Hlustar Facebook á allt sem þú segir? Hefur þú upplifað að hafa talað um eitthvað og skömmu síðar birtist auglýsing um það sama á Facebook?

Er Facebook að hlusta?
Er Facebook að hlusta?

Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Facebook búi yfir tækni sem gerir þessum öfluga samfélagsmiðli kleift að hlusta á það sem fram fer nærri símum fólks. Þetta notar fyrirtækið síðan að sögn til að beina viðeigandi auglýsingum að fólki. Ef það hefur til dæmis verið að tala um sólarfrí á Spáni þá hefur verið sagt að á Facebook fari skyndilega að birtast auglýsingar frá ferðaskrifstofum um sólarferðir til Spánar.

Margir hafa eflaust upplifað að auglýsingar Facebook virðast skyndilega vera ótrúlega markvissar og eiga vel um það sem við erum sjálf að dunda við eða láta okkur dreyma um, til dæmis ferðalög eða nýjan bíl. En hefur þú upplifað að þessar markvissu auglýsingar hafi skyndilega orðið of markvissar? Að á Facebook hafi birst auglýsing um eitthvað sem þú hefur kannski talað um en aldrei skrifað neitt um á samfélagsmiðlinum?

Sögur sem þessar koma öðru hvoru upp á yfirborðið og ýta undir orðróminn um að með Facebookappinu í símum fólks geti Facebook hlustað á það sem fólk segir til að geta beint mjög markvissum auglýsingum að fólki.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að umræðan um þetta efni hafi nýlega farið á flug þegar PJ Vogt lýsti eftir slíkum dæmum í podcastinu Reply All. Á meðal þeirra mörgu sem svöruðu vakti eitt svarið mikla athygli en það er frá Rob Goldman, sem er yfirmaður auglýsingamála hjá Facebook. Hann þvertók fyrir að Facebookappið eða Instagramappið, sem Facebook á, hlusti á það sem fólk segir.

Facebook neitaði þessu einnig á síðasta ári. Í Bandaríkjunum notar Facebook þó appið til að hlusta á umhverfi fólks og leita að tónlist eða sjónvarpsþáttum sem algóriþmar fyrirtækisins þekkja. Facebook segir að appið hlusti þó aðeins á umhverfishljóðin á meðan verið er að skrifa færslu á Facebook. Facebook segir að tæknin sé ekki svo langt á veg komin að hún geti ákveðið hvaða auglýsingum eigi að beina að fólki út frá samtölum þess.

En það er kannski erfitt að vita hverju á að trúa í þessum efnum. En ef fólk vill vera alveg öruggt um að Facebook sé ekki að hlusta á það er hægt að gera aðgengi Facebookappsins að hljóðnema símans óvirkan í stillingum appsins og þannig ætti fólk að vera öruggt um að Facebook geti ekki heyrt hvað fram fer nærri símanum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.