Birgitta: „Mikil má skömm þeirra vera sem viðstöðulaust reyndu að bregða fyrir hana fæti.“

Birgitta Jónsdóttir fyrrverandi kafteinn Pírata er sannfærð um að enginn hafi lagt jafn mikið á sig fyrir alþýðu Íslands og Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra. Jóhanna hefur verið nokkuð til umræðu síðustu daga þar sem út er komin út bók um hana og RÚV hefur sýnt um hana heimildarþætti. Birgitta segir á Fésbók að slagir sem Jóhanna hafi tekið við „undirförla“ samráðherra til að tryggja loforð um bætt kjör almennings hafi ekki verið auðveldir:

„Mér finnst að þegar fólk heldur því fram að hún hafi borið ábyrgð á þeim hörmungum sem yfir þetta land gekk síðast og svo oft áður, ættu frekar að beina þeirri reiði á rétta staði sem er til sjálftökuflokkanna sem bera að fullu ábyrgð á sífelldu arðráni á landi og þjóð,“ segir Birgitta en hún gagnrýndi ríkisstjórn Jóhönnu mikið á sínum tíma þó hún hafi varið stjórnina falli síðustu mánuðina. Hún bætir við að auðvitað hafi Jóhanna getað gert betur, þá sérstaklega í IceSave-málinu og öllu því „En ég hef sagt það oft og mun segja það aftur, að mikið skelfing er fólk vitlaust sem áttar sig ekki á því að mildari höndum var farið um þá sem verst hafa það í samfélagi okkar með hennar aðkomu en nokkurra annarra sem hefði getað valist til að bjarga því sem bjarga mátti í þeim efnahagslegu hamförum sem yfir okkur var kallað af misvitrum mönnum með græðgisglampa í augum.“

Birgitta segir skömm þeirra sem beri raunverulega ábyrgð á hruninu 2008 og reyndu síðan að bregða fæti fyrir Jóhönnu vera mikla: „Mikil má skömm þeirra vera sem báru hina raunverulegu ábyrgð og viðstöðulaust reyndu að bregða fyrir hana fæti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.