Lögreglan á Suðurnesjum með mikilvæga áminningu: Ekki skoða YouTube á 140 kílómetra hraða eins og þessi ökumaður á Reykjanesbraut

Það borgar sig að fara varlega í umferðinni og alls ekki skoða YouTube undir stýri.
Reykjanesbraut Það borgar sig að fara varlega í umferðinni og alls ekki skoða YouTube undir stýri.

Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér mikilvæga áminningu til ökumanna í dag en tilkynningin kemur til af óvenjulegu atviki á Reykjanesbraut í vikunni.

„Einhverjir hafa klárlega misskilið átakið að vera snjall undir stýri. En í vikunni vorum við lögreglumenn á eftirlitsferð á Reykjanesbraut og ókum á löglegum hraða,“ segir lögreglan í tilkynningunni.

„Skyndilega var sportbifreið ekið fram úr okkur á mikilli ferð, okkur til mikillar undrunar. Við veittum bifreiðinni eftirför og framkvæmdum svokallaða jafnhraðamælingu. Við náðum ekki að halda jöfnu bili fyrr en hraðinn var orðin 140 km/klst,“ segir lögregla sem gaf ökumanninum merki um að stöðva sem hann gerði strax.

„Í viðræðum við ökumann þá viðurkenndi hann að hafa ekki séð okkur. Hann var nefnilega í símanum. Er hann var spurður hvort hann hafi virkilega verið á 140 km hraða að tala við einhvern í símanum þá neitaði hann því, nú var þetta orðið svolítið flókið. En hann náði að útskýra þetta allt saman,“ segir lögregla og er óhætt að segja að útskýringin hafi verið nokkuð ótrúleg, þó engin ástæða sé til að draga hana í efa.

„Hann var ekki að tala í símann, heldur var hann að skoða myndband á Youtube. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í guðs bænum látum símann vera á meðan við erum í akstri, það er ekkert það mikilvægt að þú stofnir þér eða öðrum í þá hættu sem af þessu skapast.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.