Dregið í riðla á HM í dag – Óttast að Rússar muni svindla og tryggja sér auðvelda mótherja

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Síðdegis í dag verður dregið í riðla í úrslitakeppni HM í knattspyrnu karla sem fer fram í Rússlandi næsta sumar. Íslenska landsliðið verður að sjálfsögðu í sviðsljósinu í dag en margir erlendir fjölmiðlar beina athyglinni að þessari fámennu þjóð sem hefur nú afrekað að komast alla leið í úrslit HM. En sumir beina einnig sjónum sínum að gestgjöfunum og hafa áhyggjur af að þeir muni reyna að hafa rangt við þegar dregið verður í riðla. Uppi er orðrómur um að gestgjafarnir muni reyna að tryggja sér auðvelda mótherja, lið sem eru talinn auðveldari mótherjar en sum önnur.

Í síðasta prufudrætti mótshaldaranna voru Rússar dregnir í riðil með Perú, Túnis og Sádí-Arabíu og verður að segjast að þessi niðurstaða kynnti bara enn frekar undir þennan orðróm.

Það er auðvitað ekki til að draga úr áhyggjum margra af þessu að í tengslum við spillingarmál, sem tengjast alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA, á undanförnum árum játaði þáverandi forseti FIFA, Sepp Blatter, að hann vissi dæmi þess að svindlað hafi verið við drátt. Þetta hafi verið gert með því að kæla eða hita ákveðnar kúlur áður en þær voru settar í skálina. Þannig gátu þeir sem sáu um að draga vitað hvaða kúlur þeir áttu að forðast eða reyna að finna.

Það er einmitt þessi aðferð sem margir óttast að Rússar muni nota. Chris Unger, mótsstjóri FIFA, segir þó að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu. Sky Sports hefur eftir honum að allar kúlurnar verði eins og ekkert aðgreini þær nema hvað sumar eru rauðar en það þjóni ákveðnum tilgangi. Það verði tilviljunin ein sem ræður því hvernig dregst í riðla.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.