Gunnar gefur fátækum fjölskyldum milljón fyrir jólin

Gunnar Einarsson, eigandi GE verktaka, gaf Fjölskylduhjálp gjafabréf í Bónus að andvirði einnar milljónar króna

Í vikunni afhenti Gunnar formanni Fjölskylduhjálpar Íslands gjöfina.
Gunnar Einarsson og Ásgerður Jóna Flosadóttir Í vikunni afhenti Gunnar formanni Fjölskylduhjálpar Íslands gjöfina.
Mynd: Brynja

„Það á enginn að líða skort á Íslandi. Við erum í gríðarlegri uppsveiflu í atvinnulífinu og rekstur margra fyrirtækja gengur afar vel. Ég ætla að skora á önnur fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð og hjálpa þeim sem minnst mega sín,“ segir Gunnar Einarsson, eigandi GE verktaka. Hann tók sig til og fjárfesti í 100 inneignarkortum hjá verslunarrisanum Bónus að upphæð 10.000 krónur hvert. Gjöfina, sem var að andvirði einnar milljónar króna, afhenti hann Fjölskylduhjálp Íslands. „Ég og eiginkona mín fórum með nokkra pakka til Fjölskylduhjálparinnar um daginn. Á leiðinni heim fórum við að hugsa um að við gætum gert svo miklu betur og þá kviknaði þessi hugmynd,“ segir Gunnar í samtali við DV.

Upplifði sjálfur erfið jól

Að sögn Gunnars þekkir hann það sjálfur hvernig tilfinning það er að hafa lítið milli handanna fyrir jólin. „Ég var einn þeirra iðnaðarmanna sem fóru til Noregs í kjölfar efnahagshrunsins. Ég hafði vinnu hér heima en andrúmsloftið á Íslandi var svo þrúgandi á þessum árum að ég vildi komast frá því,“ segir hann. Hann bjó og starfaði í Ósló en alls var hann sex ár í Noregi. Í kjölfar skilnaðar eftirlét Gunnar fyrrverandi eiginkonu sinni hús þeirra til þess að börn þeirra þyrftu ekki að vera á vergangi.

„Jólin 2013 voru mér afar minnisstæð því þá átti ég aðeins 60 þúsund krónur til þess að lifa af desembermánuð. Það var mjög erfitt en ég efast ekki um að margir þeirra sem eru verst staddir hafi mun minna milli handanna,“ segir Gunnar.

Bara fjallað um skemmdu eplin

Í mars 2014, flutti hann síðan aftur heim til Íslands, með sama sem ekkert milli handanna, og rekstur GE verktaka hófst. „Það tók tíma að koma undir sig fótunum en undanfarið hefur reksturinn gengið vel. Ég er með frábæra starfsmenn og er heppinn með þau fyrirtæki sem ég er í samstarfi við, til dæmis HB innréttingar og Munck,“ segir Gunnar. Í dag starfa hjá GE verktökum um tuttugu einstaklingar. „Við erum aðallega í innréttingum og komum meðal annars að verkefnum fyrir Zöru og Hard Rock,“ segir Gunnar.

Að hans sögn hefur verið mikið góðæri í verktakabransanum undanfarin ár og því sé sjálfsagt að gefa til baka til samfélagsins. „Það eru margir sem eru að standa sig mjög vel en yfirleitt rata bara fréttir af skemmdu eplunum í fjölmiðla. Ég vil endilega hvetja öll fyrirtæki sem vettlingi geta valdið að hugsa til þeirra sem minnst mega sín þessi jól,“ segir Gunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.