Kjartan segir Dag eigna sér gamla og margsvæfða tillögu Sjálfstæðismanna vegna vanda heimilislausra: „Þetta er einhver hráskinnaleikur“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

„Í tvö ár og fjóra mánuði hefur tillaga mín um þetta efni legið óafgreidd í borgarkerfinu. Tillöguna lagði ég fram í júlí 2016 og hefur hún hrakist um borgarkerfið síðan og borgarstjórinn verið alveg áhugalaus þrátt fyrir að ég hafi oft minnt á hana,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, í tilefni af svari Dags B. Eggertssonar til Gylfa Ægissonar tónlistarmanns um vanda heimilislausra.

Vandi heimilislausra hefur verið mikið í fréttum undanfarið en fjöldi fólks sem ekki hefur þak yfir höfuðið hefst við á tjaldstæðinu í Laugardal. Meðal þeirra er Gylfi Ægisson, tónlistarmaður, sem steig fram í vikunni og greindi DV frá hlutskipti sína um leið og hann krafðist úrbóta í málum heimilislausra.

Dagur svaraði Gylfa með Facebook-færslu eins og DV greindi frá miðvikudag. Þar kemur fram að borgin hyggist útbúa neyðarhúsnæði í Víðisnesi fyrir heimilislausa Reykvíkinga.

Kjartan segist hins vegar hafa lagt fram tillögu um nákvæmlega þessa aðgerð fyrir tveimur árum og fjórum mánuðum en hún hafi verið svæfð í kerfinu.

„Mér fannst frétt DV frá því á miðvikudag vera mjög merkileg því þar lýsti borgarstjóri í fyrsta sinn yfir vilja sínum til þess að koma þessari tillögu Sjálfstæðisflokksins frá 2015 í framkvæmd.
Til þess að eitthvað gerist í þessum málum þarf hins vegar nauðsynlega að fá samþykki borgarráðs fyrir slíkri ráðstöfun húsnæðisins. Borgarráðsfundur var haldinn í gær og þegar ég sá að borgarstjóri hygðist ekki leggja fram tillögu um Víðines þar lagði ég fram tillöguna frá 2015 að nýju. Mæltist ég til þess að tillagan yrði samþykkt sem fyrst enda búa heimilislausir við mikla neyð eins og þið DV-menn hafið mikið fjallað um að undanförnu. Afgreiðslu tillögunnar var hins vegar frestað.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Aðspurður hvers vegna Kjartan telji að afgreiðslu tillögunnar hafi verið frestað rétt eftir að borgarstjóri boðaði framkvæmd hennar á Facebook, segir Kjartan:

„Maður áttar sig ekki á því. Oft þegar maður leggur fram tillögu þá er þeim frestað vegna þess að um nýtt mál sé að ræða sem þurfi að skoða betur. Í þessu tilviki er ekki hægt að halda því fram. Hún var ekki felld á sínum tíma, fyrst var henni frestað og síðan vísað til skoðunar. En maður skyldi ætla að eftir tvö ár og fjóra mánuði sé búið að skoða þetta nægilega vel. Þetta er einhver hráskinnaleikur. Eins og þeir vilji hvorki afgreiða né fella tillöguna. “

„Það hefur komið fram hvað eftir annað að undanförnu að full þörf er á að nýta húsnæðið í Víðinesi fyrir heimilislaust fólk. Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti hjá borgarstjóra að hafa svæft tillögu Sjálfstæðisflokksins um Víðines og ekkert gert í rúm tvö ár. Nú, þegar loks keyrir um þverbak og spjótin beinast að borginni í fjölmiðlum, birtist borgarstjóri og kynnir Víðines til sögunnar sem nýja hugmynd sína til að leysa vanda heimilislausra.“

Það kom einnig fram í pistli borgarstjóra að borgin hefði fest kaup á 144 íbúðum til að mæta vanda heimilislausra. Kjartan segir hins vegar að biðlistinn eftir félagslegu húsnæði sé svo gríðarlega langur að þetta hrökkvi skammt til og óvíst að úrræðið nýtist nokkrum þeirra sem nú hafast við á tjaldstæðinu í Laugardal.

Kjartan segir enn fremur:

„Auk tillögunnar um Víðiness lögðum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu í þremur liðum um að bæta eftir megni aðstæður þess fjölda heimilislausra sem dvelst nú á tjaldstæðinu í Laugardal. Þau atriði snúa að rafmagni, salernisaðstöðu og smáhýsum sem þarna eru, eins og meðfylgjandi tillaga ber með sér.“

Kjartan rekur feril tillögunar með eftirfarandi hætti:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins 30. nóvember 2017

Lagt er til að tafarlausar úrbætur verði gerðar í þágu heimilislauss fólks sem dvelst nú á tjaldstæðinu í Laugardal.

  1. Rafmagnskerfi svæðisins verði styrkt og betrumbætt en í nýafstöðnu kuldakasti hefur það hvað eftir annað slegið út og haft mikil óþægindi í för með sér.
  2. Tryggður verði greiður aðgangur tjaldstæðagesta að salernum allan sólarhringinn.
  3. Athugað verði hvort unnt sé að nýta þau smáhýsi sem eru á tjaldstæðinu í þágu heimilislausra en þau eru nú lokuð.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins 30. nóvember 2017, áður flutt 16. júlí 2015

Vegna vaxandi vanda samþykkir borgarráð að útbúin verði aðstaða í ónotuðu húsnæði borgarinnar á Víðinesi til að taka á móti heimilislausu fólki og hýsa það. Leitað verði eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um verkefnið.

Seinni tillöguna er ég í raun að endurflytja því hana lagði ég fyrst fram í borgarráði fyrir rúmum tveimur árum eða 16. júlí 2015. Var afgreiðslu hennar þá frestað og hún ekki tekin fyrir fyrr en 10. september, tveimur mánuðum síðar. Meirihlutinn ákvað þá að vísa henni inn í borgarkerfið til frekari meðferðar og skoðunar. Ég mótmælti þeirri afgreiðslu og bókaði eftirfarandi:

Bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins 10. september 2015:

,,Vegna vaxandi umfangs vanda heimilislauss fólks og brýnnar þarfar þar sem vetur gengur brátt í garð, væri rétt að láta verkin tala og samþykkja fyrirliggjandi tillögu Sjálfstæðisflokksins um móttöku og hýsingu heimilislausra í ónotuðu húsnæði á Víðinesi. Þess í stað kýs borgarstjórnarmeirihlutinn að vísa henni til frekari skoðunar í borgarkerfinu þrátt fyrir að hún hafi verið þar til skoðunar um hríð. Minnt skal á að tillaga Sjálfstæðisflokksins var flutt í borgarráði um miðjan júlí og hefur hún því legið fyrir án afgreiðslu í tæpa tvo mánuði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að nú þegar hafi gefist nægur tími til að skoða þá framkvæmd sem tillagan felur í sér og styðja ekki að henni verði frestað frekar.“

Á fundi borgarráðs 13. október 2016 var samþykkt að leigja hluta af húsnæði borgarinnar á Víðinesi til Útlendingastofnunar til 2-3 mánaða í því skyni að hýsa hælisleitendur. Þá bókuðum við sjálfstæðismenn eftirfarandi:

Bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins 13. október 2016:

,,Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna enda er um tímabundna neyðarráðstöfun að ræða. Minnt er á tillögu Sjálfstæðisflokksins um að útbúin verði aðstaða í ónotuðu húsnæði borgarinnar á Víðinesi til að taka á móti heimilislausu fólki og hýsa það. Tillagan var flutt í júlí 2015 og vísað til velferðarsviðs í september sama ár. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að nú hafi gefist nægur tími til að skoða tillöguna og hvetja til þess að framkvæmd hennar verði ekki frestað frekar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.