„Þarna er eldra fólk og fatlaðir einstaklingar sem þurfa að fara á snyrtingu í kolniðamyrkri“

Þingmenn heimsóttu tjaldsvæði – Svæðið eitt svell

„Það er lágmark að borinn sé sandur á helstu leiðir“
Flughált „Það er lágmark að borinn sé sandur á helstu leiðir“

Eins og greint var nýverið frá, dvelur tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson nú í tjaldvagni í Laugardalnum þar sem hann er húsnæðislaus eftir skilnað. Hann sagðist reiðubúinn til að fórna lífi sínu fyrir framan alþingishúsið í mótmælaskyni vegna þess hvernig farið er með þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Baráttumaðurinn og Snapchat stjarnan Kjartan tjaldbúi dvelur einnig á tjaldstæðinu og fjölmargir aðrir sem hafa í engin hús að vernda.

Miðvikudaginn 29. nóvember fengu Gylfi og félagar heimsókn frá tveimur alþingismönnum, Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni frá Flokki fólksins auk útvarpskonunnar Edithar Alvarsdóttur hjá Sögu. Ólafur ræddi við DV um heimsóknina.

Var heimsókn ykkar viðbragð við því sem Gylfi sagði? „Nei. Aðbúnaður þessa fólks hefur verið mikið í fréttum. Við sáum að þarna var húsnæðislaust fólk sem var sofandi í bílum og húsvögnum. Þetta er staðreynd í okkar samfélagi og við vildum kynna okkur það frá fyrstu hendi.“ Ólafur segir að um 20 manns dvelji nú á svæðinu á öllum aldri en aðallega karlmenn.

Er fólkið þarna örvæntingarfullt? „Ég myndi ekki segja örvæntingarfullt en þetta fólk býr við mjög erfiðar aðstæður. Það getur ekki verið nein varanlegt niðurstaða að það búi þarna. Við vorum að reyna að átta okkur á því hvað lægi þarna að baki og hvort við gætum gert eitthvað til að gera þeim dvölina léttbærari.“

Svellhált og ónæg orka

Gestirnir fengu útlistanir frá íbúum tjaldsvæðisins um hvað var að aðbúnaðinum á tjaldsvæðinu sem rekið er af Farfuglum. Á vefsíðunni tjalda.is er tjaldsvæðinu í Laugardal lýst sem fimm stjörnu tjaldsvæði með „salernis og sturtuaðstöðu, eldunaraðstöðu, útigrilli, interneti, þvottavél og þurrkara, hjólaleigu og smáhýsum svo eitthvað sé nefnt.“

Ólafur segir að íbúarnir hafi helst nefnt þrjá hluti. „Til að mynda er alveg svellhált þarna. Snjó hefur ekki tekið þarna upp og svæðið er eitt svell. Þarna er eldra fólk og fatlaðir einstaklingar sem þurfa að fara á snyrtingu og annað í kolniðamyrkri, kulda og trekki. Það er lágmark að borinn sé sandur á helstu leiðir.“

Annar hluturinn er aðgangurinn að snyrtiaðstöðunni sjálfri og að lokum rafmagnið. „Rafmagnsmál þarna eru ekki fullnægjandi og rafmagninu slær út. Orkan þarna er einfaldlega ekki næg. Það kunna að liggja þarna í jörð greinar sem getur verið slökkt á vegna þess að ekki er gert ráð fyrir mikið af fólki þarna á þessum árstíma. Það ætti að vera auðvelt fyrir kunnáttumenn að opna fleiri greinar.“

Fóru gestirnr þá til rekstraraðila og kröfðust úrbóta. Hvernig var tekið í það? „Undirtektirnar þar voru góðar og ég er bjartsýnn á það að úr verði bætt sem fyrst til að gera þessa dvöl, sem vonandi stendur yfir sem skemmst, örlítið bærilegri en ella.“

Dulinn vandi

Aðspurður um hvað ríkið geti gert í málefnum þessa fólks segir Ólafur. „Þessi mál eru nú yfirleitt talin í verkahring sveitarfélaga.“ Það sé þá ekki bundið við Reykjavík því að heimilislaust fólk kemur víða að. Hann segir að einnig kunni vandinn að vera að einhverju leyti dulinn. „Það kunna að bætast við fleira fólk. Fólk sem er jafnvel með börn, sem er þarna yfir blánóttina og er að reyna að halda þeim í sínum skólum og þvíumlíkt. Þarna gæti verið duldari vandi en sá sem blasir við á yfirborðinu. Aðstæður þessa fólks eru hreint út sagt skelfilegar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.