fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Fær allt annað viðmót frá kerfinu sem krabbameinssjúklingur: „Það er ekki sama hvort veikindin eru líkamleg eða andleg“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 14. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Því miður hefur reynsla okkar undanfarin ár sýnt okkur að það er ekki sama hvort veikindin eru líkamleg eða andleg, sama hvort um er að ræða samfélagið eða heilbrigðiskerfið,“ segir Sigurborg Geirdal en hún telur systur sína mæta gjörólíku viðmóti frá heilbrigðiskerfinu sem krabbameinsjúklingur heldur en sem geðsjúklingur. Sem krabbameinssjúklingur fái hún margvísleg þjónustu og aðhald í veikindum sínum en aldrei hafi hún fengið slíka aðstoð þegar hún hefur leitað á sjúkrahús vegna andlegra veikinda sinna.

Systir Sigurborgar, Alma Geirdal greindist með brjóstakrabbamein í október síðastliðnum og í kjölfarið fór af stað ákveðið ferli. Kallað var til læknateymi sem kom sér saman um viðeigandi meðferð. Komið var á fundi með skurðlækni og krabbameinslækni og þá hitti Alma einnig fræðsluráðgjafa sem fór yfir alla þætti veikindana og meðferðarinnar, og félagsráðgjafa sem fór yfir öll réttindi hennar og hafði það hlutverk að vera til staðar í gegnum ferlið. Sigurborg tekur fram að ferlið hafi verið einkar öflugt og faglegt, allir hafi verið vel upplýstir og sé hún þakklát fyrir hversu vel sé hugsað um systur sína.

„Henni var boðin alls kyns fræðsla; boðið að tala við prest og djákna og einnig var hún hvött til að hafa okkur fjölskylduna með í ráðum. Við vorum hvött til að tala við Ljósið og Kraft og það var mjög vel haldið utan um okkur.“

Alma hefur að sögn Sigurborgar glímt við andleg veikindi síðastliðin fimmtán ár; átröskun, fíkn og alvarlegt þunglyndi sem leitt hefur til fjölda sjálfsvígstilrauna. Í tveimur tilfellum hefur Alma endað í öndunarvél eftir að hafa reynt að svipta sig lífi. Sigurborg bendir á að rétt eins og með krabbameinið hafi andleg veikindi Ölmu á tímum verið lífshættuleg. Upplifun fjölskyldunnar á heilbrigðiskerfinu í gegnum þau veikindi er þó allt önnur en undanfarna tvo mánuði. Þegar kemur að andlegum veikindum Ölmu hafa þau þurft að berjast fyrir því að fá viðeigandi aðstoð og meðferð. Aldrei hefur verið kallað til teymi og engin fræðsla hefur verið í boði heldur hefur fjölskyldan að sögn Sigurborgar þurft að grátbiðja um aðstoð og oftar en ekki verið vísað frá heilbrigðisstofnunum án aðstoðar eða skilnings.

„Fyrir utan það hvað það er erfitt að fá aðstoð fyrir hana þá hefur okkur aðstandendum hennar aldrei verið boðið neitt, við höfum aldrei fengið neinar upplýsingar eða neina fræðslu um hennar sjúkdóm og hvernig við getum tekist á við aðstæðurnar“

„Andstætt við það sem við höfum upplifað seinustu tvo mánuði þá höfum við alltaf þurft að ganga á eftir allri hjálp sjálf og aldrei verið boðið neitt að fyrra bragði. Í hvert sinn sem við höfum endað með hana á geðdeild þá hefur ekkert gerst, það er dælt upp úr henni og hún síðan látin fara. Ég hef staðið organdi inni á geðdeildinni og sagt við starfsfólkið að ég fari ekki heim fyrr en hún verði lögð inn.

Fyrir utan það hvað það er erfitt að fá aðstoð fyrir hana þá hefur okkur aðstandendum hennar aldrei verið boðið neitt, við höfum aldrei fengið neinar upplýsingar eða neina fræðslu um hennar sjúkdóm og hvernig við getum tekist á við aðstæðurnar.

Sem krabbameinssjúklingur fær hún ráðgjöf frá félagsráðgjafa sem sækir um allt sem hún á rétt á. Þegar hún var andlega veik og óvinnufær var henni aldrei nokkurn tíman boðið að fá slíka þjónustu frá félagsráðgjafa heldur þurftum við að finna út úr þessu öllu með henni.“

Þá bendir Sigurborg á að samfélagið í heild setji líkamlega sjúkdóma ekki í sama flokk og andleg veikindi.

Sigurborg vill minna fólk á að  veikindi spyrja hvorki um stétt né stöðu.
Systurnar á góðri stundu Sigurborg vill minna fólk á að veikindi spyrja hvorki um stétt né stöðu.

„Hún á mjög marga vini á facebook og hefur skrifað færslur þar og tjáð sig þar um vanlíðan. Þá hafa viðbrögðin verið dræm. Þegar hún tjáði sig um krabbameinið í færslu fékk hún allt í einu yfir tvö þúsund læk og miklu meiri viðbrögð.“

Þá bendir Sigurborg á að andstætt við líkamleg veikindi þá séu andleg veikindi ekki sýnileg: erfiðara sé að koma auga á meinið sem þarf að taka og í mörgum tilfellum sé erfitt að fá sjúklinginn sjálfan til að viðurkenna veikindi sín.

„Þetta eru miklu flóknari veikindi og óútreiknanlegra sjúkdómsferli. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt að taka í taumana áður en sjúkdómurinn fær að ganga of langt og setja allt á hliðina hjá bæði sjúklingnum og fjölskyldunni,“ segir hún og bætir við að réttast væri að fagfólk myndi aðstoða sjúklinga við að átta sig á veikindum sínum og bjóða upp á öflugt teymi sem leitar bestu leiða til að glíma við andlegu veikindin, alveg eins og gert er þegar um líkamleg veikindi er að ræða.

„Það er oft talað um mikilvægi þess að greina veikindi snemma, áður en þau ná að dreifa sér og valda óbætanlegum skaða. Það á nefnilega líka við þegar um andleg veikindi er að ræða.

„Systir mín skrifaði um það á facebook að upplifun hennar af viðbrögðum og umhyggju fólks í gegnum þessi mismunandi veikindi hennar væru gríðarleg og minnti á að andleg veikindi væru ekkert minna hræðileg en krabbamein enda mætti líkja þeim við krabbamein á sálinni.

Ég vil því minna á að veikindi spyrja hvorki um stétt né stöðu eða hvort og þá hvernig þú ert undir það búinn að takast á við þau. Veikindi eru eitthvað sem við höfum ekkert val um, við einfaldlega veikjumst og þurfum þá að fá lækningu og skilning. sama hvort veikindin eru líkamleg eða andleg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis