Hrafnhildur keypti sér köku í Reykjavík og endaði á bráðamóttökunni: „Ekki í lagi að þurfa að óttast um líf sitt“

Hrafnhildur Jóhannesdóttir varð fyrir því óláni að þurfa að fara í tvígang á bráðamóttökuna í síðustu viku eftir að hafa borðað súkkulaðiköku, brownie, sem átti að vera vegan. Hún fékk heiftarlegt ofnæmiskast þar sem kakan var ekki vegan í raun og veru. Hrafnhildur segir í samtali við DV að mikið vanti upp á þekkingu fólks í veitingabransanum á ofnæmismálum. Hrafnhildur er með ofnæmi fyrir mjólkurvörum en vörur merktar sem vegan eiga að vera með öllu lausar við dýraafurðir.

Þessa mynd tók Hrafnhildur um klukkutíma eftir að hún borðaði kökuna.
Eftir klukkustund Þessa mynd tók Hrafnhildur um klukkutíma eftir að hún borðaði kökuna.

„Ég keypti „vegan“ brownie á kaffihúsi og endaði svo á bráðamóttökunni tvisvar í kjölfarið. Það er ekki eðlilegt að veitingastaðir séu að selja vegan vörur sem eru ekki vegan og getur það verið lífshættulegt. Í kjölfar þess sem gerðist þá langar mig að stofna félag sem gerir úttektir á fæðuöryggi veitingastaða og kaffihúsa og er byrjuð að vinna í því,“ segir Hrafnhildur.

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum varð Hrafnhildur bólgin og fékk útbrot. „Mér finnst ekki í lagi að hluti fólks þurfi að óttast um líf sitt ef það ætlar að reyna að lifa eðlilegu og fá sér annað slagið mat eða kaffi á veitingastöðum. Fyrsta myndin er klukkustund eftir köku. Þá var ég komin með smá útbrot á einstaka stöðum. Svo um kvöldið og nóttina var ég öll búin að steypast út í bólgu og útbrotum,“ segir Hrafnhildur.

Hún vill ekki taka fram hvaða kaffihús hafi selt kökuna þar sem hún hefur verið í samskiptum við eiganda sem hefur lagt mikla áherslu á að komast að því hvað gerðist: „Ég er búin að vera í samskiptum við eiganda staðarins sem seldi mér kökuna og við erum að vinna í að finna út úr hvað gerðist og hvernig við getum komið í veg fyrir að þetta gerist aftur. Mér finnst mikilvægt að leggja mitt að mörkum til þess að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Eigandinn er sammála mér í því.“

Hrafnhildur var orðin bólgin um kvöldið.
Um kvöldið Hrafnhildur var orðin bólgin um kvöldið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.