samræðunum var að báðir kennararnir sögðu að börn væru alltaf tilbúin að deila nesti sínu með þeim sem minna mega sín.

Börnin deila alltaf með sér

Einn kennari sem blaðamaður ræddi við er umsjónarkennari á höfuðborgarsvæðinu. Sá kennari segir að það séu ávallt nokkur börn í hverjum bekk sem koma nestislaus í skólann en kennarar fylgjast vel með þeim.

Eru mörg börn sem koma nestislaus í skólann?

„Ekki mörg börn. Af 21 barni eru tvö til þrjú börn nestislaus.“

Veistu hvort það sé svipað og í öðrum bekkjum?

„Ég held maður gæti búist við að það séu til um eitt til þrjú börn í hverjum bekk sem koma nestislaus í skólann. Í öllum bekkjum sem ég hef kennt hafa verið einhver nestislaus börn.“

Eru þessi börn í mataráskrift í hádeginu?

„Börnin eru ekki nestislaus alla daga. En einn nemandi er oftar nestislaus og ég fylgist með honum. Sá nemandi er í mataráskrift, annar er í mataráskrift sem félagsþjónustan borgar.

Þegar kennarar taka eftir að börn eru ekki með nesti og fá ekki að borða í hádeginu þá láta þeir félagsþjónustuna vita sem grípur þá inn í og greiðir fyrir mataráskrift.“

Er erfitt fyrir börnin sem eru nestislaus að sjá önnur börn borða í nestistímanum?

„Stundum nota börnin þá afsökun að þau séu ekki svöng. En alltaf ef ég annaðhvort tek eftir að barn sé nestislaust eða það segir mér að það sé nestislaust þá spyr ég allan bekkinn hvort einhver sé ekki með aukanesti sem má deila. Börnin eru alltaf tilbúin að deila með sér. Þannig að ekkert barn þarf að vera svangt.

Í gegnum árin hefur það gerst að enginn geti deilt með sér eða barnið borðar ekki það sem er í boði. Þá hef ég farið á kaffistofu kennara og sótt eitthvað þar að borða, sem ég skrifa síðan á skólann.

Maður fylgist með börnunum og ég held að kennarar geri það almennt. Maður myndi aldrei láta barn sitja svangt.“

Hvernig er jólamatnum ykkar háttað?

„Börn sem eru í áskrift fá jólamat. Svo er hægt að kaupa miða á jólamatinn fyrir 500 krónur.“

Hvernig er með börnin sem eru ekki í áskrift og eiga ekki pening fyrir jólamatnum?

„Hjá okkur hefur það alltaf verið þannig að ef maður sér eitthvert barn, sem langar rosalega í jólamatinn og er ekki með pening og ekki með neinn annan hádegismat, þá gefum við því að borða. Við vitum líka oft hvernig aðstæður barnanna eru.“

Allur gangur á

Hinn kennarinn sem DV ræddi við er umsjónarkennari á landsbyggðinni. Kennarinn segir að börn sem koma oft nestislaus í skólann vilji ekki að aðrir viti af því og koma með ýmsar afsakanir fyrir því að þau séu ekki með nesti.

Eru mörg börn í þínum bekk sem koma nestislaus í skólann?

„Nei. Það er ekkert barn í mínum bekk sem ég er að kenna núna sem kemur nestislaust. En í öðrum bekkjum sem ég hef kennt hafa verið börn sem koma nestislaus í skólann. Ég er búin að kenna í um tíu ár og myndi segja að meðaltali séu um eitt til tvö í bekk.“

Er erfitt fyrir börnin sem eru nestislaus að sjá önnur börn borða í nestistímanum?

„Börnin fara inn í sig, eins og þau vilji ekki bera á því að þau séu nestislaus. Þau segjast oft hafa gleymt nesti eða ekki langa í nesti.“

Deila hin börnin með sér?

„Já, það er mjög algengt. Líka ef börn gleyma nesti þá eru önnur börn alltaf tilbúin að deila, einnig þótt um sé að ræða einhvern sem er aldrei með nesti, þá deila þau alltaf með sér.“

Eru börn sem eru nestislaus í mataráskrift?

„Það er allur gangur á því. Ég veit að kirkjan hefur verið að borga mataráskrift fyrir einhver börn. En það er þannig að ef foreldri hefur ekki efni að hafa barn í mataráskrift þá þarf það að leita sér aðstoðar sjálft.“

Hvernig er jólamatnum hjá ykkur háttað?

„Krakkarnir sem eru í áskrift fá mat og aðrir geta keypt miða í jólamatinn. Síðan er þeim, sem eru ekki með nesti, gefið að borða. Maður veit yfirleitt hvaða krakkar það eru og er búinn að gera ráðstafanir fyrirfram.

Svo eru þetta einnig börn sem eiga foreldra sem eru mjög uppteknir og kannski ekki að pæla mikið í hlutunum. Þannig að það er allur gangur á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“