Eitthvað hræðilegt er á seyði í Lumberton- Þrjár konur hafa verið myrtar og tvær eru týndar

Abby Patterson.
Abby Patterson.
Mynd: Facebook

Er raðmorðingi á ferð í bænum Lumberton í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum? Þessari spurningu hefur mikið verið velt upp á samfélagsmiðlum að undanförnu sem og í fjölmiðlum. Tilefnið er að þrjár konur hafa verið myrtar í bænum á undanförnum mánuðum og tvær eru týndar.

Um 21.000 manns búa í Lumberton sem telst því ekki stór bær á bandarískan mælikvarða og því vekja málin enn meiri athygli og óhug fólks en sambærilegt mál myndi kannski gera í stórborg.

Þann 18. apríl fundust lík Christina Bennett, 32 ára fimm barna móður, og Rhonda Jones. Lík Bennett var illa farið og mjög rotið þegar það fannst í yfirgefnu húsi í bænum. Líki Jones hafði verið troðið ofan í ruslatunnu í nágrenninu.

Daginn eftir tók CBS North Carolina sjónvarpsstöðin viðtal við vinkonu Jones, Megan Ann Oxendine, um málið. Þremur vikum síðar fannst líka Oxendine í um 200 metra fjarlægð frá staðnum þar sem lík Bennett og Jones fundust. ABC11 hefur eftir vinum Oxendine að hún hafi verið nakin, bundin og mjög blóðug.

Lögreglan hefur ekkert viljað segja um hvernig dauða kvennanna bar að og hefur heldur ekki viljað staðfesta að málin tengist eða hvort þau tengist hvarfi Abby Lynn Patterson, 20 ára, og Cynthia Jacobs, 41 árs, sem hafa ekki fundist. Konurnar börðust allar við sameiginlegan óvin því þær glímdu allar við fíkniefnavanda.

Það var hvarf Abby Patterson sem kom hreyfingu á málið og vakti athygli á dauða hinna þriggja fyrrgreindu kvenna og hvarfi Cynthia Jacobs. Petterson er ung og aðlaðandi kona sem var í heimsókn hjá móður sinni í Lumberton. Hún hafði nýverið lokið við meðferð við fíkniefnavandanum sem hún glímdi við.

Lögreglan segir að hún hafi yfirgefið heimili móður sinnar, Samantha Lovett, þann 5. september og hafi ætlað að koma aftur heim eftir klukkustund. Hún sást setjast inn í gamlan Buick bíl sem karlkyns kunningi hennar ók. Síðan hefur ekkert til hennar spurst en síðast er vitað um ferðir hennar innan við einum kílómetra frá þeim stað þar sem líkin þrjú fundust.

Mynd: Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.