Vilhjálmur tekur ASÍ á teppið: „Ég held að núna verði launafólk að rísa upp“

Segir að hagsmunir launafólks séu fótum troðnir

„Enn og aftur vinnur forysta Alþýðusambands Íslands þvert gegn hagsmunum sinna eigin félagsmanna,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í pistli á Facebook-síðu sinni.

Vilhjálmur vísar þarna í samþykkt miðstjórnar ASÍ í gær um tillögu sem lýtur að því að láta fresta möguleika launafólks að leggja hið aukna framlag í lífeyrissjóði sem getur orðið allt að 3,5% í svokallaða tilgreindan séreignarsparnað.

Aukaframlag til lífeyrissjóðanna

„Miðstjórn samþykkti semsagt að launafólki verði ekki heimilt að leggja þetta auka framlag til séreignarsparnaðar eins og búið var að semja um en miðstjórn vill að allt auka framlagið upp á 3,5% fari í samtryggingarsjóði hjá lífeyrissjóðunum. Þetta á að gilda í að minnsta kosti eitt ár eða þar til forysta ASÍ verður búin að berja í gegn lagabreytingar sem munu skylda allt launafólk til að leggja allt framlagið upp á 3,5% einungis til lífeyrissjóðanna,“ segir Vilhjálmur sem tekur ASÍ á teppið vegna þessarar ákvörðunar.

Hvetur fólk til að bregðast við

„Að hugsa sér að forysta ASÍ ætli sér að fótum troða umsaminn rétt launafólks bara vegna þess að Fjármálaeftirlitið sló á puttana á þeim og sagði að þeir væru að brjóta lög með því að ætla að skylda og þvinga launafólk til að leggja allt auka framlagið bara inn til lífeyrissjóðanna. FME sagði í yfirlýsingu fyrir nokkrum mánuðum síðan að þetta væri ólöglegt og launafólk mætti velja sér vörsluaðila hvað varðaði þessa tilgreindu séreign,“ segir Vilhjálmur og bætir við að nú ætli forysta ASÍ að reyna að koma í veg fyrir þennan valmöguleika. Fólk verði þvingað til að þess að greiða allt framlagið í samtryggingarsjóði hjá lífeyrissjóðunum þvert á gildandi samkomulög og kjarasamninga.

„Hugsið ykkur að það eru þúsundir launamanna sem nú þegar hafa gert samninga við hina ýmsu vörsluaðila um að ávaxta þennan tilgreinda séreignasparnað sem mun nema 3,5%. Núna telur miðstjórn ASÍ hafa lagalega heimild til ógilda alla þessa samninga og þvinga launafólk til setja þessi 3,5% inn í samtryggingu lífeyrissjóðanna,“ segir Vilhjálmur sem hvetur fólk til að bregðast við.

„Ég held að núna verði launafólk að rísa upp og mótmæla kröftuglega þessum skaðlegu einræðistilburðum þar sem hagsmunir launafólks eru fótum troðnir allt til þess að tryggja að þetta framlag renni allt til lífeyrissjóðanna og valið hjá launafólki sé tekið af því þrátt fyrir skýr tilmæli frá FME um að launafólk hefði lagalegan rétt til að velja sér aðila til að ávaxta sinn séreignarsparnað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.