Marika þurfti að fara frá Íslandi til Póllands til að fá rétta greiningu á augnsýkingu: „Veit ekki hvernig þetta hefði endað ef ég hefði ekki bókað mér miða út“

„Við vorum alltaf að gefa nýjum og nýjum læknum séns á því að skoða þetta og hlusta á okkur en það sögðu bara allir eitthvað eins og: „Nei, það er ekki þetta“ eða „Þetta tekur bara tíma að fara.“ Á endanum missti ég einfaldlega vonina og ákvað að gera eitthvað íþessu sjálf,“ segir Marika Adrianna Kwiatkowska en hún og móðir hennar fengu báðar svæsna augnsýkingu af völdum hinnar svokölluðu shingles-veiru í síðasta mánuði. Eftir að hafa leitað árangurslaust að lækningu á Íslandi endaði Marika á því að fara til Póllands þar sem hún fékk loksins rétta greiningu á meininu. Hún segir umhugsunarvert að hún hafi þurft að fara erlendis til þess að fá bót meina sinna.

Móðirin nánast blind

Marika og fjölskylda hennar fluttust til Íslands frá Póllandi fyrir 10 árum. Forsaga málsins er sú að þann 13.október síðastliðinn kom móðir Mariku heim frá Póllandi með svæsna augnsýkingu en þá hafði fjölskyldumeðlimur þar í landi smitað hana af umræddri veiru.

Shingles veiran gengur undir nafninu ristill á íslensku og er endurvakning á hlaupabóluveirunni, venjulega mörgum árum eftir upprunalegu sýkinguna. Getur veiran því valdið útbrotum á líkamanum en einnig borist í auga, líkt og í tilfelli Mariku og móður hennar.

Að sögn Mariku var móðir hennar nánast blind vegna sýkingarinnar. Sá hún lítið sem ekkert, var mjög bólgin um augun og með endalausa höfuðverki. Hún segir móður sína fyrst hafa leitað á Heilsugæslu Suðunesja og síðan til augnlæknis í Keflavík. Fékk hún skrifað upp á áburð, verkjalyf og augndropa sem virkuðu ekki. Segir hún móður sína hafa verið óvinnufæra í þrjár vikur vegna sýkingarinnar og á þeim tíma smitaðist Marika einnig.

„Öll lyf sem við fengum virkuðu ekki. Við erum með fullt af kremum, dropum og verkjalyfjum sem bara virkuðu aldrei“

Leituðu mæðgurnar þá til Bráðamóttökunnar í Fossvogi.

„Þar vorum við spurðar hvort við vissum hvers konar veiru fjölskyldumeðlimur okkar væri með,“ segir Marika og bætir við að þrátt fyrir að þær mæðgur hafi vitað hvaða veiru viðkomandi fjölskyldumeðlimur var með, og jafnframt sýnt læknum hvaða hann hafði fengið við því, þá hafi ekki verið á það hlustað. Þess í stað var þeim mæðgum ítrekað tjáð að um væri að ræða svokallað „pink eye.“

Hún segir móður sína hafa leitað til þriðja augnlæknisins eftir þetta. Þá leitaði Marika aftur á Heilsugæslu Suðurnesja og var send þaðan í skoðun til tveggja augnlækna á Landspítalanum. Þann 30. Október síðastliðinn leitaði Marika enn og aftur á Heilsugæslu Suðurnesja en fékk þá aðeins uppáskrifað smyrsli fyrir augað.

„Öll lyf sem við fengum virkuðu ekki. Við erum með fullt af kremum, dropum og verkjalyfjum sem bara virkuðu aldrei,“ segir hún og bætir við þær mæðgur hafi lítil svör fengið frá læknum annað en að ástandið „myndi batna með tímanum.“

Til vinstri má sjá móður Mariku þegar hún var hvað verst haldin af sýkingunni og á hægri myndinni má sjá Mariku sjálfa.
Til vinstri má sjá móður Mariku þegar hún var hvað verst haldin af sýkingunni og á hægri myndinni má sjá Mariku sjálfa.

Fékk loksins rétta greiningu og lyf

Eftir að hafa „grátið úr sársauka 10 daga í röð“ líkt og hún orðar það ákvað Marika í samráði við móður sína að fljúga til Póllands, leita þar til augnlæknis á einkarekinni stofu og fá hjá honum viðeigandi lyf fyrir þær báðar. Hjá þeim lækni fékk Marika loks staðfest að um væri að ræða svokalla shingles veiru og segir hún augnlækninn sem hún leitaði til hafa hneykslast á því hversu lengi sýkingin hafi fengið að grassera ómeðhöndluð. Þá fékk Marika einnig að vita að hún væri með hornhimubólgu í vinsta auganu vegna sýkingarinnar. Hjá lækninum fékk hún viðeigandi lyf.

„Ég veit ekki hvernig þetta hefði endað ef ég hefði ekki bókað mér miða út en það var klárlega „right call“ hjá mér að gera þetta,“ segir hún og spyr jafnframt hversu marga lækna á Íslandi hún þurfi að hitta til þess að fá eina litla túbu af geli fyrir augað.

Marika kom aftur til Íslands þann 5.nóvember síðastliðinn. Í samtali við blaðamann kveðst hún nú loks geta opnað vinstra augað og þá hafi bólgan og gröfturinn loksins horfið.

Marika tjáði sig um málið í myndskeiði sem hún birti á Facebook síðu sinni á dögunum en hátt í 50 manns hafa deilt færslunni er þetta er ritað.
Mikil viðbrögð Marika tjáði sig um málið í myndskeiði sem hún birti á Facebook síðu sinni á dögunum en hátt í 50 manns hafa deilt færslunni er þetta er ritað.

„Mamma er líka betri, það er allt farið hjá henni en hún sér illa. Hún fór í augnskoðun seinast þegar hún fór til Póllans til að fá sér ný gleraugu, og nú sér hún ekki lengur nógu skýrt í gegnum þau. Þannig að núna þarf hún að láta athuga allt saman aftur.“

Henni kveðst blöskra að hún hafi á endanum þurft að leita erlendis til að fá rétta greiningu á veikindum sínum.

„Ég hágrét hjá hverjum og einum lækni þar sem að ég var orðin svo þreytt á þessu og var í þvílíkkum sársauka. Þetta sýnir bara hversu mikið það þarf að bæta heilbrigðiskerfið og ég vona svo innilega að enginn muni lenda í sömu sporum og ég.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.