fbpx
Mánudagur 10.desember 2018

DV - Frjáls og óháður miðill

Kaffistofan

PR-vandi

Fréttir

Fjölskylda Lýðs ósátt: „Eitt af því sem gamli kenndi okkur, var að láta aldrei vaða yfir okkur“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 11. desember 2017 13:12

Mál hins 69 ára Lýðs Ægissonar, bróður Gylfa Ægissonar, kom upp í sumar en honum var gert að flytjast úr öryggisíbúð í hjúkrunarrými eftir heilabilun en Lýður er einnig hreyfihamlaður, með krabbamein og nýrnasjúkdóm. Bæði öryggisíbúðin og hjúkrunarrýmið er á vegum hjúkrunarfélagsins Eirar.

Morgunblaðið greindi fyrst frá máli Lýðs. Ekki tókst að finna nýja leigjendur að öryggisíbúðinni og var Lýð því gert að greiða bæði fyrir hjúkrunarrýmið og sex mánaða uppsagnarfrest öryggisíbúðarinnar. Lífeyristekjur hans voru 397 þúsund krónur á mánuði en leigan fyrir báðar íbúðirnar 574 þúsund.

Í nóvember var greint frá því að Lýð hafi verið gert að greiða einnar og hálfrar milljón króna kröfu frá Eir innan átta daga, annars myndi hjúkrunarheimilið fara dómstólaleiðina. Þetta er fjögurra mánaða leiga og af þessari upphæð er um þriðjungur vextir. Í sjónvarpsfréttum RÚV 28. nóvember var rætt við Sigurjón, son Lýðs, og tveimur dögum síðar við Svein Magnússon, forstjóra eignaumsýslu hjúkrunarheimilisins. Börn Lýðs hafa nú gefið út yfirlýsingu á vefnum Veröldin þar sem segir að forsvarsmenn Eirar hafi farið ítrekað með ósannindi.

Sögðu upp samningunum

Í fréttinni frá 28. nóvember kemur fram að aðstandendur Lýðs hafi sagt upp íbúðinni í lok febrúar og gögn birt því til stuðnings. Í yfirlýsingunni segir:

„Í lok nóvember 2017 óskaði Kristín Sigurðardóttir fréttamaður hjá RÚV eftir viðtali við Sigurjón, en hann hefur verið í forsvari fyrir hönd okkar systkina vegna málsins. Hún sagðist einnig hafa hringt í Eir og verið gefið samband við forstjórann þegar hún bar upp erindið.
Forstjórinn sagði við hana að aðstandendur Lýðs hefðu aldrei sagt samningnum upp formlega.
Á þessum tímapunkti vorum við ekkert að velta okkur upp úr ummælum forstjórans. Hugsanlega var hann einfaldlega illa upplýstur. En maður spyr sig þó hvers vegna hann var þá í forsvari.
Þarna vorum við komin með lögfræðing í þeim tilgangi að vinna að lausn og vorum tilbúin að greiða þriðja mánuðinn sjálf.“

Vissu ekki að Lýður væri á sjúkrahúsi

Fjölskyldan gerir einnig athugasemdir við ummæli sem Sveinn lét falla í fréttatíma RÚV 30. nóvember um að þrýst hafi verið á aðstandendur Lýðs að segja upp íbúðinni strax í desember 2016 þegar hann var fluttur á sjúkrahús, ófær um að dvelja áfram í íbúðinni.

Í yfirlýsingunni segir: „Í fyrsta lagi höfðu starfsmenn eignaumsýslu Eirar ekki hugmynd um að Lýður væri á sjúkrahúsi í desember 2016 og þaðan af síður að hann væri ófær um að sjá um sig sjálfur til frambúðar. Við vissum það ekki einu sinni sjálf á þessum tímapunkti.

Það sem við vissum hins vegar, er að málið var alvarlegra en áður og þyrfti þess vegna að rannsaka ítarlega. Læknar voru ekki heldur að átta sig á alvarleika málsins og þurftum við að hafa mikið fyrir því að fá ítarlega rannsókn.
Í millitíðinni var hann sendur heim, þar sem Björk Unnarsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjá Eirborgum tók á móti honum og sendi hann strax til baka í sjúkrabíl vegna ástands hans.“

Ekki hafi verið ljóst fyrr en eftir hæfni og heilsumat í febrúar 2017 að Lýður hafi verið ófær um að sjá um sig sjálfur til frambúðar. Þá var ljóst að hann færi ekki aftur í íbúðina. Í yfirlýsingunni er birtur tölvupóstur af samskiptum Bjarkar og Sigurjóns.

„Eins og sést á tölvuskeytinu hér að ofan, þá leituðum við eftir upplýsingum í febrúar 2017 um hvert við ættum að snúa okkur varðandi uppsögn. Ef þrýst hefði verið á okkur að segja upp í desember 2016, þá hefðum við væntanlega þegar haft þessar upplýsingar og ekki þurft að leita eftir þeim sjálf.
Forsvarsmenn eignaumsýslu Eirar höfðu aldrei samband við okkur af fyrra bragði, hvorki með tölvupósti né í síma. Á tímum sundurliðaðra símareikninga er auðvelt að hrekja þessi ósannindi, en við látum tölvuskeytið hér að ofan duga.“

Segjast ekki hafa verið upplýst um drög samninga

Þriðja atriðið sem fjölskyldan telur rangt eru ummæli Sveins um að íbúðinni hafi ekki verið sagt upp fyrr en Lýður var kominn inn á hjúkrunarheimilið. „Íbúðinni var sagt upp 27. febrúar 2017 og Lýður fór inn á Eir í mars. Þessi ummæli eru því ekki heldur rétt.“

„Við höfum ekki hugmynd um hvað Sveinn er að vísa í hér. Hvort hann er að tala um drög að nýjum leigusamningum við þriðja aðila sem ekki gengu eftir, eða drög að uppsagnarsamningi“

Þá er fjölskyldan ósátt við ummæli Sveins um að aðstandendur hafi verið látnir vita af þremur drögum nýrra samninga. „Við höfum ekki hugmynd um hvað Sveinn er að vísa í hér. Hvort hann er að tala um drög að nýjum leigusamningum við þriðja aðila sem ekki gengu eftir, eða drög að uppsagnarsamningi. Hvað sem hann er að vísa í, þá höfum við aldrei verið látin vita. Hvorki með tölvupósti né í síma. Hér er því enn farið með rangt mál.“

Treysta hjúkrunarfólkinu

Fjölskyldan segir málinu nú lokið af þeirra hálfu. „Eins og fram kemur hér að ofan getum við engan veginn setið undir þessum ósannindum. Okkar hugur var alltaf að semja um málalok sem myndu henta báðum málsaðilum vel. En eftir framkomu forsvarsmanna gagnvart okkur í fjölmiðlum, þar sem ítrekað er farið með ósannindi, höfum við misst áhugann á að semja við þetta fólk og höfum því ákveðið að leyfa þeim að fara með þetta sína leið.“

Lýður dvelur enn á hjúkrunarheimilinu og fjölskyldan treystir starfsfólkinu þar vel. „Hjúkrunarfólkið á Eir er fagfólk upp til hópa og myndi aldrei láta þetta bitna á honum.
Og hins vegar vegna þess að eitt af því sem gamli kenndi okkur, var að láta aldrei vaða yfir okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Hópslagsmál brutust út í sumarbústaðahverfi – Réðust á lögreglu

Hópslagsmál brutust út í sumarbústaðahverfi – Réðust á lögreglu
Fréttir
Í gær

Þekktur lögmaður segir að Ágúst Ólafur sé að skrópa í vinnunni – „Hann á bara að mæta“

Þekktur lögmaður segir að Ágúst Ólafur sé að skrópa í vinnunni – „Hann á bara að mæta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Erfitt fyrir fyrrum fanga að fá vinnu eftir afplánun: „Margir mun hæfari en aðrir umsækendur“

Erfitt fyrir fyrrum fanga að fá vinnu eftir afplánun: „Margir mun hæfari en aðrir umsækendur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ágúst Ólafur í leyfi af þingi eftir alvarlegt atvik í sumar – „Nálgaðist ég hana tvívegis óumbeðinn og spurði hvort við ættum að kyssast“

Ágúst Ólafur í leyfi af þingi eftir alvarlegt atvik í sumar – „Nálgaðist ég hana tvívegis óumbeðinn og spurði hvort við ættum að kyssast“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórarinn er alkóhólisti og gefur þingmönnunum á Klaustri góð ráð

Þórarinn er alkóhólisti og gefur þingmönnunum á Klaustri góð ráð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur Ingi segist fá of háan jólabónus frá ríkinu: Leggur til að dæminu verði snúið alveg við

Guðmundur Ingi segist fá of háan jólabónus frá ríkinu: Leggur til að dæminu verði snúið alveg við