Maður með langa sakaskrá stal iPad af Dóru og aldraðri móður hennar: „Hefur af henni peninga sem hún þurfti til að lifa mánuðinn“

„Þegar alræmdur þjófur með langa sakaskrá notfærir sér góðmennsku eldri konu, og hefur af henni peninga sem hún þurfti til að lifa mánuðinn af þá verður eitthvað að gerast. Við getum ekki látið svona óþokka komast upp með að hafa aleiguna af góðri konu sem hefur engum illt gert.“

Þetta segir Dóra Bryndís Hjördísardóttir en maður hafði af 70 ára móður hennar iPad sem hún hugðist selja. Dóra segir að lífeyristekjur móður hennar dugi ekki út mánuðinn og því hafi þær mæðgur tekið til þess ráðs að selja Ipad Dóru á Facebook svo móðir hennar gæti átt eitthvað á milli handanna. Maðurinn þóttist ætla að kaupa Ipad-inn og sýndi móður Dóru heimabanka sinn á síma sínum til sönnunar um að hann hafði millifært á hana. Síðar kom í ljós það hafði hann ekki gert í raun og veru.

„Mamma notar Facebook-reikninginn sinn til að selja prjónaföt en hún auglýsir Ipad-inn með þeim reikningi. Svo fer hún að tala við einhvern mann á netinu. Hann spyr ekki mikið út í Ipad-inn en er voða ágengur en hún segir bara allt í lagi og svo kemur hann hingað heim í einum grænum. Hann sýnir okkur í heimabankanum að hann hafi borgað svo við látum hann fá Ipad-inn og þá hleypur hann bara út. Þegar við förum í tölvuna til að kanna sjálf með greiðsluna þá er ekkert komið og hann er búinn að blokka okkur á Facebook. Þá fóru að renna á okkur tvær grímur,“ segir Dóra.

Dóra segir að eftir þetta hafi hún farið á Facebook-hópa, svo sem Brask og brall, og varað við manninum. Í kjölfar þess hafði ættingi mannsins samband við hana og sagði henni að hann stundaði þetta. Maðurinn var fyrir ári síðan dæmdur í sex mánaða fangelsi ýmis afbrot tengd fíkniefnum. Samkvæmt þeim dómi á hann að baki langan sakaferil. Hann hefur oft verið dæmdur fyrir akstur undri áhrifum fíkniefna og árið 2012 var hann sakfelldur fyrir líkamsárás.

Dóra segir að hún hafi tilkynnt lögreglu um þjófnaðinn. „Þeir sögðu að hann væri að stela af fólki. Við hringdum aftur í þá í dag og þeir sögðu að það væru svo mörg mál á þeirra borði að þeir hafa ekki komist í þetta,“ segir Dóra.

Hún segir að þessi þjófnaður komi sér afar illa fyrir þær mæðgur en þó sérstaklega móður hennar. „Móðir mín er að prjóna á hverju kvöldi til þess að reyna að fá pening til að lifa út mánuðinn. Mér finnst rosalega leiðinlegt að einhver geti labbað hingað inn og stolið af aldraðri konu. Þessi peningur átti að endast okkur út mánuðinn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.