Ráðist á 16 ára son Ernu: Lögregla útskýrir hvers vegna honum var ekið í lögreglubíl á slysadeild

Gagnrýndi vinnubrögð lögreglu.
Erna Marín Gagnrýndi vinnubrögð lögreglu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu vegna frétta af málefnum sextán ára pilts sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás um helgina.

RÚV fjallaði um málið í gærkvöldi og birti DV frétt um málið í morgun.

Pilturinn var skilinn eftir meðvitundarlaus eftir árásina og gagnrýndi móðir hans, Erna Marín Baldursdóttir, að hann hafi verið tekin upp í lögreglubíl eins og ástandið var á honum, stórslasaður. Ástæða þess að hann hafi ekki verið fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku hafi verið sú að hann hafi verið talinn undir áhrifum.

„Vegna fréttar RÚV í gærkvöld um hrottalega líkamsárás á mótum Engjavegar og Gnoðarvogs í Reykjavík aðfaranótt laugardags og aðkomu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skal upplýst að hún fékk tilkynningu um málið kl. 0.14 umrædda nótt. Fljótlega eftir að lögregla kom á vettvang, kl. 0.20, vaknaði grunur um að viðkomandi hefði orðið fyrir líkamsárás. Var ákveðið að fara með hann strax á slysadeild í stað þess að bíða eftir sjúkrabifreið. Ekki tókst að upplýsa strax hver pilturinn væri, en um leið og það tókst var haft samband við móður hans,“ segir lögreglan í tilkynningunni.

Sonur Ernu hlaut mikla áverka á höfði, opið sár á hnakka og glóðarauga auk þess að vera marinn víða um líkamann.
Að sögn lögreglu hefur rannsókn málsins verið í fullum gangi hjá embættinu alla helgina. Rætt hefur verið við allmarga í tengslum við hana, auk þess sem kannað er með upptökur úr öryggismyndavélum.

„Lögreglan biður jafnframt alla þá sem kunna að geta varpað ljósi á málið að hafa samband í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið 0111@lrh.is í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.