Kolbeinn rifjar upp augnablikið við klósettið á Staðarfelli þegar hann komst að því að lífið snýst meira um að gefa en þiggja

Mynd: Af Facebook

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, rifjar upp á Facebook-síðu sinni þegar hann náði sínum botni. Ástæða þess að hann rifjar þetta upp nú er að hann var að ljúka þrifum á klósettinu sínu. „Nú hef ég lokið við ofurhreingerningu á klósettinu mínu. Vissulega tekið einhver símtöl og gert eitthvað sem einhverjum þykir kannski merkilegra en klósettþrifin, en þau standa upp úr hjá mér. Það ætti ekki að vera frásagnarvert að gera jafn hversdagslegan hlut og þrífa klósettið sitt, en þessi athöfn skipar helgan sess í mínum huga,“ segir Kolbeinn.

Hann segir að á Staðarfelli hafi hann fengið tækifæri til að snúa lífi sínu við. „Í mars 2014 náði ég mínum botni og gafst tækifæri til að snúa lífi mínu við. Fyrir það verð ég ævarandi þakklátur og ekki síst fyrir þær tvær vikur sem ég eyddi í að þrífa klósett sem 30 kallar vestur í Dölum notuðu,“ segir Kolbeinn.

Hann segir enn fremur að vegna þessa þá séu klósettþrif sín messa: „Þessi iðja, að hefja hvern morgun á því að þrífa misgeðsleg klósettin, varð í mínum huga að metafóru fyrir mitt nýja líf. Ég, sem hafði allt of lengi hugsað um of um eigin hag, fékk nú færi á að þrífa eftir aðra og fyrir aðra. Og þarna, á Staðarfelli, varð til sá grunnur sem ég byggi líf mitt enn á í dag; að lífið snúist meira um að gefa en þiggja. Þess vegna eru klósettþrif mínar messur. Þar kemst ég í samband við auðmýktina og þannig reyni ég að fara í verkefni hvers dags; af auðmýkt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.