Patricia samþykkti vinabeiðni á Facebook: Það endaði á að kosta hana rúmar 10 milljónir króna

Sagðist heita Carlos og vera frá Ítalíu - „Reyndu bara að ná mér“

Tapaði í það heila rúmum tíu milljónum króna á svikunum.
Patricia Meister Tapaði í það heila rúmum tíu milljónum króna á svikunum.

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og við heyrum oft að við ættum ekki að samþykkja vinabeiðnir frá ókunnugu fólki á Facebook. Samt freistast margir til þess, einhverra hluta vegna.

Kona ein frá Queensland í Ástralíu, Patricia Meister, hugsar sig væntanlega tvisvar um áður en hún samþykkir vinabeiðni frá ókunnugum eftir að hafa lent í klóm svindlara fyrir skemmstu.

Vinabeiðni frá huggulegum manni

Forsaga málsins er sú að Patricia, sem er 64 ára, fékk vinabeiðni frá huggulegum manni árið 2015. Maðurinn sagðist vera kaupsýslumaður, hann virtist vera á besta aldri og sagðist heita Carlos, fæddur á Ítalíu. Síðar kom á daginn að sjarmatröllið Carlos var í raun dæmigerður Nígeríusvindlari.

Patricia og Carlos spjölluðu saman um allt milli himins og jarðar. Þar sem Patricia var nokkuð blaut á bak við eyrun í tæknimálum var hún auðtrúa; hún hafði aldrei skráð sig á stefnumótasíðu og jafnvel Facebook var nokkuð framandi fyrir hana. Aldrei óraði hana fyrir því að um væri að ræða svikara sem myndi hafa af henni stórfé.

Heillandi og vel að sér

„Hann var heillandi, virtist vel að sér, var góður í ensku og rómantískur. Ég var í raun ástfangin af honum,“ segir hún og bætir við að Carlos hafi sagst búa í Brisbane í Ástralíu og ynni sem innanhússhönnuður. Þau spjölluðu saman daglega á Facebook en síðan spjölluðu þau saman í síma.

„Ég hugsaði með mér hvernig fólk gæti gert þetta, sent peninga til ókunnugra.“

Patricia viðurkennir að hún hafi hugsað sig tvisvar um þegar hún heyrði að hann talaði ekki með hreim sem beinlínis gæfi til kynna að hann væri frá Ítalíu. Hann hljómaði meira eins og hann væri frá Afríku. Hún ákvað þó að leyfa honum að njóta vafans og hélt spjallinu áfram.

Bað alltaf um meira og meira

Eftir átta vikna kynni spurði Carlos vinkonu sína hvort hún gæti lánað honum sem nemur um 70 þúsund krónum. Hann sagðist vera staddur í Malasíu en kreditkortið hans virkaði ekki, einhverra hluta vegna. Patricia segir við Mail Online að hún hafi látið tilleiðast, ekki væri um stórfé að ræða og hún hafi viljað hjálpa vini sínum.

Carlos hélt áfram að biðja Patriciu um peninga og fann hann ýmsar afsakanir. Alltaf ákvað Patricia að sýna góðmennsku sína í verki og hjálpa vini sínum. Í eitt skiptið millifærði hún sem nemur 800 þúsund krónum, svo bað hann aftur um svipaða upphæð. Patricia tekur fram að Carlos hafi verið sannfærandi, hann hafi lofað að borga henni og ekki slitið á samskiptin við hana þó hann væri búinn að fá stórfé. „Hann sagðist geta stutt allt með skjölum og gögnum og alltaf þegar við töluðum saman var „lögmaður“ með honum,“ segir hún.

„Það var þá sem ég áttaði mig á að ég hafði verið svikin“

Vel skipulögð svik

Til marks um það hversu útsmoginn hann var sagði hann í eitt skipti að hann gæti ekki millifært svo stóra upphæð til hennar. Hann þyrfti því að senda peningana frá Malasíu, þar sem hann sagðist vera staddur, með pósti til Ástralíu. Sá galli væri á að til að senda pakkann úr landi þyrfti hann að reiða fram tryggingafé upp á tæpar þrjár milljónir króna. Þannig að til að fá milljónirnar til baka þyrfti hún að borga hluta af þeirri upphæð til viðbótar. Það gerði Patricia og um það leyti sem hún ætlaði að sækja pakkann fékk hún símtal.

Einhver sagði að Carlos og lögmaður hans hefðu lent í alvarlegu umferðarslysi og hann þyrfti peninga til að greiða fyrir sjúkrahúskostnað. „Það var þá sem ég áttaði mig á að ég hafði verið svikin,“ segir hún. Hún greiddi ekki sjúkrahússkostnaðinn en Carlos stoppaði ekki. Hann hélt áfram að reyna að fá peninga frá vinkonu sinni en hún stóð föst á því að senda ekki meira fé, enda var nær allt hennar sparifé uppurið.

Lögregla gat lítið gert

Allt í allt hafði svikarinn, sem lögregla telur að hafi verið frá Nígeríu, af henni rúmar tíu milljónir króna. Hún fór til lögreglunnar sem gat lítið gert í málinu. Tveimur mánuðum síðar fékk hún smáskilaboð frá Carlos sem sagði að þetta væri allt einn stór misskilningur. Patricia svaraði að bragði og sagði hann vera svikara. Hann svaraði í kjölfarið: „Reyndu bara að ná mér.“ Það var það síðasta sem hún heyrði frá honum.

Patricia segir við Mail Online að hún hafi, áður en að þessu kom, heyrt sambærilegar sögur en aldrei órað fyrir því að hún myndi lenda í svipuðum sporum. „Ég hugsaði með mér hvernig fólk gæti gert þetta, sent peninga til ókunnugra. En ég áttaði mig ekki á því hversu margslungin og flókin þessi svik geta verið. Ég veit að ég mun ekki fá peningana aftur en ég get að minnsta kosti varað aðra við. Það er fullt af einmana fólki þarna úti og margir svikarar sem reyna að ná til þessa tiltekna hóps,“ segir hún.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.