Gistinóttin á Hótel Adam á rúmar 300 þúsund krónur um áramótin

Ljósmynd/skjáskot af vef Booking.com
Ljósmynd/skjáskot af vef Booking.com

Reykjavík er ennþá gríðarvinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna yfir áramót og í dag eru nær öll gistirými uppbókuð. Verðlagið er í takt við eftirspurnina og má sjá dæmi um að einnar næturgisting í miðborginni hlaupi á hundruðum þúsunda.

DV.is gerði lauslega könnun á framboði og verði á gistingu á höfuðborgarsvæðinu í kringum áramótin en dagsetningarnar sem um ræðir eru frá 30. desember til 2.janúar. Miðað er við gistingu fyrir tvo einstaklinga og að bæði sé hægt að velja um gistingu í sérherbergi og með sameiginlegri aðstöðu. Bókunarsíðurnar sem stuðst var við var annars vegar Booking.com og Airbnb.com.

Ódýrasta gistingin á 40 þúsund krónur

Eftir að umræddar dagsetningar hafa verið slegnar inn í leitarvél Booking.com kemur upp að 96 prósent gistirými í Reykjavík séu uppbókuð. Rétt er þó að taka fram að þó svo að um sé að ræða eina af stærstu hótelbókunarsíðum á vefnum þá gefa upplýsingarnar á Booking.com ekki alltaf upp fullkomna mynd af stöðunni á gistimarkaðnum.

11 gististaðir eru í boði. Ódýrast væri fyrir tvo einstaklinga að deila koju í sex manna svefnsal á KEX Hostel og kostar það þá rúmar 40 þúsund krónur. Ef viðkomandi par vill eingöngu gista í sérherbergi er ódýrasti kosturinn að vera í litlu hjónaherbergi á Guesthouse Víkingur en gisting þar í þrjár nætur kostar rúmlega 130 þúsund krónur. Um er að ræða tveggja stjörnu gistingu.

Þá er hægt að gista í þrjár nætur í hjóna eða tveggja manna herbergi á CenterHotel Plaza fyrir svipað verð eða þá að parið getur deilt rúmi í svefnsal ásamt fleirum á Lækur Hostel. Þá er hægt að gista í hjónaherbergi í þrjár nætur á Maxhouse Reykjavík og þarf þá að reiða af hendi rúmlega 200 þúsund krónur.

Verðið fer hækkandi eftir því sem neðar er skrollað niður listann og er þá bæði um að ræða íbúðir og herbergi innan miðborgarinnar og utan. Til að mynda er hægt að leiga 150 fermetra villu í Kópavogi á 264 þúsund fyrir þrjár nætur eða stúdíóíbúð á Frakkastíg á rúmar 480 þúsund krónur.Næst dýrasta gistingin er á Fálkinn Guesthouse en þar kostar 3 nátta dvöl í tveggja manna herbergi 510 þúsund krónur.

Dýrasta gistingin er á Hótel Adam á Skólavörðustíg en þar geta 2 til 4 fullorðnir gist í 60 fermetra íbúð. Fyrir 3 nætur er verðið 910 þúsund krónur.

Meðalverðið 57 þúsund krónur

Ef viðkomandi par óskar eftir heimagistingu er heldur ekki úr miklu að moða. Ef umræddar dagsetningar eru slegnar inn í leitarvél Airbnb síðunnar kemur upp að aðeins 2 % gistirýma í Reykjavík séu laus. Þar á meðal eru fellihýsi, sumarbústaðir og svokallðir ferðabílar (campervan). Meðalverð á nótt er rúmlega 57 þúsund krónur.

Ódýrasta gistingin er í tveggja svefnherbergja íbúð í Kópavogi en þar kosta þrjár nætur rúmlega 100 þúsund krónur.

Vilji parið halda sig innan miðbæjarins væri ódýrast að taka á leigu herbergi á gistiheimili með sameiginlegri salernisaðstöðu og væri þá heildarverðið 45 þúsund krónur.

Dýrasta gistingin er hins vegar í 800 fermetra einbýlishúsi í Garðabæ en húsið rýmir allt að 16 gesti. Þar er heildverð fyrir 3 nætur rúmlega 800 þúsund krónur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.