Hafnfirskur piltur birtir myndband af föður sínum að rassskella 11 ára bróður: „Þetta er leikið“

30 þúsund í áhorf – Sitt sýnist hverjum í athugasemdum – Segir dómgreindarleysi að taka þátt

Sextán ára piltur í Hafnarfirði heldur út YouTube-síðu þar sem hann birtir myndbönd sem sýna hann stela í verslunum. Eitt myndband sýnir hann kasta yngri bróður sínum í læk og heitir það myndband: „Bróðir minn drukknaði næstum“. Faðir piltsins segir að öll myndböndin séu sviðsett eða leikin.

Pilturinn hefur birt tólf myndbönd síðustu þrjá mánuði. Auk þess sem hér er nefnt að framan má sjá myndband á síðunni hans þar sem faðir hans rassskellir 11 ára son sinn. Í samtali við DV segist faðir drengsins vita af YouTube-síðunni og viðurkennir að það hafi verið dómgreindarleysi að taka þátt í myndbandinu. Það myndband hefur vakið athygli og fengið um 30 þúsund áhorf sem er ansi mikið á íslenskan mælikvarða. Hundruð komment eru undir myndskeiðinu og sitt sýnist hverjum. Faðirinn fullyrðir eins og áður segir að um leikin myndbönd séu að ræða. Hann segir:

„Ég er búinn að kynna mér þetta alveg og eiga samtöl við bæði fólk frá Krónunni og lögreglunni í Hafnarfirði og annað slíkt. Þetta er leikið, sérstaklega hvað varðar bræður hans. Síðan er hitt, eins og þetta Krónu-myndband, þá töluðu þeir við, skilst mér, vaktstjóra áður, sem vill ekki láta nafn síns getið,“ segir faðir piltsins og bætir við að engir eftirmálar hafi verið af myndböndunum.

Í einu myndbandi kastar pilturinn yngri bróður sínum í læk.
„Drukknaði næstum“ Í einu myndbandi kastar pilturinn yngri bróður sínum í læk.

Þrjátíu þúsund áhorf

Myndbandið sem sýnir manninn rassskella son sinn hefur vakið nokkra athygli á YouTube og eru áhorf komin í tæp 30 þúsund. Það er áberandi mest allra myndbanda á aðganginum sem flest hafa um tvö þúsund áhorf. Myndbandið sýnir 11 ára drenginn spila tölvuleik að því er virðist klukkan hálf fimm um nóttu. Pilturinn er tapsár og kastar síma sínum frá sér. Því næst kemur faðir drengjanna inn í herbergið og tekur hann í 11 ára drenginn eftir að pilturinn segir honum að þegja. Því næst er drengurinn rassskelltur.

Líkt og fyrr segir fullyrðir faðir drengjanna að þetta sé allt leikið. „Þeir sögðu mér að slá fastar, svo það væri raunverulegt,“ segir faðir piltanna.

Nærri þrjú hundruð ummæli hafa fallið í athugasemdum við myndbandið og sitt sýnist hverjum. Margir eru á því máli að þetta sé hreint og klárt ofbeldi gagnvart drengnum meðan aðrir segja þetta eðlilega leið til að ala börn upp. Á Íslandi er ólöglegt að rassskella börn og hafa menn verið dæmdir fyrir það. Árið 2015 var til að mynda faðir fjögurra ára drengs dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að rassskella drenginn.

Í einu myndbandi skýtur pilturinn yngri bróður sinn með pílu.
Varir við blóð Í einu myndbandi skýtur pilturinn yngri bróður sinn með pílu.

Hefur talað við lögregluna

Faðir drengjanna segir að sá elsti sem birtir myndböndin beri ábyrgð á þeim. „Hann ber ábyrgð á því sem hann gerir, hann er sextán ára gamall. Þetta myndband sem þú vísar í, auðvitað fengum við hringingar og það var mikil umræða sem við fórum bara í gegnum sem náði hámarki þegar við töluðum við lögguna sem vildi tékka hvort allt væri í lagi, hvort það væri virkilegt vandamál í gangi. Þar með lauk þessari umræðu,“ segir faðir drengjanna en myndbandið sem sýnir rassskellinguna var sett á YouTube í ágúst.

Hann segir það hafi sennilega verið dómgreindarleysi hjá sér að taka þátt í myndbandi sonar síns og hann hafi ekki áttað sig á því að þetta gæti misskilist. Hann ætlar að fara fram á það að sonur sinn, sem líkt og fyrr segir er ólögráða, merki öll myndbönd sérstaklega sem leikið efni.

Öryggisvörður virðist ráðast á piltinn í einu myndbandinu þar sem hann er að stela vöru í Krónunni. Fullyrt er að myndbandið sé leikið.
Rænir og ruplar Öryggisvörður virðist ráðast á piltinn í einu myndbandinu þar sem hann er að stela vöru í Krónunni. Fullyrt er að myndbandið sé leikið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.