WOW air hefur flug til JFK

Þann 26. apríl mun WOW air fljúga sitt fyrsta flug á John F. Kennedy flugvöll í New York. Þangað verður flogið daglega næsta sumar en sala á flugsætum hófst í morgun.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að einnig verði áætlunarferðum á Newark-flugvöll fjölgað úr sjö í þrettán. Samanlagt mun WOW air bjóða upp á 20 flug á viku á milli Íslands og New York sumarið 2018.

„New York flugin okkar hafa gengið mjög vel enda einstök borg í alla staði. Með því að bæta JFK flugvelli við svo og að nánast tvöfalda tíðnina á Newark flugvöll erum við að stórauka framboð okkar sem mun styrkja leiðarkerfið okkar enn frekar. Einnig höfum við fundið fyrir mun meiri viðskiptafarþegum undanfarið og aukin tíðni er liður í að þjónusta þeirra þarfir enn betur,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í tilkynningunni.

Auk New York býður WOW air upp á flug til 13 borga í Norður Ameríku: Boston, Washington D.C., Cincinnati, Cleveland, Dallas, Detroit, Los Angeles, Miami, Montréal, Pittsburgh, San Francisco, St. Louis og Toronto.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.