Magnús telur ólíklegt að Vilhelm snúi til betri vegar:„Ódýrt að berja konur til óbóta á Íslandi“

Magnús Guðmundsson, menningarritstjóri á Fréttablaðinu, segir í leiðara blaðsins í dag að mál Vilhelm Norðfjörð Sigurðssonar, sem var á dögunum dæmdur fyrir fyrir endurtekið ofbeldi gegn sambýliskonu, sýni glögglega að það sé þörf á úrbótum á fangelsiskerfi Íslands. Rétt er að taka fram að Magnús nefnir Vilhelm ekki á nafn þá hann fjalli um mál hans í leiðara blaðsins.

Vilhelm var dæmdur fyrir að hafa í tvö mismunandi skipti ráðist harkalega á þáverandi sambýliskonu sína. Samkvæmt dómi átti fyrra atvikið sér stað þann 1. maí síðastliðinn en þá sló Vilhelm konuna hnefahöggi og skallaði hana í andlit. Því næst ýtt hann henni upp að vegg með því að leggja framhandlegg sinn upp að hálsi hennar og haldið henni þannig fastri og eftir að hún náði að losa sig, ráðist að henni á ný og haldið henni niðri á gólfinu. Seinna atvikið átti sér stað daginn eftir, en þá réðst Vilhelm að henni með hnefahöggum, skallaði hana ítrekað í andlit og hrinti henni í gólfið þannig að enni hennar skall í gólfið.

„Satt best að segja virðist manni nú að þetta sé ekki þung refsing fyrir slíka glæpi og því erfitt að verjast þeirri ömurlegu hugsun að það sé ódýrt að berja konur til óbóta á Íslandi. Til samanburðar má líta til þess að í haust var karlmaður dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir tvær misheppnaðar tilraunir til þess að ræna úr sama bílskúrnum í Reykjavík. Eflaust hefur brotaferill hér líka sitt að segja en í báðum tilfellum voru síbrotamenn að verki,“ segir Magnús.

Vilhelm hefur ítrekað komist í kast við lögin en hefur undanfarin ár fengið fjölda dóma, þar á meðal einu sinni fyrir brot sem tengt er við vísvitandi ofbeldi. „Síbrotamenn með ávana- og fíkniefnabrot á bakinu segir okkur ákveðna sögu. Það segir okkur að þeir hafa báðir ítrekað komið við sögu íslenska réttarkerfisins og að í hvorugu tilfelli hefur það leitt til betrunar. Viðkomandi einstaklingar glíma enn við sinn vanda, af hvaða rót sem hann er runninn, og afleiðingarnar láta ekki á sér standa og þetta eru engin einsdæmi. Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð hafa vart undan að taka við þolendum ofbeldis að ógleymdum öllum þeim þolendum sem lifa og þjást í þögn. Þetta gengur ekki lengur,“ segir Magnús.

Magnús segir að dómur Vilhelms sé ekki líklegur til að verða til þess að hann snúi til betri vegar: „Auðvitað eigum við ekki að fría þessa einstaklinga ábyrgð af sínum ofbeldisfullu gjörðum eða öðrum glæpum. En við hljótum að þurfa að horfast í augu við einföld sannindi eins og að tveggja mánaða fangelsisdómur og 300 þúsund króna skaðabætur eru ólíkleg til þess að snúa viðkomandi geranda til betri vegar við núverandi aðstæður. Horfast í augu við að það er allt of mikið álag á fangelsiskerfinu eins og það er í dag og að það er ekki að skila tilætluðum árangri. Því til dapurlegrar staðfestingar eru fjöldi og afköst síbrotamanna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.