fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Hreinlega eins og tilraun til manndráps“

Faðir Völu býr í heilsuspillandi húsi á vegum velferðarsviðs – Vill snúa lífi sínu við en kemur að lokuðum dyrum

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 15. desember 2017 13:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að setja veikan einstakling í ónýtt hús er sama og leggja á hann dauðadóm. Fíknisjúkdómur er sjúkdómur,“ segir Vala Sólrún.

Faðir Völu býr í hrörlegu og niðurníddu húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Vala hefur beðið velferðarsvið um að skoða hvort húsið hafi átt einhvern þátt í því að heilsu hans hafi hrakað verulega síðustu mánuði. Vala fékk engin viðbrögð þrátt fyrir að ítreka erindi sitt. Hún tók málin í eigin hendur og fékk Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur til að skoða húsið. Húsið var metið óíbúðarhæft og heilsuspillandi. Faðir hennar dvelur þó enn í húsinu. Velferðarsvið hefur ekki gripið til aðgerða.

„Mér finnst velferðarsvið ekki vinna vinnuna sína. Fólkið þar er löngu búið að gefast upp á honum, það er ljóst. Þetta er dauðans alvara, við erum að tala um mannslíf. Við erum að tala um pabba minn.“

„Ástand hússins er þannig að erfitt er að þrífa það og jafnvel ómögulegt sums staðar,“ segir í skýrslu heilbrigðiseftirlits.
Eldhús „Ástand hússins er þannig að erfitt er að þrífa það og jafnvel ómögulegt sums staðar,“ segir í skýrslu heilbrigðiseftirlits.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

DV fjallaði um málið fyrst í október

DV fjallaði um Völu og föður hennar, 68 ára, í október síðastliðnum. „Heilsu hans hefur hrakað verulega eftir að hann flutti [í húsið sem honum var úthlutað af velferðarsviði]. Þar að auki getur hann ekki búið einn, er of veikur til að reka heimili og sjá um sig,“ sagði Vala við DV.

DV fór með Völu að skoða húsið, sem var byggt 1884, en þá var faðir hennar á Landspítalanum. Eins og má sjá á meðfylgjandi myndum sem voru teknar í október þá er húsið óíbúðarhæft.

Tók málin í eigin hendur

Faðir Völu braut efsta hryggjarlið þegar hann hrundi niður stigann.
Brattur stigi Faðir Völu braut efsta hryggjarlið þegar hann hrundi niður stigann.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vala hafði ítrekað samband við velferðarsvið og benti á að nauðsynlega þyrfti að kanna ástand hússins. Eftir að hafa komið að lokuðum dyrum í hvert skipti ákvað hún að taka málin í eigin hendur. Vala hafði sjálf samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem skoðaði húsið í nóvember.

„Ástæðan fyrir því að ég lét skoða húsið var sú að pabbi hafði talað um hvað heilsu hans hefði hrakað verulega síðan hann flutti þar inn. Honum var farið að líða verr í lungunum og byrjaður að hósta upp blóði. Pabbi hrundi einnig niður tröppurnar og braut einn af efstu hryggjarliðunum.“

Samkvæmt Völu hafði faðir hennar ítrekað lagt inn kvartanir varðandi húsið til velferðarsviðs síðasta sumar. Hún segir að velferðarsvið hafi ekki brugðist við kvörtunum hans.

„Pabbi leitaði að eigin frumkvæði til heilbrigðiseftirlitsins og fékk mat þeirra á húsinu. Þá komst heilbrigðiseftirlit að því að mikið væri að húsinu og það þyrfti að gera mjög mikið við það svo það yrði íbúðarhæft. Velferðarsvið fékk að vita af því en ekkert var gert. Ég hafði samband við velferðarsvið og bað um að húsið yrði skoðað. Mér var tjáð að ekkert yrði gert fyrr en „það væri búið að ákveða hvernig nýta ætti húsið í framhaldinu“. Ég var reið. Þvílíkt ábyrgðarleysi.“

Eintak af skýrslu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Eftirlitsskýrsla Eintak af skýrslu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Samkvæmt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er húsið illa farið og þarfnast gagngerra endurbóta.
Óíbúðarhæft og heilsuspillandi Samkvæmt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er húsið illa farið og þarfnast gagngerra endurbóta.

Óíbúðarhæft og heilsuspillandi

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skoðaði húsið þann 22. nóvember síðastliðinn. Heilbrigðiseftirlitið mat húsnæðið óíbúðarhæft og heilsuspillandi. Vala hafði samband við velferðarsvið og tilkynnti þeim niðurstöðu heilbrigðiseftirlits.

„Ég hringdi og lét vita af niðurstöðu mats heilbrigðiseftirlits. Ég fann að viðmælanda mínum var brugðið. En sá hinn sami óskaði eftir að fá skýrsluna senda. Engin samskipti hafa verið á milli mín og velferðarsviðs síðan þá. Fyrir utan eitt símtal þar sem ég grét í símann og sagðist buguð af baráttunni. Ég bað um að pabba yrði hjálpað. Tveimur vikum síðar hefur ekkert verið gert. Pabbi hefur í engin önnur hús að venda. Hann neyðist því til að leita skjóls í þessu húsi, kannski skömminni skárra en að vera úti í þessum kulda.“

Vala segir að undanfarna daga hafi faðir hennar leitað til velferðarsviðs og óskað eftir herbergi, eða í raun hverju sem er, til leigu.

„Hann er ekki með neinar kröfur aðrar en þær að þurfa ekki að dvelja í sama húsi og hann er í nú. Pabbi fær alltaf sömu svör um að ekkert sé í boði og að engar sannanir liggi fyrir því að húsið hafi haft áhrif á heilsu hans.“

„Tilraun til manndráps“

„Að setja sjúkling í ónýtt hús er hreinlega eins og tilraun til manndráps. Það lítur kannski vel út á blaði að veita heimilislausum einstaklingi húsnæði. Raunveruleikinn er sá að það er ekki verið að taka ábyrgð. Pabbi var settur í ónýtt heilsuspillandi hús því hann var fyrir þeim og til leiðinda í gistiskýlinu,“ segir Vala.

Engin svör

DV hafði samband við velferðarsvið og ræddi við Sigþrúði Erlu Arnardóttur, framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Sigþrúður sagði blaðamanni að best væri ef hann myndi ræða við Völu. Blaðamaður benti henni á að hann hafi verið í samskiptum við Völu og Vala hafi ekkert heyrt frá velferðarsviði í nokkrar vikur.

Sigþrúður vildi ekki svara spurningum blaðamanns og sagðist ekki geta rætt einstaka mál. Samtalinu lauk því fljótlega.

Gat er á gólfi í dyragætt inni á salerni.
Salernisaðstaða Gat er á gólfi í dyragætt inni á salerni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Of veikur fyrir Svíþjóð

Það stóð til að faðir Völu færi í langtímameðferð í Svíþjóð. Feðginin bundu miklar vonir við að það gengi eftir. Það kom í ljós að Vala hafði misskilið meðferðaraðilana, en á þeim tíma var ekki pláss fyrir föður hennar. Hann var einnig talinn of líkamlega veikur fyrir umrædda meðferð.

Þegar kom í ljós að faðir Völu væri ekki að fara til Svíþjóðar var hann í meðferð á Vogi. Vala var úrræðalaus og örvæntingarfull þegar faðir hennar kláraði meðferð.

„Ég gat ekki ímyndað mér að henda honum út í þetta ónýta hús eftir meðferð. Ég bauð honum að vera hjá mér þar til við myndum finna annað úrræði fyrir hann. Sambúðin tók á okkur bæði. Það má segja að við séum ekki með sömu hugmyndir um heimilishald. Ég á þriggja ára dóttur sem þarf mína ást, athygli og umhyggju. Ég hef ekki pláss í lífi mínu til að reka meðferðarmiðstöð eða hjúkrunarheimili á mínu eigin heimili.“

Áfall að vera á hreinu og hlýju heimili

„Pabbi hefur verið fangi neyslunnar í 20 ár, frá því að hann fór að nota aftur eftir tíu ára edrúmennsku. Á þessum 20 árum hefur hann upplifað harðari heim en við flest viljum vita að sé til á Íslandi. Þetta hefur verið pabba lífshættuleg barátta og mótbyrinn mikill. Ég skil að hann sé stundum reiður.“

Faðir Völu dvaldi hjá henni í nokkrar vikur þar til hann datt í það. Þá þurfti Vala að henda honum út, bæði fyrir sig og barn sitt.

„Fyrir pabba að vera edrú í nokkrar vikur og vera á heimili sem er hreint og hlýtt er áfall út af fyrir sig. Pabbi hefur ekki átt klukku eða síma í áratugi. Hann vantar að komast í langtímameðferð þar sem er aðhald og rútína. Hann er sjálfur búinn að átta sig á því.“

Vala ásamt dóttur sinni.
Mæðgur Vala ásamt dóttur sinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Meðferðarúrræði

Áður en ákveðið var að faðir Völu færi til Svíþjóðar hafði hún verið að hringja á Hlaðgerðarkot á hverjum degi til að staðfesta föður sinn á biðlista. Faðir hennar er ekki lengur á biðlista og biðlistinn er mjög langur. Vala segist hafa athugað með innlögn á Staðarfell en lítið hafi verið um svör.

Vala sótti um hvíldarinnlögn fyrir föður sinn þegar hann var í fimm vikur á Landspítalanum. „Hann uppfyllti ekki þær kröfur að vera metinn sem einstaklingur sem þarf á hvíld að halda. Umsókn hans var synjað.“

Enginn stuðningur

„Pabbi hefur nú viljann til að snúa lífi sínu við og það er sorglegt að hann fær ekki sterkari meðbyr. Velferðarsvið er til þess ætlað að hjálpa fólki en þar er enga lausn að finna. Ég fór á fund með fjórum starfsmönnum velferðarsviðs 16. október. Eftir fundinn var ég engu nær um hvað væri hægt að gera. Mér finnst enginn stuðningur koma frá velferðarsviði. Engar hugmyndir að úrræðum fyrir hann. Mér finnst velferðarsvið ekki vinna vinnuna sína. Fólkið þar er löngu búið að gefast upp á honum, það er ljóst. Þetta er dauðans alvara, við erum að tala um mannslíf. Við erum að tala um pabba minn,“ segir Vala.

Vala segir að hún hafi fundið mun á viðmóti heilbrigðiskerfisins eftir að grein DV um hana og föður hennar birtist í október.

„Það var verulegur kippur innan sjúkrahúsanna. Allt í einu voru komnir alls konar læknar og sérfræðingar sem voru að vinna saman. Læknar voru í samskiptum við starfsfólk á Vogi áður en hann fór þangað inn. Eins og kom fram í viðtalinu þá var pabbi talinn of veikur til að fara inn á Vog í október. Ég náði að ýta eftir því að hann yrði metinn aftur. Hann var metinn hæfur og fékk að fara inn á Vog. Læknar og hjúkrunarfræðingar Landspítalans unnu frábært verk,“ segir Vala.

Vala segir engar hugmyndir koma frá velferðarsviði að úrræðum fyrir föður sinn.
Svefnherbergi Vala segir engar hugmyndir koma frá velferðarsviði að úrræðum fyrir föður sinn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Fannst ég vera að drepa hann“

„Þessi barátta tekur á. Auðvitað elskar maður fólkið sitt og vill hjálpa. En það er ekki mikill meðbyr frá samfélaginu. Það var mjög erfitt að segja pabba að fara þegar hann gisti hjá mér. Mér fannst ég nánast vera að drepa hann með því að reka hann út, vitandi að hann gæti aðeins farið í hús sem væri búið að dæma óíbúðarhæft og heilsuspillandi. Þessi staða er hræðileg að vera í. Því miður þekkja þetta allt of margir sem eru í svipaðri baráttu. Pabbi þarf hjálp sem aðeins faglært fólk getur veitt honum. Hann er of veikur til að leita sér sjálfur hjálpar,“ segir Vala.

Það þarf fólk með ástríðu

„Einstaklingar með fíknisjúkdóm á lokastigi eru of veikir til að búa einir eða hjá fjölskyldumeðlimum. Þessi hópur fólks virðist vera tabú í samfélaginu. Enginn veit hvernig á að taka á þessum margþættu veikindum. Það þarf fólk sem berst af ástríðu fyrir þessum málstað. Ástríðan kemur iðulega vegna sársauka aðstandenda. Að vera skrifstofublók gerir það eflaust auðvelt að setja erfiðustu málin neðst í bunkann,“ segir Vala. Vala heyrði í fyrsta skipti í föður sínum nokkrum dögum áður en þessi grein er birt. Hún hafði ekki heyrt í honum síðan hún bað hann um að fara.

„Mér var mjög létt að heyra að pabbi sé enn í baráttuhug. Hann segist vita að hann sé á leið í sama farið ef of langur tími líður þar til hann fær hjálp. Hann er í örvæntingu að reyna að bjarga lífi sínu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis