Hólmfríður dæmd fyrir að stinga mann í brjóstkassa: „Með þessu svarað áskorun brotaþola um að stinga sig“

Mynd: © Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hólmfríður Kristín Fjeldsted, fædd árið 1995, hefur verið dæmd í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás en hún stakk karlmann með hnífi, með 12,5 sentímetra löngu blaði, hægra megin í brjóstkassa.

Hólmfríður var ákærð fyrir tilraun til manndráps en dómari taldi að hún hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem gæfi til kynna að hún ætlaði að drepa manninn.

Atvikið átti sér stað í Reykjavík árið 2015. Maðurinn hlaut samkvæmt dómi eins cm breitt stungusár í þriðja rifjabil á miðjum hægri hluta brjóstkassa, loftbrjóst hægra megin, áverka á hægra lunga sem náði tæpa fimm cm inn í lungað, blæðingu í brjósthol hægra megin og loft í húð í hægri brjóstvegg.

Athygli vekur að samkvæmt dómi kom maðurinn í fylgd lögreglu og í handjárnum á slysadeild. Fyrir dómi var lagt fram vottorð læknis þar sem kemur fram að Hólmfríður hafi lýst margra ára vanda með vanlíðan, kvíða og depurð, sem og skapsveiflum og miklum erfiðleikum við reiðistjórnun með átökum við annað fólk og sjálfsskaðlega hegðun. Hún var þó sögð sakhæf og ekki í geðrofi.

„Var hún í ójafnvægi og virðist að einhverju leyti hafa með þessu svarað áskorun brotaþola um að stinga sig. Mörg dómafordæmi eru um að hnífsstunga í brjóstkassa vinstra megin er svo nærri hjarta að langlíklegast verði að telja að hún valdi dauða þess sem fyrir verður. Slíkri stungu fylgir jafnan bráðaaðgerð þar sem hnífurinn gengur annað hvort mjög nærri hjarta eða inn í það,“ segir í dómi.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Hólmfríður játaði greiðlega háttsemi sína. Þá var nokkuð um liðið síðan brotið var framið. „Verður ákærðu ekki um þann drátt kennt. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem fært þykir að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.