Frjálshyggjumenn æfir yfir hátíðarfundi byltingarinnar – Einn vill henda þeim úr þyrlu: „Svavar Knútur mætir á afmælisveislu helfararstefnu“

Þorvaldur Þorvaldsson (t.v.) formaður Alþýðufylkingarinnar og Svavar Knútur tónlistarmaður.
Iðnó Þorvaldur Þorvaldsson (t.v.) formaður Alþýðufylkingarinnar og Svavar Knútur tónlistarmaður.

Frjálshyggjumenn hafa á Facebook tekið afar illa í hátíðarfund vegna hundrað ára afmælis Októberbyltingarinnar sem haldinn verður í Iðnó í kvöld.

Fundurinn er á vegum Alþýðufylkingarinnar, MFÍK, MÍR og Sósíalistaflokki Íslands en í dag eru hundrað ár frá byltingu bolsévika í Rússlandi undir stjórn Leníns. Samkvæmt lýsingu á viðburðinum mun Sólveig Hauksdóttir flytja ljóð og munu Svavar Knútur, Þorvaldur Örn Árnason og Þorvaldur Þorvaldsson, oft kallaður Albaníu-Valdi, sjá um tónlist.

Boða mótmæli

Íslenskir frjálshyggjumenn eru ekki alls kostar ánægðir með að haldið sé upp á þann atburð og hafa stofnað til mótmæla við Iðnó. „Friðarsinnar koma saman fyrir utan Iðnó til að mótmæla þeim skelfilegu blóðsúthellingum og fjöldamorðum sem áttu sér stað í kringum Októberbyltinguna í Rússlandi 1917. Aðdáendur byltingarinnar munu halda upp á hundrað ára afmæli hennar, en okkur ber að sýna þeim að það er ekkert virðingavert við það að fagna blóðsúthellingum og morðum á samlöndum sínum í þágu nokkurs málstaðar,“ segir í lýsingu þess viðburðar en rétt er að taka fram að fáir hafa skráð mætingu sína.

Þessi mótmæli voru í gær auglýst í Facebook-hópnum Frjálshyggjufélagið og þar skrifaði Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður Morgunblaðsins: „Ég á afmæli á morgun, langar að mótmæla því að kommadruslur hertaki daginn minn.“

Svavar Knútur „mætir svo á afmælisveislu helfararstefnu“

Í gær skrifaði Sigurjón Sveinsson færslu í sama hóp þar sem hann spyr hvers vegna fólk eins og Svavar Knútur og Erpur Eyvindarson geti hugsað sér að mæta á fundinn. „Þannig að það gæti verið góð skemmtun að kíkja við og minna viðstadda á hvaða viðbjóður kommúnisminn er. Og bjóða viðstöddum að halda líka upp á 130 ára afmæli Hitlers 20. apríl 2019. Svona fyrst þetta fólk er að minnast með söknuði verstu helfararstefnu síðustu aldar.

„Endilega kíkið líka á hverjir hafa boðað komu sína þangað. Svavar Knútur ætlar að rokka pleisið með tónlist, Sólveig Anna Jónsdóttir ætlar að halda ræðu, Blaz Rocka ætlar að mæta (hefur meldað sig „going“) og svo framvegis. Án gríns, ég get engan veginn skilið t.d. fólk eins og Svavar Knút, sem dags daglega er dagfarsprúður einstaklingur, góðhjartaður og að eigin mati réttsýnn, en mætir svo á afmælisveislu helfararstefnu eins og ekkert sé sjálfsagðara,“ skrifar Sigurjón.

Hrottaskapur að henda fólki úr þyrlum

Í dag birtir Ísleifur nokkur Kári mynd af plakati þar sem fundurinn er auglýstur og skrifar: „Við lifum á tímum þar sem fáir virðast fordæma alræðishyggju kommúnismans. Ef alltof fáir mæta á þessi friðarmótmæli ykkar er alltaf hægt að fá lánaða þyrlu landhelgisgæslunnar.“

Þar vitnar Ísleifur til fjöldamorða hægrisinnaðra stjórna í Suður-Ameríku, svo sem einræðisstjórnar Augusto Pinochet í Chile, á kommúnistum en þeim var oft fleygt úr þyrlum í háloftum. Gunnlaugur Jónsson, einn þekktasti talsmaður frjálshyggju hér á landi, gagnrýnir þetta orðalag Ísleifs. „Ég myndi mæla með því að góðir frjálshyggjumenn reyndu að forðast þetta þyrlutal, þótt í gríni sé,“ segir Gunnlaugur.

Því svarar Ísleifur Kári: „Ef frelsið hefði ekki verið varið með kjafti og klóm af Pinochet væri Chile kommúnistaríki í dag. Just saying.“ Gunnlaugur segir að það kunni að vera rétt en þrátt fyrir það hafi það verið hrottaskapur og svona tal ekki uppbyggilegt né líklegt til að afla frjálshyggjumönnum fylgis.

„Það er nokkuð augljóst að þetta lið myndi samstundis taka fólk eins og okkur af lífi ef það gæti. Ég segi bjóða hinn vangann fyrir vingjarnlega, en auga fyrir auga fyrir siðlausa óvini. Ég er samt sammála þér að nokkru leyti, þetta er spurning um að sýna moral highground og sanna það að hægri menn vilja ekki fremja fjöldamorð. Hins vegar þarf eitthvað að gera í upprisu sósíalisma hér á landi, þá er ég að tala um annað en að röfla á netinu,“ svarar Ísleifur Kári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.