fbpx
Fréttir

Bjargaði tveggja ára dreng frá að verða fyrir bíl – Sá strax eftir því

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 11. desember 2017 06:21

Á miðvikudag í síðustu viku var kona á fertugsaldri á ferð í Nykøbing Falster í Danmörku. Hún ók inn á bílastæði við þjóðveginn til að losa sig við rusl. Þegar hún var búin að setja ruslið í ruslatunnu settist hún inn í bíl sinn og ætlaði að aka af stað. Þá sá hún bíl, sem ökumaðurinn ætlaði greinilega að fara að bakka, og bak við bílinn stóð 2-3 ára gamall drengur. Konan brást að sjálfsögðu skjótt við og hentist út úr bílnum og greip drenginn þannig að ekki var ekið á hann. En þessu sá hún nær samstundis eftir.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Lálandi og Falstri. Þar segir að þegar konan hafði bjargað litla drengnum hafi karlmaður komið til hennar og þakkað henni margoft fyrir að hafa bjargað drengnum.

En þegar konan kom aftur í bílinn sinn var búið að taka tösku úr honum, í töskunni voru fatnaður, snyrtivörur og umslag með peningum í. Hér var ekki um neitt annað að ræða en sviðsetningu þar sem átti að láta líta út fyrir að drengurinn væri að verða fyrir bílnum. Allt í þeim tilgangi að fá fólk til að yfirgefa bíla sína og koma drengnum til bjargar. Á meðan láta samverkamenn síðan greipar sópa um bíla fólks og láta sig hverfa á brott.

BT hefur eftir varðstjóra hjá lögreglunni á Lálandi og Falstri að hann hafi ekki heyrt áður um þessa aðferð við að stela verðmætum frá fólki. Hann sagði að þjófarnir finni ýmsar leiðir til að draga athygli fólks frá bílum þeirra og þessar leiðir væru eins fjölbreyttar og ímyndunarafl þjófanna.

Ekki er óalgengt í Danmörk að óheiðarlegt fólk reyni að stöðva ökumenn á hraðbrautum og þjóðvegum landsins með því að láta líta út fyrir það sé með bilaðan bíl. Þegar miskunarsamir borgarar stöðva síðan til að aðstoða og fara út úr bíl sínum eru greipar látnar sópa um bíla þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af