Dæmdar bætur vegna handtöku og líkamsleitar hjá lögreglunni á Akranesi: Upplifði sig berskjaldaðan og niðurlægðan

Mynd: Mynd: DV

Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða karlmanni 450 þúsund í miskabætur vegna ólögmætra þvingunaráðstafana. Maðurinn fór upphaflega fram á 1,5 milljónir í bætur fyrir að hafa verið verið handtekinn, sviptur frelsi sínu og færður í fangaklefa þar sem hann var látinn gangast undir líkamsrannsókn auk þess að leitað var í bifreiðinni sem hann hafði til umráða.

Lögmaður ríkisins viðurkenndi bótaskyldu á grundvelli sakamálalaga vegna aðgerða lögreglu gagnvart manninum, annarra en vegna leitar í bifreiðinni, og snerist ágreiningurinn fyrir dómi fyrst og fremst um upphæð bótanna.

Ekkert fannst við leit

Fram kemur í dómnum að þann 21.ágúst 2015 hafi maðurinn verið í bíl á leið til Reykjavíkur ásamt fleiri ungmennum og börnum. Ók hann sjálfur bifreiðinni en skráður eigandi bílsins var meðal farþeganna. Var bifreiðin stöðvuð af lögreglu á Vesturlandsvegi í Hvalfjarðarsveit og segir í skýrslu að fyrr um daginn hafi borist nafnlaus ábending um að í bifreiðinni væru fíkniefni og að ökumaður og farþegar væru undir áhrifum fikniefna.

Lögreglumaður ók bifreiðinni að lögreglustöðinni á Akranesi með farþegum, sem þá voru taldir vera fjórir. Þegar lögregla leitaði í bifreiðinni fundust engin fíkniefni en hins vegar kom í ljós kom að fimmti farþeginn, 16 ára stúlka, hafði legið á gólfi bifreiðarinnar aftur í.

Stúlkan sætti líkamsleit á lögreglustöðinni en stefndi síðar ríkinu vegna málsins og voru henni dæmdar 800.000 krónur í miskabætur. Hér má sjá frétt DV um málið. Hin ungmennin voru einnig látin sæta líkamsleit en ekkert saknæmt fannst á neinu þeirra og voru þau látin laus eftir tveggja til þriggja klukkustunda hald á lögreglustöðinni.

Fram kemur að ökumaðurinn, stefnandinn í málinu hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöðina á Akranesi þar sem leitað var á honum en ekkert saknæmt hafi fundist. Hann var færður í fangaklefa og gert að gefa þvagsýni, sem við skimun reyndist neikvætt á öll fíkniefni. Samkvæmt lögregluskýrslu stóð frelsisvipting mannsins yfir í tæpar þrjár klukkustundur.

Í kjölfarið var manninum einnig gert að greiða 10 þúsund króna sekt þar sem að hjólbarðar bílsins voru í ólagi og of margir farþegar fluttir.

Berskjaldaður og niðurlægður

Maðurinn höfðaði í kjölfarið mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta og hélt því fram að þvingunarráðstafanir lögreglu, það er að segja handtaka, líkamsleit, líkamsrannsókn og leit í bifreið, hefðu verið gerðar honum að ósekju. Lagði hann fram þau rök að þvingunarráðastafanir lögreglu hefðu ekkert að gera með þau brot sem hann var sektaður fyrir, það er að segja brot á umferðarlögum. Þær þvingunarráðstafanir hefðu komið til vegna gruns lögreglu um að hann væri undir áhrifum fíkniefna við akstur og að hann væri með fíkniefni á sér eða í bifreiðinni. Enginn rökstuddur grunur hefði verið um fíkniefnatengd brot og engin nauðsyn á handtöku.

Sagði hann að frelsissviptingin hefði valdið sér miklu hugarangri, ónotum og miska. Honum hafi verið haldið föngnum á grundvelli rangra ásakana um vörslur fíkniefna og fíkniefnaakstur.

Þá sagði hann líkamsleitina einnig hafa valdið sér miska. Þreifað hefði verið og þuklað á honum og þannig gengið mjög nærri honum þannig að hann upplifði sig berskjaldaðan og niðurlægðan. Þá benti hann á að þvagsýnarannsóknin, sem hann gekkst undir hafi verið líkamsrannsókn í skilningi sakamálalaga. Lífsýni hafi þannig verið tekið úr honum til rannsóknar og með því gengið eins nálægt friðhelgi einkalífs hans og líkama og hægt er.

Maðurinn upplýsti í skýrslu sinni fyrir dóminum að í bifreiðinni sem leitað var í hafi hann haft farangur með fatnaði og persónulegum munum. Auk þess hafi hann verið með bæði ferskan og frosinn fisk í bílnum, um 20 kíló af hvoru, sem hann kvaðst hafa haft áhyggjur af meðan á haldi hans stóð á lögreglustöðinni. Hann hafi verið á leið til helgardvalar hjá afa sínum og ömmu í Reykjavík, þangað sem hann loks kom seint um kvöldið. Við leit í bifreiðinni skoðaði lögregla fatnað og muni mannins í leit sinni að fíkniefnum og taldi maðurinn að með slíkri leit væri friðhelgi einkalífs raskað. Þá tók hann til þess í skýrslu sinni fyrir dóminum að þessar aðgerðir kæmu illa við sig þar sem lögregla í hans heimabæ hafi komið að málinu. Það væri óþægilegt vegna samstarfs sem hann þyrfti að hafa við lögreglu sem björgunarsveitarmaður í heimabyggð.

Lögmaður ríkisins taldi manninnn ekki eiga rétt til bóta vegna leitar í bifreiðinni þar sem hann hafi ekki verið skráður eigandi hennar. Í dómnum er hins vegar bent á að manninum var engu að síður verið gert að greiða sekt vegna ástands bifreiðarinnar, auk sektar vegna aksturs með of marga farþega. Hann hafi verið ökumaður og umráðamaður bifreiðarinnar og í henni voru persónulegir munir hans. Telst hann leitarþoli í skilningi sakamálalaga.

Bótakrafan talin of há

Við dómsuppkvaðningu var litið til fyrrnefnds máls sem varðaði hina 16 ára gömlu stúlku sem var farþegi í bifreiðinni umrætt kvöld og voru dæmdar 800 þúsund krónur í miskabætur vegna aðgerða lögreglu.

Fram kemur að hald mannsins á lögreglustöðinni þetta kvöldi hafi ekki staðið skemur en hjá stúlkunni. Hann hafi verið á lögreglustöðinni í haldi í fangaklefa, en ekki verið ekki læstur inni. Öfugt við stúlkuna var líkamsleitin á manninum utan klæða og því ekki eins nærgöngul og lýst var í máli stúlkunnar. Þá var litið til þess að maðurinn var orðinn var 21 árs þegar atvik málsins urðu, öfugt við stúlkuna sem var ólögráða á þessum tíma.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að af gögnum málsins verði ekki ráðið að legið hafi fyrir rökstuddur grunur um refsiverð fíkniefnabrot þegar ráðist var í handtöku, leit í bifreið, líkamsleit og töku þvagsýnis. Ekki verði því séð að nægilegt tilefni hafi verið til þessara aðgerða lögreglu.

Umkrafin bótafjárhæð þótti hins vegar of há miðað við málsatvik og dómaframkvæmd og var því hæfileg bótafjárhæð ákveðin 450.000 krónur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.