Vilhelm fékk tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa í tvígang barið og skallað sambýliskonu: „KÞBAVD að láta berja sig átakalaust“

Karlmaður á fertugsaldri, Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson, var á fimmtudaginn dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir endurtekið ofbeldi í nánu sambandi. Vilhelm var dæmdur fyrir að hafa í tvö mismunandi skipti ráðist harkalega á þáverandi sambýliskonu sína.

Samkvæmt dómi átti fyrra atvikið sér stað þann 1. maí síðastliðinn en þá sló Vilhelm konuna hnefahöggi og skallaði hana í andlit. Því næst ýtt hann henni upp að vegg með því að leggja framhandlegg sinn upp að hálsi hennar og haldið henni þannig fastri og eftir að hún náði að losa sig, ráðist að henni á ný og haldið henni niðri á gólfinu

Seinna atvikið átti sér stað daginn eftir, 2. maí. Þá réðst Vilhelm að henni með hnefahöggum, skallaði hana ítrekað í andlit og hrinti henni í gólfið þannig að enni hennar skall í gólfið. „Afleiðingar árásanna fyrir brotaþola voru þær að hún hlaut bólgur og mar um allt andlit, ekki síst á miðju enni, en einnig yfir kinnbeinum og vinstra megin á kjálka. Eymsli og bólgur á vörum og þreifieymsli yfir mjúkpörtum öllum aftan á hálsi og herðum beggja vegna,“ segir í dómi.

Vilhelm hefur ítrekað komist í kast við lögin en hefur undanfarin ár fengið fjölda dóma, þar á meðal einu sinni fyrir brot sem tengt er við vísvitandi ofbeldi.

Líkt og fyrr segir var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og hefur dómurinn vakið nokkuð hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. Vísir fjallaði um málið í gær og í athugasemdum við fréttina lýstu margir hneykslun sinni. „Enn og aftur sýna dómstólar landsins að þeir eru ónýtir,“ segir Jón Guðmundsson og fleiri taka í svipaðan streng. Heiða bendir á það sé ekki skrýtið að svona ofbeldi endurtaki sig aftur og aftur.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors fjárfestis, gagnrýnir dóminn harðlega á Facebook-síðu sinni. Hún segir:

„Dómarinn leit sérstaklega til þess, að hann hafði áður verið dæmdur fyrir ofbeldi og ÞYNGDI þess vegna dóminn. Það gekk auðvitað ekki. Þess vegna var fundin refsilækkunarástæða. Hún fannst í c-lið 218. gr. hegningarlaga: "Nú er líkamsárás unnin í áflogum eða átökum milli þess, sem henni veldur, og þess, sem misgert er við og er þá heimilt að lækka refsingu eða jafnvel láta hana falla niður . . ." Bingó! KÞBAVD að taka ekki á móti, heldur láta berja sig átakalaust. Margir taka undir gagnrýni hennar og meðal þeirra er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, sem segir: „Ömurð“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.