Enn eitt morðið á kvenkyns skokkara skelfir Frakka – Áttundi kvenkyns skokkarinn sem er myrtur á 10 árum

Alexia Daval.
Alexia Daval.

Fyrir rúmri viku hvarf Alexia Daval, 29 ára bankastarfsmaður, þegar hún fór út að skokka nærri heimili sínu í Gray-la-Ville í Dijon í austanverðu Frakklandi. Þegar hún skilaði sér ekki heim hafði eiginmaður hennar samband við lögregluna. Mörg hundruð manns tóku þátt í leitinni að Alexia. Tveimur dögum síðar fannst lík hennar falið undir trjágreinum nokkrum kílómetrum frá hinum hefðbundna hlaupastað hennar. Líkið hafði verið brennt að hluta.

Þetta var áttunda morðið á kvenkyns skokkara á tíu árum í Frakklandi. Morðið hefur ýtt illilega við Frökkum og mótmæli hafa farið fram gegn ofbeldi gegn konum.

Kennsl voru borin á lík Alexia með dna-rannsókn. Le Parisien segir að krufning hafi leitt í ljós að hún hafi verið kyrkt. Ekki fundust nein ummerki um að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Saksóknari málsins hefur ekki viljað staðfesta þetta en segir að krufningin hafi verið „afgerandi“ fyrir rannsókn málsins.

Lögreglan hefur beðið almenning um upplýsingar í málinu. Umfangsmikil vettvangsrannsókn hefur farið fram og hafa drónar meðal annars verið notaðir til að mynda morðvettvanginn. Með því vonast lögreglan til að fá svar við hvernig líkið var flutt margra kílómetra leið.

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins en lögreglan vinnur út frá nokkrum kenningum um atburðarásina. Vinir og ættingjar Alexia hafa meðal annars skýrt lögreglunni frá því að maður nokkur hafi setið um hana í margar vikur áður en hún var myrt. Þessi maður hefur verið yfirheyrður. Einnig hafa vitni sagt frá því að „flassari“ (maður sem fær eitthvað út úr því að sýna öðrum kynfæri sín) hafi herjað á svæðið og áreitt konur.

Íbúum Gray-la-Ville er að vonum illilega brugðið vegna málsins en þetta er lítill og friðsæll bær en um 5.000 manns búa þar. Á sunnudaginn tóku um 8.000 manns þátt í minningargöngu um Alexia í bænum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.