Sérsveitin mætti á geðdeild – Árni Gils: „Ég var bara sultuslakur“

Árni Gils Hjaltason, sem losnaði nýverið úr gæsluvarðhaldi, segir að sérsveitarmenn lögreglunnar hafi miðað byssum á sig þegar hann hugðist sækja sér aðstoðar geðlæknis á geðdeild fyrr í dag. Hann segist ekkert hafa gert til að vinna sér inn slíka meðferð og hann hafi átt pantaðan tíma. Árni Gils birtir á Facebook-síðu sinni myndband af vettvangi þar sem sjá má vopnaða lögreglumenn.

Sjá einnig: Reyfarakenndur dómur Árna Gils Hjaltasonar Úrsus: Vitni mútað, furðulítið blóð og hvar er hnífurinn?

Líkt og DV hefur fjallað ítarlega um var Árni Gils dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra ára fangelsi fyrir morðtilraun. Faðir hans, Hjalti Úrsus, hefur bent á brotalamir í þeim dómi og sendi Hæstiréttur málið aftur í hérað á dögunum. Því losnaði Árni Gils úr gæsluvarðhaldi eftir 277 daga.

„Ég var bara sultuslakur og var sko ekki með neitt ofbeldi. Ég mætti þarna og bað um hjálp geðlæknis. Svo kom eitthvað fólk og talaði við mig. Svo bara var löggan skyndilega komin. Hún læsti húsinu og leyfði mér ekki að fara. Ég spurði: „Er ég handtekinn?“ og þeir svöruðu neitandi. Ég spurði hvort ég mætti ekki fara og þá sögðu þeir bara „nei“,“ segir Árni Gils í samtali við DVsem fékk að lokum að fara. Hann fullyrðir að lögreglumaður hafi slegið sig með byssunni í ennið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.