Fann risastóra rottu – „Hélt að þetta væri kanína“

Rottan eða hvað þetta nú er í greipum Martina.
Rottan eða hvað þetta nú er í greipum Martina.
Mynd: Facebook

Þegar Martina Gustafsson var að sinna starfi sínu við gatnahreinsun í Gautaborg í Svíþjóð nýlega fann hún dauða rottu utan við Casino Cosmopol í miðborginni. Vinnufélagi hennar tók mynda af henni með rottuna og hefur hún vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum enda óar flestum við rottu af þessari stærð.

Aftonbladet hefur eftir Martina að hún hafi í fyrstu haldið að þetta væri kanína.

„Ég hélt fyrst að þetta væri kanína eða eitthvað álíka. En síðan brá okkur mjög.“

En það eru ekki allir sannfærðir um að dýrið sem sést á myndinni sé rotta. Jan Jungerstam, líffræðingur og rottusérfræðingur hjá Anticimex, sagði í samtali við Aftonbladet að hann teldi að hér væri um annarskonar nagdýr að ræða.

„Ég held að þetta sé óvenjulega stór evrópsk vatnarotta. Ef maður skoðar höfuðið er nefið of slétt til að geta verið á rottu. Vatnarotta er dýr sem er í náttúrunni okkar og veldur mönnum engu tjóni.“

Vatnarottur eru ekki taldar vera meindýr eins og rottur.

En ekki eru allir sammála Jungerstam og líflegar umræður spunnust á samfélagsmiðlum um þetta stóra dýr. En síðan er vert að hafa í huga að kannski er rottan (eða dýrið) ekki eins risastór og ætla má af myndinni því hugsanlega spilar inn í úr hvaða vinkli myndin var tekin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.