Faðir á Suðurlandi grunaður um að nauðga þremur dætrum sínum: Lögregla telur óforsvaranlegt að hann fái að ganga laus

Úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. nóvember næstkomandi

Að sögn lögreglu varða meint brot allt að sextán ára fangelsi. Myndin er úr myndasafni.
Grunur um alvarleg brot Að sögn lögreglu varða meint brot allt að sextán ára fangelsi. Myndin er úr myndasafni.
Mynd: Shutterstock

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að karlmaður, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 29. nóvember næstkomandi. Maðurinn var dæmdur í fangelsi árið 1991 fyrir gróf kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi til rannsóknar ætlað kynferðisbrot mannsins gegn dóttur sinni, en rannsókn hófst í kjölfar bréfs félagsmálastjóra sveitarfélagsins þann 2. október síðastliðinn. Í bréfinu var óskað eftir lögreglurannsókn vegna upplýsinga um ætlað brot mannsins gagnvart stúlkunni.

Greindi lögreglu frá brotunum í lok október

Stúlkan greindi frá því í skýrslutöku hjá lögreglu þann 26. október að þegar hún var fimm til sex ára hafi faðir hennar nauðgað henni að minnsta kosti þrisvar sinnum. Á þeim tíma bjó fjölskyldan erlendis, eða allt þar til stúlkan var tíu eða ellefu ára að fjölskyldan flutti aftur til Íslands.

Hafi þetta gerst þegar hann fór með stúlkuna á hótelherbergi og sagði stúlkan að hann hafi ítrekað beðið hana um að segja móður hennar ekki frá. Þá hafi stúlkan greint frá því að eldri systir hennar hafi sagt henni að þetta hefði líka gerst fyrir hana í sams konar ferðum. Það mál er nú í ákærumeðferð hjá héraðssaksóknara.

Neitaði sök - annað mál í ákærumeðferð

Faðirinn var handtekinn þann 31. október síðastliðinn og neitaði hann sök, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms sem birtur er á vef Hæstaréttar. Að mati lögreglu var framburður stúlkunnar mjög trúverðugur og ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að draga ásakanir hennar í efa.

Þá kemur fram í kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi að auk framangreinds máls sé til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara mál þar sem manninum er gefið að sök að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn næst elstu dóttur sinni. Hafi sú stúlka greint frá því að maðurinn hafi fyrst brotið gegn henni þegar hún var 5-6 ára. Þá kemur fram í greinargerð lögreglustjóra að maðurinn hafi hlotið tíu mánaða fangelsi árið 1991 fyrir sakadómi Austur-Skaftafellssýslu fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún var 5-7 ára gömul. Maðurinn hafi játað sök fyrir dómi.

Óforsvaranlegt að hann gangi laus

Brot mannsins geta varðað allt að sextán ára fangelsi og segir lögregla að rökustuddur grunur sé kominn fram í málunum tveimur að hann hafi gerst sekur um hin ætluðu brot. Framburður systranna sé trúverðugur og ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að draga frásagnir þeirra um málsatvik í efa. Taldi lögreglustjóri að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

„Sé óforsvaranlegt að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök. Þá verði að líta til þess að ætluð háttsemi kærða sem lúti að grófum og ítrekuðum kynferðisbrotum sem spanni yfir langt tímabil gegn þremur dætrum hans sýni ákveðið hegðunarmynstur eða kenndir sem kærði virðist ekki hafa stjórn á. Sé kærði því að mati lögreglu hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar,“ segir í kröfu lögreglustjórans.

Hæstiréttur staðfesti sem fyrr segir úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi allt til 29. nóvember næstkomandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.