Hvernig brugðust Íslendingar við framandi útlendingum fyrr á tímum?

Snorri G. Bergsson
Snorri G. Bergsson

Erlendur landshornalýður? – Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi 1853-1940 er ný bók eftir Snorra G. Bergsson. Í bókinni er fjallað um framandi útlendinga á Íslandi frá miðri 19. öld allt til hernámsins árið 1940. Drjúg umfjöllun er um viðbrögð við þýska flóttamannavandanum 1933-40 þar sem gyðingar flúðu Þýskaland. Stórfróðleg bók sem bæði dýpkar og skerpir alla vitneskju okkar um sögu innflytjenda hér á landi.

Höfundurinn Snorri G. Bergsson er sagnfræðingur að mennt og hefur rannsakað viðfangsefni bókarinnar með hléum frá 1994, bæði hér heima og í erlendum skjalasöfnum. Hann starfar einkum við þýðingar hjá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Snorri segir um bókina:

„Bókin Erlendur landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853–1940 hófst með námskeiðisritgerð á MA-stigi í sagnfræði vorið 1994 og varð efni hennar síðar að MA-ritgerð um útlendinga og íslenskt samfélag fram til 1940. Einstakir hlutar hennar urðu síðan að bókinni Roðinn í austri (2011) ásamt nokkrum greinum og ritgerðum á ensku. Heimildir ritgerðarinnar voru aðallega gögn úr skjalasöfnum hins opinbera á Íslandi en síðar bættust við erlendar heimildir þegar ég dvaldi við nám eða störf í útlöndum, einkum fyrir um 20 árum þegar ég var gistifræðimaður við Bandaríska helfararsafnið í Washingon DC. Í ljósi þeirra heimilda, erlendra fræðiskrifa og frumgagna sem birst hafa á Netinu á síðustu árum tel ég mig hafa sett viðbrögð ráðamanna á Íslandi við innflutningi eða hælisleit útlendinga í alþjóðlegt samhengi og borið viðhorf þeirra saman við þau sem komu fram hjá valdhöfum í helstu nágrannaþjóðum. Þar ræði ég meðal annars viðbrögð bændasamfélagsins við komu framandi útlendinga hingað, upphaf útlendingaeftirlits á Íslandi, þýska flóttamannavandann á fjórða áratug, mannkynbætur og örlög sumra þeirra gyðinga sem sóttu hér um dvalarleyfi á fjórða áratug en var hafnað. Meðal annars beini ég sjónum að fjölda gyðingalækna sem var neitað um landvist á Íslandi þó að hér væri mjög alvarlegur læknaskortur og örlögum flóttamanna sem hingað komust en máttu búa við stöðugan ótta um brottrekstur. Einnig ræði ég um hve mikið hugmyndafræði ráðamanna á Íslandi átti sér hliðstæður hjá valdsmönnum í helstu viðmiðunarríkjum, einkum á Norðurlöndum.“

Útgefandi er Bókafélagið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.