Steinunn uppgötvaði að osturinn á XO væri ekki vegan – Eigandi kenndi nýju starfsfólki um en hún komst að öðru

Mynd: Copyright:Thorgeir Olafsson

Steinunn Valbjörnsdóttir skrifaði fyrir helgi langa gagnrýni á Facebook-síðu veitingastaðarins XO þar sem hún sagði að staðurinn hafi selt pizzur undir þeim formerkjum að vera vegan en raunin væri önnur. Málið vatt upp á sig og svaraði eigandi staðarins henni og kenndi nýju starfsfólki um. Steinunn fór þó í rannsóknarvinnu og komst að því að „nýja starfsfólkið“ hafi verið eigendurnir sjálfir.

„Í gær kom ég til ykkar í Smáralind og pantaði mér vegan pizzu ásamt systur minni. Mínútu síðar fékk ég bakþanka því ég hafði fyrir rúmlega viku síðan veður af því að ekki væri allt með felldu varðandi vegan ostinn ykkar. Sjá m.a. fyrirspurn Helgu Maríu frá 29. nóvember, undir athugasemd frá Eiju, sem þið hafið ekki enn svarað. Ég fór og spurði starfsfólk út í ostinn og fékk þau svör að hann héti "Vepox" en ég gat ekki séð að það sé til vegan ostur með því nafni og því vildi ég fá að sjá umbúðirnar,“ skrifaði Steinunn.

Fór á stúfana

Hún sagði að sér hafi verið lofað að kokkurinn kæmi og talaði við sig en það gekk ekki eftir. „Starfsmaður ykkar lofaði mér að hann myndi finna út úr þessu en ég fékk mörg furðuleg svör á borð við að kokkurinn væri upptekinn og hann væri sá eini sem gæti skoðað umbúðirnar. Ég gat ekki tekið það sem gilt svar og mér var að lokum sagt að ég mætti skoða þær. Það gerðist þó aldrei en ég ýtti oft á eftir því og rúmum klukkutíma seinna gafst ég upp og fór án þess að hafa borðað minn hluta af pizzunni og án þess að fá svo mikið sem afsökunarbeiðni. Við töluðum við sama starfsmann áður en við fórum og létum enn og aftur vita af þessu en hann sagði þá að umbúðirnar væru ekki til á staðnum. Sá lofaði að senda mér innihaldslýsingu í gær en það hefur ekki enn skilað sér,“ sagði Steinunn.

Steinunn fór á stúfana og komst að því að osturinn sem XO notar væri svo sannarlega ekki vegan. „Upplýsingarnar sem ég fékk frá ykkar fólki eru þær að osturinn komi frá Innnes og og heiti "Vepox". Samkvæmt vöruskrá flytur Innnes inn ost sem heitir "Vepo" en ef maður skoðar umbúðirnar er vel hægt að lesa úr því "VepoX". Sá ostur er unninn úr beljumjólk og er ekki vegan. Mér leikur forvitni á að vita hvort það standist að Innnes selji þetta sem vegan ost (eins og ykkar starfsfólk hélt fram) og ég mun hafa samband við þau. Þjónustan sem ég fékk frá ykkur, sem og viðmótið sem ég mætti, var fyrir neðan allar hellur en aðalatriðið er að sjálfsögðu að það er langt því frá í lagi að selja vöru undir þeim formerkjum að hún sé vegan þegar hún er það ekki,“ sagði Steinunn.

Mikið að gera

Í athugasemd við gagnrýni Steinunnar viðurkenndi Elvar, einn eiganda XO, að fyrir mistök hafi ostur úr kúamjólk verið notaður á vegan pizzur. „Sæl, Elvar heiti ég og er einn af eigendum XO. Við á XO viljum biðja þig innilegrar afsökunar á þessum misskilningi. Við skoðuðum málið nánar eftir athugasemdir frá þér og inniheldur þessi ostur að einhverjum hluta mjólk, sem gerir hann ekki að vegan osti sem við gerðum ráð fyrir að vera panta. Við höfum tekið hann strax úr sölu og förum í að finna vegan ost á flatbökurnar okkar. Það er okkur hjartansmál að hafa Vegan rétti á matseðlinum og ekki að ráðum gert að selja ost sem er ekki vegan.

„Mikið var að gera þegar þú komst í hádeginu og vorum við undirmönnuð í eldhúsinu með nýlegt starfsfólk í vinnu þann dag og erfitt fyrir kokkinn að fara fram með pantanir í gangi, undirmönnuð. Því var vaktstjórinn látinn afgreiða málið. Upplifunin á XO á ekki að vera eins og þú lýsir henni og því gríðarlega mikilvægt að koma i veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Við þökkum þessa mikilvægu athugasemd og bætum þjónustuna í mat og afgreiðslu, afsakaðu enn og aftur. Við munum hafa samband við þig sem fyrst,“ skrifaði Elvar í nafni XO.

„Veganismi er ekki eitthvað grín“

Steinunn var ekki fyllilega sátt við þessi svör og sendi þrjár framhaldsspurningar. „1. Ég sé ekki betur en "vaktstjórinn" sem var látinn afgreiða málið sé Gunnar Örn einn eigenda XO skv. ýmsum fréttamiðlum (sjá t.d. þessa frétt frá byrjun árs 2017:...). Mér finnst ekki í lagi að tala um nýlegt starfsfólk og ónafngreindan vaktstjóra sem er svo í raun einn af eigendum staðarins,“ spurði Steinunn.

Hún hélt áfram og spurði hvort Elvar hafi ekki sjálfur verið í eldhúsinu þegar hún var á staðnum. „3. Er það ekki rétt að þú hafir verið starfandi kokkur á þeim tíma sem vorum þarna og sért þar að auki yfirkokkur XO og berir þar með fulla ábyrgð á matseðlinum og innihaldsefnum hans? Ég bað Gunnar að sýna kokkinum mynd af Vepo ostinum sem hann gerði, og ég og systir mín vorum vitni af því. Við fundum svo mynd af þeim sama kokki í þessu myndasafni og þar er hann nefndur Elvar Már Torfason sem er ótrúlegt en satt skv. fréttamiðlum einnig einn eigenda XO og því að öllum líkindum þú sjálfur,“ skrifaði Steinunn.

Hún sagði að lokum að hún trúi því ekki að eigendur skýli sér bak við nýtt starfsfólk. „Ég vil ekki trúa því að ég hafi virkilega átt í samskiptum við tvo eigendur staðarins og þið skýlið ykkur svo á bak við „nýlegt starfsfólk“. Þetta er langt því frá að vera í lagi! Veitingastöðum ber skylda til að veita viðskiptavinum upplýsingar um innihald matvæla, ekki síst þegar um jafn þekktan ofnæmisvald og mjólk er að ræða, og ég tek undir með Freydísi hér að ofan að veganismi er ekki eitthvað grín,“ sagði Steinunn.

Ekki ætlun að blekkja

Veitingastaðurinn svaraði Steinunni, án þess þó að hrekja staðhæfingar hennar um eigendurna og „nýja starfsfólkið“. „Grænmetisflatbakan hefur verið á matseðli XO um langt skeið. Síðar vildum við einnig bjóða upp á Vegan flatböku en marga rétti á matseðli XO er hægt að fá Vegan. Við leituðum því til birgja varðandi Vegan ost. Frá því við byrjuðum að bjóða upp á þessa pizzu með vegan osti höfum við fengið hann frá Innnes. Við innkaup eru ávallt pöntuð X kg. af Vegan osti og hefur sú beiðni aldrei verið leiðrétt af birgja. Skýringin frá sölustjóra Innnes er sú að flestir panti jurtaost sem vegan ost og ekki ástæða til að leiðrétta það. Því miður er þetta mjög leiður misskilningur milli okkar og birgja og biðjumst við enn og aftur velvirðingar á þessum leiðu mistökum. Það var sannarlega aldrei ætlun XO að blekkja viðskiptavini okkar á nokkurn hátt,“ segir í svari XO.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.