Segja að sprengigos geti orðið í Kötlu

Kötlugos 1918.
Kötlugos 1918.

Í umfjöllun Norska ríkisútvarpsins, NRK, um Kötlu og Kötlugos kemur fram að þegar Katla gýs næst þá muni áhrifa gossins gæta víða utan Íslands. Nú eru 99 ár frá síðasta gosi í Kötlu og margir telja að nú sé kominn tími á gos segir í umfjöllun NRK.

Fréttamaður NRK fór til Íslands til að vinna frétt um Kötlu og ræddi meðal annars við Kristínu Jónsdóttur, jarðeðlisfræðing hjá Veðurstofunni, og Melissu Pfeffer, eldfjallafræðing hjá Veðurstofunni. Í umfjöllun NRK er haft eftir Kristínu Jónsdóttur að samhliða hnattrænni hlýnun bráðni meiri ís á sumrin og léttist ísfargið sem er ofan á Kötlu sem aftur leiði til aukinna virkni í eldfjallinu. Því aukist líkurnar á gosi samhliða þessu.

Haft er eftir Melissu Pfeffer að með allan þann snjó og ís sem er ofan á Kötlu þá geti orðið sprengigos þegar Katla gýs. Hún benti einnig á þegar Katla gýs geti myndast risastór öskuský sem geti haft áhrif á flugumferð en auk þessi geti orðið mikil flóð nærri Mýrdalsjökli.

Í frétt NRK er einnig rætt við Víði Reynisson, lögreglufulltrúa á Suðurlandi, en hann sinnir almannavarnarmálum á svæðinu. Haft er eftir honum að ef Katla gýs þá hafi fólk á svæðinu nærri henni um klukkustund til að komast á brott. Bent er á að árlega komi um 2,5 milljónir ferðamanna til Íslands og margir þeirra ferðist á eigin vegum og það geti orðið erfitt að ná sambandi við þá og vara þá við ef til goss kemur. Viðvörunarkerfi almannavarna er þó þannig útbúið að skilaboð, á íslensku og ensku, verða send í alla farsíma sem eru tengdir farsímasendum nærri Kötlu ef til goss kemur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.