Íbúar segja rottufaraldur í Vesturbænum - Búnar að koma sér fyrir á leikvelli: „Það eru rottur inn í loftunum og veggjunum hjá mér“

Innfelldu myndirnar eru nýlegar en myndin í forgrunni var tekin í Laugarneshverfi á liðnu ári.
Rottur Innfelldu myndirnar eru nýlegar en myndin í forgrunni var tekin í Laugarneshverfi á liðnu ári.

Vesturbæingar segjast hafa orðið varir við óvenju mikið af rottum undanfarið við Hringbraut og Bræðraborgarstíg. Ein kona segir í Facebook-hóp íbúa í Vesturbænum að hún telji að rottur séu búnar að koma sér fyrir við leikvöllinn á horninu á Hringbraut og Bræðraborgarstígs.

Konan spyr í Facebook-hópnum hvort fleiri hafi orðið varir við rottur. „Það er rottur búnar að vera hér á sveimi í garðinum í nokkurn tíma (við hornið á Hringbraut og Bræðraborgarstígs). Þær eru greinilega búnar að gera sér heimakomnar í garðinum. Taka skal fram að í miðjum garðinum, rétt við þar sem líklegt er að þær hafi komið sér fyrir, er leikvöllur fyrir börn. Þetta bíður börnunum og öðrum hættunni heim, ekki er vitað til slysa enn, af völdum rottanna, en það er bara tímaspursmál hvenær slys verða á mönnum eða gæludýrum í garðinum, þetta verður að laga strax,“ segir konan.

Nokkrir íbúar í hverfinu kannast við þetta. „Já það kíkti ein í heimsókn í þvottahús hèr á horni Hringbrautar og Hofsvallagötu í seinustu viku, en slapp aftur út,“ segir einn íbúi. Önnur kona segist hafa staðið í ströngu undanfarna mánuði við að útrýma rottum á heimili sínu.

„Það eru rottur inn í loftunum og veggjunum hjá mér á Hringbrautinni, við erum búin að standa í þessu í 2 mánuði að reyna útrýma þessu, gengur mjög hægt ! Greinilega rottufaraldur á þessu svæði. Svo miklar framkvæmdir í að reyna útrýma þessu, þurfti að saga tvö stór göt í loftið til að setja eitur þar upp og svo er búið að mynda einhverjar lagnir og núna á að setja myndavél upp í loftið til að sjá hvar þær eru að koma inn,“ segir sú kona.

Svo virðist sem ekkert lát sé á rottufaraldinum sem hefur geisað í Vesturbænum en reglulega er kvartað undan rottugangi þar. Í sumar náðist „risarotta á Holtsgötu“ á myndband og sagðist Steinar Smári Guðbjartsson meindýraeyðir að mikið hafi verið hringt vegna rottugangs. Hann sagði í viðtali við RÚV í maí að rottum fjölgi stöðugt í Reykjavík og þá sérstaklega í Vesturbænum: „Það er nóg af þeim hérna í lagnakerfi Reykjavíkur, minna af þeim einhvern veginn í Garðabæ, þó að ég ætli ekki að fara að gera upp á milli en þetta er svolítið bundið við Vesturbæ Reykjavíkur, það er mest af þeim þar“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.