fbpx
Fréttir

Rektor HÍ bregst við frásögnum kvenna af kynjamisrétti, áreiti og þöggun: „Ég dáist að styrk þeirra“

Breyta þarf kerfislægri menningu innan háskólasamfélagsins – Segir verklagsreglur hafa verið uppfærðar og lofar að ráðist verði í aðgerðir

Auður Ösp
Föstudaginn 1. desember 2017 11:22

„Stjórnendur Háskóla Íslands munu ekki sýna þolinmæði gagnvart valdníðslu og niðurlægjandi hegðun í garð kvenna og jaðarsettra hópa. Vinna er þegar hafin við að skoða með hvaða móti sé hægt að fyrirbyggja og taka á vandamálinu til viðbótar við þær aðgerðir og úrræði sem nú þegar eru til staðar innan skólans,“ segir Jón Atli Benediktssoni, rektor Háskóla Ísland í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér vegna kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og annars kynbundins ofbeldis gegn konum í vísindum.

Samstaða kvenna og reynslusögur af kynferðislegri áreitni og öðru kynbundnu ofbeldi hefur hrist upp í íslensku samfélagi og nú hafa konur í vísindum stigið fram og sagt frá eigin reynslu af áreitni, þöggun og lítilsvirðingu í störfum sínum.

Í yfirlýsingu segir Jón Atli mikilvægt að háskólasamfélagið hlusti á þessar raddir og bregðist við af fullri alvöru.

„Ábyrgð okkar stjórnenda er þar mikil. Því vil ég taka skýrt fram að stjórnendur Háskóla Íslands standa með þolendunum og taka málstað þeirra alvarlega. Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið undir neinum kringumstæðum við Háskólann og getur slík hegðun leitt til áminningar og brottreksturs þeirra sem af sér brjóta.

Í frásögnum kvenna er því lýst hvernig hlutgerving og fjandsamleg viðhorf til þeirra lita hina ýmsu þætti daglegs lífs og koma fram bæði í samskiptum við samstarfsfólk og nemendur. Hér er því greinilega um að ræða menningu sem þarf að breyta og sem því miður hefur verið kerfislæg innan háskólasamfélagsins, eins og dæmin sýna. En hvernig breytum við menningu? Hvernig komum við í veg fyrir að vald sé misnotað með þeim hætti sem raun ber vitni? Hvernig ætlum við í Háskóla Íslands að bregðast við ákalli kvenna?“

Jón Atli bendir á að Háskóli Íslands hafi sett sér siðareglur árið 2003 þar sem meðal annars er lögð áhersla á gagnkvæma virðingu í samskiptum. Í ársbyrjun 2014 samþykkti háskólaráð verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi.

„Þessar verklagsreglur voru nýlega endurskoðaðar og uppfærðar. Á grundvelli þeirra starfar sérstakt fagráð sem hefur það hlutverk að taka til meðferðar mál er varða brot starfsmanna og nemenda Háskóla Íslands og er formaður ráðsins ávallt óháður utanaðkomandi sérfræðingur. Reglurnar og fagráðið hafa sannað gildi sitt en þó er ljóst að þetta dugir ekki til. Það er þó von mín að umræðan um þetta alvarlega málefni hafi haft þau áhrif að þolendur treysti sér frekar en áður til að stíga fram, að á þá sé hlustað og þeim trúað.“

Hyggjast standa fyrir reglulegri fræðslu

Þá segir Jón að nú standi yfir endurskoðun jafnréttisáætlunar skólans og verði tekið mið af upplifun þolenda kynferðisofbeldis og áreitni í þeirri vinnu.

Meðal þeirra aðgerða sem ráðist verður í á næstunni er að verða við þeirri beiðni fulltrúa kvenna í vísindum að umfang og eðli vandamálsins verði rannsakað ítarlega. Þá verður gerð könnun meðal nemenda og starfsfólks um kynferðislega áreitni og ofbeldi í Háskóla Íslands þar sem skoðað verður hvort konur og jaðarsettir hópar upplifi óvirðingu í samskiptum og samstarfi innan skólans.

Þá segir Jón að Háskólinn muni standa fyrir reglulegri fræðslu í kennslustundum til að auka þekkingu nemenda á birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og ofbeldis auk þess sem skipulögð verða námskeið fyrir allt starfsfólk Háskóla Íslands um gagnkvæma virðingu í samskiptum og hvernig megi fyrirbyggja kynferðislega áreitni og ofbeldi innan háskólasamfélagsins.

„Þegar horft er til langs tíma skiptir máli hvaða veganesti næstu kynslóðir fá þegar kemur að virðingu í samskiptum kynjanna. Því mun Háskóli Íslands skoða hvernig megi tryggja að þekking á jafnréttismálum verði hluti af kennara- og leikskólakennaranámi innan skólans,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni og þá bætir Jón við að þegar hafi verið skipaður starfshópur til að kanna hvaða frekari aðgerða sé þörf.

„Að lokum vil ég segja að það er mikilvægt að starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands geti treyst því að vera örugg á vettvangi skólans, að þau séu metin að verðleikum og að þeirra rödd skipti máli. Því er mér ofarlega í huga þakklæti til þeirra kvenna sem hafa stigið fram og ég dáist að styrk þeirra. Heiðurinn er þeirra en skömmin er gerendanna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum
Stúlkurnar fundnar
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

DV vinsælt hjá vændiskonum

DV vinsælt hjá vændiskonum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pakistani í haldi grunaður um að hafa flutt inn tugi manns til Íslands

Pakistani í haldi grunaður um að hafa flutt inn tugi manns til Íslands
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Átta hjólbarðar sprungu í holu á Grindavíkurvegi

Átta hjólbarðar sprungu í holu á Grindavíkurvegi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pála beið í 10 ár eftir íbúð: Hefur þurft að flytja 35 sinnum – „Ég skil ekki tilganginn með þessu“

Pála beið í 10 ár eftir íbúð: Hefur þurft að flytja 35 sinnum – „Ég skil ekki tilganginn með þessu“